8,1 milljarður í ríkisaðstoð

Ríkisaðstoð á Íslandi jókst úr 2,3 milljörðum króna árið 2008 á núvirði í 8,1 milljarð árið 2014, ef aðstoð vegna fjármálakreppunnar er ekki meðtalin. Þetta kemur fram í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins.

Ef ríkisaðstoð vegna fjármálakreppunnar er ekki meðtalin jókst veitt ríkisaðstoð á hverju einasta ári á tímabilinu 2010- 2014. Í fréttaskýringunni kemur fram að ríkisaðstoð sé skilgreind sem aðstoð sem veitt er af hinu opinbera og er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara.

Upplýsingar um ríkisaðstoð eru byggðar á skýrslu ESA, eftirlitsstofnun EFTA. Í nýjustu skýrslu ESA kemur fram að ríkisaðstoð íslenska ríkisins jókst um um 13% árið 2014, einkum vegna aukinnar aðstoðar vegna rannsókna og þróunar og vegna menningararfleifðar. 44% þeirrar aðstoðar sem íslenska ríkið veitti árið 2014 voru vegna rannsókna og þróunar, en 35% vegna menningar.

Í fréttaskýringunni kemur fram að nokkrar skýringar séu á sífellt hækkandi ríkisaðstoð frá árinu 2008 og er vitnað til skýringa fjármálaráðuneytisins:

Endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu fóru úr 89,5 milljónum árið 2008 í 1.574 milljónir árið 2014. Stuðningur við Hörpu bættist við frá 2011 og nam um 1.222 milljónum árið 2014. Stuðningur við rannsóknir, þróun og nýsköpun hefur aukist. Ríkisaðstoð á vegum Rannís var 954 milljónir árið 2008, en var um 3,5 milljarðar árið 2014. Þá greiddi ríkið 378 milljónir króna árið 2014 vegna þjónustusamnings við Farice. Loks hafa fjárhæðir vegna fjárfestingarsamninga við Norðurál og Alcoa Fjarðaál hækkað frá 2008. Ríkisaðstoð til fyrirtækjanna tveggja, sem flokkuð er sem byggðaaðstoð, nam samtals um 57 milljónum árið 2008 en 1.012 milljónum árið 2014.“

Þrátt fyrir mikla aukningu ríkisaðstoðar er umfang hennar mun minna en í flestum nágrannaríkjum Íslands. Árið 2014 nam ríkisaðstoð 0,38% af landsframleiðslu en 0,69% í Noregi. Þetta hlutfall var hærra á hinum Norðurlöndunum. Í ríkjum Evrópusambandsins er hlutfall ríkisaðstoðar af landsframleiðslu hæst í eða 1,89%. Meðaltalið hjá ríkjum ESB var 0,67% árið 2014.