Af hverju styður Ingibjörg Sólrún ekki Magnús Orra til formennsku?

Magnús Orri Schram, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar hefur ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í flokkum á landsfundi í sumar. Af því tilefni skrifar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður:

„Forystumaður Samfylkingarinnar í Landsdómsmálinu hefur stigið fram og telur sig vel til flokksforystu fallinn.“

Augljóst er að Ingibjörg Sólrún verður ekki í stuðningsliði Magnúsar Orra í formannsslagnum. Ummælin fylgdu með þegar Ingibjörg Sólrún deildi auglýsingu fyrir vefsíðunni magnusorri.is á Fésbók.

En hvað á þessari fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar við?

Vildi ákæra Ingibjörgu Sólrúnu

Magnús Orri Schram átti sæti í þingmannanefndinni svokölluðu, en meirihluti hennar taldi rétt að höfða mál gegn fjórum fyrrverandi ráðherrum í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þingmannanefndin vann enga sjálfstæða rannsóknarvinnu heldur studdist við skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis [RNA].

Magnús Orri Schram lagði fram breytingatillögu ásamt Oddnýu Harðardóttur (sem mun huga að formannsframboði) þar sem lagt var til ákæra næði aðeins til þriggja fyrrverandi ráðherra. Ekki skyldi ákæra Björgvin G. Sigurðsson. Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Árni Mathiesen, skyldu hins vegar koma fyrir Landsdóm
Alþingi greiddi atkvæði um hverja og eina ákæru. Niðurstaðan varð sú aðeins Geir H. Haarde þurfti að sæta því að vera dreginn fyrir Landsdóm. Atkvæðagreiðslan var snilldarlega hönnuð sem ekki verður rakið hér, að þessu sinni.

Magnús Orri Schram tók að sér að reyna að verja gjörðir meirihlutans. Í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið 14. maí 2011 sagði meðal annars:

„Með því er ekki sagt fyrir um sekt eða sakleysi, enda er það landsdóms að komast að efnislegri niðurstöðu og ber ég fullt traust til þess að þar njóti Geir sanngjarnrar og réttlátrar málsmeðferðar og að málinu ljúki með efnislega réttri niðurstöðu.“

Ein meginregla réttarríkisins er að enginn þurfi að sæta ákæru nema því aðeins að ákæruvaldið (í þessu tilfelli Alþingi eða meirihluti þess) sé sannfært um að viðkomandi hafi í raun brotið lög og að meiri líkur en minni séu á sakfellingu. Ákæruvaldið tekur því afstöðu. Ákæra er yfirlýsing um að talið sé að hinn ákærði hafi brotið lög.
Í greininni sagðist Magnús Orri hafa tekið „afstöðu til þeirra upplýsinga sem komu fram í viðamikilli skýrslu RNA um embættisfærslur viðkomandi ráðherra“. Nægar málsástæður hafi verið fyrir hendi til þess að vísa ætti málum til landsdóms. Athyglisvert er að þingmaðurinn skýrði í engu hvað við er átt með málsástæðum og engu er líkara en að hann hafi lítið velt því fyrir sér hvort og þá hverjar líkur á sakfellingu voru.

Magnús Orri sagðist hafa vísað málinu til Landsdóms, „þar sem meðal annarra, okkar vísustu lögspekingar, gætu ákvarðað hvort fyrrverandi forsætisráðherra hefði brotið lög um ráðherraábyrgð eða ekki“.

Kom í veg fyrir efnislega niðurstöðu

Í desember 2011 lagði Bjarni Benediktsson, formaðir Sjálfstæðisflokksins, fram tillögu um að draga til baka ákæruna á hendur Geirs H. Haarde. Magnús Orri flutti frávísunartillögu sem var samþykkt og kom því aldrei til þess að þingmenn þyrftu að taka efnislega afstöðu til þess að afturkalla ákæruna.
Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins 16. desember 2011, eftir að Bjarni Benediktsson lagði fram tillögu um frávísun ákærunnar, gekk Magnús Orri lengra en áður í að réttlæta ákæruna og spurði hvort ekki væri farsælast fyrir Geir H. Haarde, væri hann saklaus, „að fá stimpil á það frá landsdómi um að svo sé“.

Málflutningur Magnúsar Orra var í takt við skoðanir og hugmyndir Björns Vals Gíslasonar, þingmanns VG og núverandi varaformanns. Björn Valur skrifaði á bloggsíðu sín 8. júní 2011:

„Ég hef ekki hugmynd um hvort Geir H Haarde er sekur eða saklaus. Mér finnst það hinsvegar til fyrirmyndar af okkur íslendingum að láta á það reyna fyrir dómi – loksins – hvort stjórnmálamaður af hans kaliberi geti verið ábyrgur gerða sinna í svo alvarlegu máli sem um ræðir.“

Í hugum þeirra félaga, Magnúsar Orra og Björns Vals eru dómstólar eins konar tilraunastofur. Hvorugur þeirra var sannfærður um sekt þess ákærða, en þeim fannst báðum gott að vísa málinu til „okkar vísustu lögspekinga“ til að fá úr því skorið. Engu er líkara en að þingmennirnir hafi litið á málshöfðun fyrir landsdómi svipuðum augum og um sé að ræða deilumál í einkamáli, þar sem dómstólar eru fengnir til að skera úr um ágreining vegna þess að málsaðilar hafa ekki borið gæfu til þess að ná sáttum.

Ef Magnús Orri var ekki sannfærður um sekt Geirs H. Haarde og þriggja annarra fyrrverandi ráðherra, átti hann ekki að styðja að þeim væri stefnt fyrir landsdóm.
Það er þetta sem Ingibjörg Sólrún á við. Spurningin er því sú:

Verður maður, sem hefur verið tilbúinn til að ganga gegn grunnreglum réttarríkisins, breyta dómstólum í tilraunastofur og gefur út ákærur án sannfæringar, næsti formaður Samfylkingarinnar?