Loforð um félagslegt réttlæti, siðbót, opna stjórnsýslu og aukið gagnsæi

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur, stundaði baktjaldamakk við umsókn að Evrópusambandinu, ætlaði að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu með samningum fyrir luktum dyrum. Þetta er dómur Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar og áður ráðherra í sömu ríkisstjórn. Dóminn felldi Árni Páll í bréfi til félaga í Samfylkingunni 11. febrúar 2016.

„Flokkurinn sem var stofnaður um ný vinnubrögð, íbúalýðræði og almannarétt lokaði að sér og forðaðist samtal og neitaði þjóðinni um aðkomu að stórum ákvörðunum í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ skrifaði Árni Páll meðal annars.

Bréf Árna Páls veitir ákveðna innsýn inn í störf og stefnu vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Í samstarfsyfirlýsingu sagði að ríkisstjórnin ætli að leiða til öndvegis „ný gildi jöfnuðar, félagslegs réttlætis, samhjálpar, sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsis, siðbótar og lýðræðis“. Þá voru fyrirheit um að ríkisstjórnin myndi beita sér fyrir „opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum”.

Með réttu verður því ekki haldið fram að samsteypustjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafi verið mjög upptekin við að hin nýju gildi í stjórnsýslu sinni. Viðbrögð ráðherra við niðurstöðum dómstóla og kærunefnda voru a.m.k. ekki í takt yfir hástemmdar yfirlýsingar. Baktjaldamakk og fundir fyrir luktum dyrum voru ekki aðeins í Evrópumálum eða í misheppnuðum tilraunum til að kollvarpa fiskveiðistjórnunarkerfinu, sem Össur Skarphéðinsson líkti síðar við járnbrautarslys.

Forsætisráðherra gagnrýndi einstakling fyrir að sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Umhverfisráðherra taldi rétt að breyta lögum fyrst dómstólar komust að niðurstöðu sem var honum ekki þóknanleg. Ríkisstjórnin fór í kringum ógildingu Hæstaréttar á kosningu til stjórnlagaþings með því að skipa stjórnlagaráð á grunni ólöglegra kosninga. Og þegar forsætisráðherrann sem jafnframt var ráðherra jafnréttismála, var talinn hafa brotið lög um jafnan rétt kynjanna, var slíkt hundsað og sagt að „faglega” hafi verið staðið að verki.

Um þetta er fjallað ítarlega í nýjasta hefti Þjóðmála. Þar er farið yfir stjórnsýslu vinstri stjórnarinnar, rifjað upp hvernig lagakrókum var beitt og farið á svig við stjórnarskrá, hvernig lagt var til atlögu við embættismenn og eftirlitsstofnanir, sagt frá hvernig þeim, sem fylgdu sannfæringu sinni, var refsað.