Framganga fjölmiðlafólks harðlega gagnrýnd

Framganga fjölmiðlafólks á blaðamannafundi Ólafs Ragnar Grímssonar síðastliðinn mánudag, sætir harðri gagnrýni. Á fundinum tilkynnti forsetinn að hann hefði ákveðið að sækjast eftir endurkjöri í embættið í júní næstkomandi.

Andrés Magnússon, blaðamaður og fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins, gagnrýnir atgangshörkuna í fjölmiðlarýni sem birtist í dag, miðvikudag:

„Spurningar kollegana [fjölmiðlafólks] voru sumar illa áttaðar, þar var helst á þeim að skilja að forsetinn hefði bara afboðað kosningarnar og ætlaði að sitja ævilangt. Atgangsharka sumra benti til þess að þeir hefðu mjög ákveðnar skoðanir á því öllu, sem var verra. Það var fréttin, ekki afstaða þeirra, sem átti erindi við almenning.“

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, segir í dagbókarfærslu að á blaðamannafundinum hafi hvorki gætt „virðingar né vinsemdar í garð Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands“:

„Hvað sem líður viðhorfi fréttamanna í garð Ólafs Ragnars hefði mátt ætla að þeir sýndu embættinu virðingu og vönduðu framkomu sína á fundi sem fór fram í skrifstofu forsetasetursins. Blaðamenn eru fyrirmyndir ekki síður en aðrir á opinberum vettvangi.“

„Ert þú kominn á það stig?,“ spurði fréttamaður og vitnaði í Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseta um að enginn mætti komast á það sig að telja sig ómissandi.

„Er ekki hægt að segja það að þú þekkir ekki þinn vitjunartíma, að þú treystir engum til að taka við af þér“, var næsta spurning.

Björn Bjarnason vekur síðan athygli á skrifum Braga Páls Sigurðssonar, blaðamanns Stundarinnar en hann skrifaði pistil á vefsíðu fjölmiðilsins undir fyrirsögninni; „Þetta er búið. Ég er farinn.“ Bragi Páll skrifaði meðal annars:Bragi Páll-Stundin

„Ég var að koma heim af þessum blaðamannafundi þar sem maðurinn, sem ég kallaði þaulsetið fretský fyrir stuttu, ákvað að halda aðeins lengur með hvítum hrukkóttum hnúunum um taumana. Rétt eins og aðrir valdasjúkir stjórnendur sem þessi stórfurðulega þrælslundaða þjóð hefur kosið sem fulltrúa sína. […]

Við búum enn þá í landi þar sem vélin var hönnuð af firrtu fólki sem dýrkar peninga og auðsöfnun. Eldgamlir Thatcher og Reganfasistar stýra fjölmiðlum og ungir og fallegir vel uppaldir fasistar bíða í röðum eftir því að taka við keflinu og passa að ekkert breytist. Við getum engu breytt. Arðránið er kerfisbundið. Við eigum ekki séns. Við getum engu breytt. Rannsóknarskýrslan snýr sér í gröfinni. Við erum fyrir löngu búin að tapa.[…]

Nú er bara spurning hvort þið viljið halda áfram að búa í landi þar sem þið eruð dæmd til þess að vera mis-illa settir þrælar auðvaldsins, eða hvort þið viljið leita gæfunnar á nýjum stað. Ég ætla að minnsta kosti að fara. Virkið allt. Stelið öllu. Brennið allt. Ég gefst upp.“

Björn telur að verði sá tónn sem blaðamaður Stundarinnar hafi slegið, tóninn sem einkenni kosningabaráttuna fram til 25. júní verði hún engum til ánægju, hvorki frambjóðendum né kjósendum:

„Spurning er hvað gangi blaðamönnum til sem hemja sig ekki betur en þetta. Er það aðeins reiði í garð Ólafs Ragnars Grímssonar eða ofsi sem jaðrar við fyrirlitningu? Verðum við nú vitni að öfgamennsku hér sem annars staðar kynni að teljast hættuleg almannaöryggi? Hvern skyldi Bragi Páll styðja af forsetaframbjóðendunum?“