Huglaus, duglaus, hugmyndalaus, hugsjónalaus og hauslaus flokkur

Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri á rætur í Alþýðuflokknum en faðir hans, Magnús H. Magnússon, var þingmaður og ráðherra flokksins auk þess að stýra Vestmannaeyjabæ í tæpan áratug sem bæjarstjóri. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 19. mars skrifar Páll um stöðu íslenskra jafnaðarmanna en fyrir nokkru var því fagnað að öld er liðin frá stofnun Alþýðuflokksins.

Í greininni dregur Páll í efa að saga jafnaðarmanna verði mikið lengri enda hafi hreyfing þeirra aldrei „verið í hraklegra ástandi en einmitt nú“:

„Búin að týna sjálfri sér og reikar um án erindis eða áfangastaðar; huglaus, duglaus, hugmyndalaus, hugsjónalaus og hauslaus.“

Páll eyðir fáum orðum á hinn „jafnaðarmannaflokkinn“, Bjarta framtíð. Nýr formaður hafi ekki gert annað en að endurreisa hljómsveitina Ham.

Páll hefur litla trú á þeim sem sækjast eftir formennsku í Samfylkingunni og spyr:

„Er þessum þingmönnum, gömlum og nýgömlum, fyrirmunað að sjá eigin þátt í því að Samfylkingin er nú að niðurlotum komin – og þeirra hlutur gæti varla orðið annar úr þessu en að veita henni nábjargirnar? Varaformaður flokksins virðist einn þingmanna hans fær um að komast að hinni einu rökréttu niðurstöðu: að hætta í pólitík. Nú er rétt að taka fram að ég held að þetta sé mesta prýðisfólk flest hvert – og ég er ágætlega málkunnugur sumum í þessum hópi. Þau eru hins vegar að þrotum komin í pólitík og flokkurinn þeirra þarf að fara bæði í blóð- og mergskipti – en deyja ella. Í leiðinni ætti að taka aftur upp nafn Alþýðuflokksins; Samfylking er háðsyrði yfir þetta fyrirbæri eins og það er nú orðið.“

Í lok greinarinnar bendir Páll á að hann eigi rætur í Alþýðuflokknum:

„Nú vill þannig til að öll mín uppvaxtarár mátti ég við eldhúsborðið heima heyra talað af miklum þrótti fyrir jafnaðarstefnunni. Ræðumaðurinn kvartaði reyndar oft yfir því að ég væri ekki nógu móttækilegur – og stundum þótti mömmu leiðinlegt að heyra þvarg okkar feðga. Karl faðir minn heitinn var um skeið bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og þingmaður og ráðherra í nafni Alþýðuflokksins. Hann var það sem margir kölluðu þá eðalkrati en þeir sem voru lengst til vinstri á þeirri tíð kölluðu svoleiðis fólk hægrikrata. Það þykist ég vita að megi pabbi heitinn sig á annað borð hræra í gröf sinni þá liggur hann nú á grúfu yfir örlögum jafnaðarstefnunnar á Íslandi.“