Hafist handa við yfirboð og loforð – rúmu ári fyrir kosningar

Kosningabaráttan virðist byrja óvenju snemma.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra er komin í kosningaham. Hún hefur gefið út 8 milljarða kosningavíxil, sem að vísu kemur í hlut nýrrar ríkisstjórnar að tryggja að verði greiddur. Eygló hefur boðað hækkun fæðingarorlofsgreiðslna og lengingu orlofsins. Samkvæmt tillögum nefndar ráðherra eiga breytingarnar að koma til framkvæmda frá og með árinu 2019 og vera að fullu lokið árið 2021.

Ekkert liggur fyrir hvernig ráðherrann vill fjármagna aukinn útgjöld ríkissjóðs, en fæðingarorlof er fjármagnað með hluta tryggingagjalds. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins hefur hins vegar lofað að lækka gjaldið, sem þykir lítið annað en skattur á störf og laun.

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, er ekki hrifinn og í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins segist hann orðinn þreyttur á því að ýmsum hópum sé lofað gríðarlegum fjárhæðum án þess að innistæða sé bak við það:

„Það er nú séríslenskur plagsiður að vera að lofa útgjöldum jafnvel upp á þúsundir milljóna án þess að gera grein fyrir því hvernig á að fjármagna það eða spara á móti. Og reyndar hélt ég að við í þessari ríkisstjórn værum að forgangsraða því að hækka framfærslu eða lífeyrisgreiðslu þeirra sem minnst hafa þar og þá er ég að vísa til eldri borgara og öryrkja. Ég er orðinn þreyttur á þessari umræðu þegar menn eru að koma og lofa hinum ýmsu hópum jafnvel gríðarlegum fjárhæðum án þess að það sé innstæða á bak við það. Við erum bara að vinna innan ákveðins ramma og ef það eru hugmyndir um 8000 milljóna sparnað í félagsmálaráðuneytinu þá mun það koma fjárlaganefnd verulega á óvart, við höfum ekki séð það.“

Þeir sem fylgjast með stjórnmálum komast ekki hjá því að taka eftir að titringur hefur aukist milli stjórnarflokkanna. Karl Garðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur ítrekað harðlega gagnrýnt Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og ekki er langt síðan Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fór hörðum orðum um stefnuna í heilbrigðismálum og fækkun starfsmanna í Skagafirði.

Innan Sjálfstæðisflokksins eru menn sannfærðir um að útspil Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra varðandi staðsetningu nýs Landspítala sem úthugsað til að koma Sjálfstæðisflokknum í vandræði þótt ákvörðunin sé þvert á alla flokka.

Eygló er langt í frá að vera eini ráðherrann sem er farinn að huga að kosningum. Ragnheiður Elín hefur lagt fyrir ríkisstjórnina frumvarp til laga sem gerir ráð fyrir að endurgreiðslur til kvikmyndagerðar verði hækkaðar úr 20% í 25%.

Það bendir allt til þess að samstarfið innan ríkisstjórnarinnar verði stirt það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Enn á eftir að afgreiða fjögur húsnæðisfrumvörp Eyglóar Harðardóttur, en frumvarp um húsnæðisbætur situr mjög í mörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þá er óljóst hvenær félagsmálaráðherra leggur fram frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar, en sjálfstæðismenn hafa áhyggjur af því að ekki takist að afgreiða breytingarnar, ef frumvarpið lítur ekki dagsins ljós fyrr en á komandi hausti. Þeir leggja áherslu á að breytingum um ellilífeyri verði flýtt en sumarið notað til að ná breiðari samstöðu um breytingar á örorkubótum og upptöku starfsgetumats í góðri samvinnu við Öryrkjabandalagið, sem er hefur lagst gegn þeim breytingum sem nefnd ráðherra hefur lagt til.

Innan stjórnarandstöðunnar er einnig væringar. Píratar ætla ekki að styðja tillögur um breytingar á stjórnarskrá og líklegt að er meirihluti þingmanna Samfylkingarinnar feti í fótskor þeirra. Ástæðan er einföld: Báðir þessir flokkar vilja gera breytingar að stjórnarskrá að kosningamáli og því mikilvægt fyrir þá að koma í veg fyrir að einhverjar breytingar verði gerðar í sumar eins og stefnt er að. Hugmyndir um kosningabandalag stjórnarandstöðunnar byggja ekki síst á því að sameinast um breytingar á stjórnarskrá. Þeir óttast að ef breytingar s.s. um rétt til þjóðaratkvæðagreiðslu, verði samþykktar fyrir kosningar, verði mikilvægasta og stærsta baráttumál þeirra dautt, með svipuðum hætti og baráttan fyrir aðild að Evrópusambandinu.