Pólitískar galdrabrennur og nytsamir sakleysingjar

Páll Vilhjálmsson heldur því fram að Ríkisútvarpið sérhæfi sig í „aðgerðarfréttum sem endurspegla ekki hlutlæga atburði en eru pólitískar galdrabrennur“. Í pistli á bloggsíðu sinni segir Páll að Píratar séu „nytsamir sakleysingjar fréttastofu RÚV“ þegar vinstriflokkarnir eru rúnir trausti og trúverðugleika.

Tilefni skrifa Páls er frétt Ríkisútvarpsins þar sem því er haldið fram að innan allra stjórnarandstöðuflokkanna á þingi sé rætt um að leggja fram vantrausttillögu á forsætisráðherra vegna upplýsinga um að eiginkona hans eigi félag sem er skráð á Bresku-Jómfrúareyjunum. Haft er eftir Helga Hrafni Gunnarssyni pírata að óhugsandi sé að forsætisráðherra sitji áfram í ljósi upplýsinga sem fram hafi komið.

Páll segir að fréttastofa ríkisins sé trú sinni pólitísku köllun og veðji trúverðugleika Pírata „að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks falli vegna þess að eiginkona forsætisráðherra á peninga á erlendum bankareikningi“:

„Í sexfréttum RÚV var í miðjum fréttatíma kallaður til þingmaður Pírata sem boðaði vantraust á ríkisstjórnina. Í sjöfréttum RÚV var sama frétt gerð að aðalfrétt kvöldsins. Engar nýjar upplýsingar voru í fréttinni. Reynt er að gera fullkomlega löglegan bankareikning eiginkonu forsætisráðherra tortryggilegan með hlutdrægu orðalagi um að hún ,,upplýsti skyndilega í vikunni” um mál sem löngu áður hafði komið fram.“

Páll sér ekki annað en að úr þessu verði Píratar að láta slag standa og leggja fram vantraust á ríkisstjórnina strax eftir páska. Um leið er Páll með skilaboð til þingmanna Sjálfstæðisflokksins:

„Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, til dæmis Vilhjálmur Bjarnason, verða að gera upp við sig hvort þeir leggist á árarnar með stjórnarandstöðunni. Það væri þá annar bragur á þingflokki Sjálfstæðisflokksins en Framsóknarflokksins þegar stjórnarandstaðan og RÚV gerðu atlögu að þáverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.“