Panama-skjölin matreidd samkvæmt uppskrift fjölmiðla

Fréttastofa Ríkisútvarpsins upplýsti í gær – sunnudag – að nöfnum „alþingismanna og ráðherra síðustu tvo áratugi hefur verið flett upp í Panama-skjölunum“. Í fréttaskýringu Tryggva Aðalbjörnssonar, fréttamanns, kom fram að þau nöfn sem fundust hafi þegar komið fram. Þessi fullyrðing er byggð á upplýsingum frá Reykjavik Media – fyrirtækis Jóhannesar Kr. Kristjánssonar.

ICIJ – alþjóðsamtök rannsóknablaðamanna – hafa Panama-skjölin undir höndum og hafa veitt fjölmiðlum víða um heim aðgang að skjölunum, þar á meðal Reykjavik Media. Samkvæmt fréttastofu ríkisins hafa Stundin, Kjarninn og Ríkisútvarpsins „efnt til samstarfs við Reykjavik Media um aðgang að skjölum til frekari umfjöllunar“.

Það vekur athygli Þrastar að fjölmiðlar virðast ætla að matreiða og skammta upplýsingar úr Panama-skjölunum, fletta upp nöfnum og flytja fréttir af „aflandsumsvifum Íslendinga“ á næstu vikum. Skjölin verða ekki afhent yfirvöldum til rannsóknar.

Vísir.is greindi frá því 8. apríl síðastliðinn að ríkisskattstjóri hafi krafist þess að fá Panama-skjölin afhent frá Reykjavik Media á grundvelli 94. greinar tekjuskattslaga en þar segir meðal annars:

„Öllum aðilum […] er skylt að láta skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi, sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Ekki skiptir máli hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til […]“

Samkvæmt frétt Vísis hefur Reykjavik Media falið lögmanni sínum að svara kröfu ríkisskattstjóra. ICIJ og þýska dagblaðsins Sueddeutsche Zeitung (sem fékk skjölin upphaflega) ætla ekki að afhenda skattayfirvöldum skjölin.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði í samtali við Bylgjuna í 7. apríl að nauðsynlegt væri að birta allar upplýsingar í tengslum við skjölin:

„Og nú vil ég vera mjög skýr. Ég tel það gríðarlega mikilvægt, fyrir almannahagsmuni, fyrir samfélagið allt, að allar þessar upplýsingar [Panamaskjölin] verði gerðar opinberar hið fyrsta. Það er að mínu mati ekki eðlilegt að halda þessum upplýsingum eftir og nota þær, svona til að skrifa einhverja sögu. Mjatla þeim út til að búa til eitthvað tiltekið samhengi. Það á að birta þetta allt saman þannig að menn geti komist að raun um það hvað snýr upp og niður, hverjir hafa staðið skil gagnvart samfélaginu, hverjir hafa verið að fela eitthvað, þá fyrst ef allt er gert upp og opinbert, þá getum við treyst því að hægt sé að hefja uppbygginguna hér og draga úr tortryggni og efa.“

Almenningur hefur enga tryggingu fyrir því að greint verði frá öllum þeim sem kunna að tengjast aflandsfélögum og koma fyrir í Panama-skjölunum. Það verða nokkrir fjölmiðlamenn sem ákveða hvort og þá með hvaða hætti einstaklingar verða nafngreindir. Engin leið er hins vegar fyrir fjölmiðlana að sannreyna hvort viðkomandi hafi gerst sekur um lögbrot, þar með talin skattsvik, enda er það á engan hátt ólöglegt að eiga erlend félög, hvort heldur er í skattaskjólum eða annarsstaðar. Þröstur hefur grun um að fjölmiðlar matreiði fréttir næstu vikna með þeim hætti að áhorfendur og lesendur geti ekki komist að annarri niðurstöðu en að eigendur erlendra félaga hafi gerst sekir um sviksamlegt athæfi, þótt ekki sé fótur fyrir slíku.

Þröstur sér ekki hvernig skattayfirvöld komast hjá því að krefjast þess með atbeina dómstóla – ef nauðsyn krefur – að fá öll gögn afhent, svo unnt sé að hefja rannsókn á hugsanlegum skattsvikum. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að fjölmiðlamenn geta ekki borið fyrir sig nauðsyn þess að verja nafnlausa heimildarmenn, þeir vita ekki hver eða hverjir heimildarmennirnir eru. Afhendig gagnanna mun því ekki með neinum hætti skaða heimildarmenn eða ganga gegn ríkri trúnaðarskyldu fjölmiðla. Og þá vaknar spurningin:

Af hverju fá skattayfirvöld ekki allar upplýsingar, eins og krafist hefur verið?