Ívilnunarsamningar: Meðgjöfin yfir 10 milljónir á starfsmann

Ívilnunarsamningur sem íslensk stjórnvöld hafa gert við Silicor Materials jafngildir 10,3 milljónum króna á hvert starf. Þetta kemur fram í grein sem Óli Björn Kárason skrifar í Morgunblaðið. ESA – Eftirlitsstofnun EFTA – hefur gefið grænt ljós á samninginn sem er vegna byggingar sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Samningurinn tryggir eigendum verksmiðjunnar skattalegt hagræði og sérreglur um leigu og fyrningu í tíu ár. Þannig er búið til sérstakt „skattaskjól“ fyrir sólarkísilverksmiðju upp á 4.640 milljónir króna samkvæmt mati ESA.

Samningurinn gerir ráð fyrir að tekjuskattur fyrirtækisins verði 15% í stað 20% líkt og íslensk fyrirtæki þurfa að greiða. Þá fær verksmiðjan sérstakan 50% afslátt af tryggingagjaldi sem reiknast af launagreiðslum til starfsmanna og einnig 50% afslátt af fasteignagjöldum. Í greininni segir Óli Björn meðal annars:

„Sjálfstæði atvinnurekandinn sem hefur hug á því að fjölga starfsmönnum hefði örugglega ekkert á móti því að fá rúmlega tíu milljónir króna í meðgjöf með hverju nýju starfi, ekki síst á meðan tryggingagjaldið lækkar ekki meira. En athafnamanninum, með litla fyrirtækið, stendur ekki slíkur samningur til boða, ekki frekar en sérstakir þjálfunarstyrkir sem ríkið er tilbúið að veita á grunni ívilnana.”

Óli Björn leggur til að í stað þess að halda áfram að undirrita forréttindasamninga eigi stjórnmálamenn að ganga hreint til verks og sníða hagstætt skattaumhverfi. Forskriftin liggi fyrir í ívilnunarsamningunum sjálfum.