Kallar eftir afsögn „áhrifamanns“

„Ég veit ekki til þess að neinn trúnaðarmaður í Samfylkingunni sé í þeim aðstæðum. En það liggur í augum uppi að slíkt er ekki samrýmanlegt trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna.“

Þannig svaraði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurningu blaðamanns mbl.is,  um hvort hann viti til þess að áhrifamaður innan flokksins tengdist félögum í skattaskjólum, líkt og fram hefur komið í fréttum um tengsl íslenskra stjórnmálamanna við aflandsfélög. Árni Páll benti blaðamanni á að Samfylkingin hafi tekið skýra afstöðu gegn skattaskjólum.

Þröstur sér ekki annað en að innan nokkurra daga neyðist „áhrifamaður“ innan Samfylkingarinnar til að segja af sér trúnaðarstöðu sem hann hefur gengt síðustu ár ef marka má fréttir fjölmiðla. Varla kemur annað til greina eftir yfirlýsingu formanns flokksins, jafnvel þótt staða formannsins sé í besta falli veik í aðdraganda aukalandsfundar í júní. Ekki er búist við öðru en að þeir sem sækjast eftir formennsku taki undir kröfu sitjandi formanns um afsögn.Vilhjálmur Þorsteinsson - samfylking.is

Egill Helgason segir í pistli á bloggsíðu sinni að vangaveltur séu um að „áhrifamaðurinn“ sé Vilhjálmur Þorsteinsson. Hann situr í stjórn Samfylkingarinnar og er gjaldkeri flokksins og hefur verið umsvifamikill fjárfestir á undanförnum árum. Vilhjálmur hefur verið virkur í þjóðmálaumræðunni og heldur meðal annars úti bloggi á Eyjunni. Hann mun einnig vera hluthafi í vefsíðunni Kjarninn.is og situr í stjórn fyrirtækisins.