Afleit hugmynd

„Við erum sammála um að í núverandi stöðu stjórnmálanna á Íslandi gefast mikil tækifæri. Það eru öfl sem vilja nýja gerð af pólitík og nýjar áherslur í stjórn landsmála. Það er mikill áhugi á að reka nýja gerð af pólitík, segja skilið við þessa gömlu pólitík og reka framtíðarpólitík.“

Þetta sagði Magnús Orri Schram, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar í viðtali við mbl.is síðastliðinn laugardag, um fund sem haldinn var fyrr um daginn. Magnús Orri, sem sækist eftir formennsku í Samfylkingunni, átti frumkvæði að fundinum en þar voru fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokkanna og ræddu um möguleika á samvinnu. „Fólk vill opnari pólitík, heiðarlegri og meiri auðmýkt,“ sagði Magnús Orri ennfremur. Þetta var einnig þemað hjá honum í vikulegum þætti Eyjunnar á Stöð 2 á sunnudag.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gefur lítið fyrir hástemmdar yfirlýsingar og fyrirheit um heiðarleika og lýðræði vinstri flokkanna. „Aldrei gefa vinstri menn eftir í lýðskruminu,“ skrifar Brynjar í stuttum pistli á Pressuna:

„Ef stjórnarandstöðuflokkarnir skyldu ekki vita það þá eru þeir saman í meirihluta við stjórn borgarinnar. Þar verður ekki nokkur maður var við heiðarleika eða lýðræði enda hlustar meirihlutinn alls ekkert á borgarbúa. Þar að auki er þessi heiðarlegi og lýðræðissinnaði meirihluti á góðri leið með að keyra borgarsjóð í þrot, sem er kraftaverk út af fyrir sig.

Ég held að það sé afleit hugmynd að þetta annars ágæta fólk stjórni landinu líka.“