Hrun og fátækt blasir við

„Það er ekki bara fyrirsjáanlegt „seinna hrun“ sem gerir það að verkum að brýnt er að sækja um aðild að ESB. Mjög margt bendir til þess að ef ekki verður gengið til viðræðna þar um á næstu mánuðum geti þjóðin misst af lestinni í allmörg ár.,“ skrifaði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar í Morgunblaðið 16. apríl 2009.

Nokkrum dögum eftir að greinin birtist voru kosningar til Alþingis og sitjandi minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna náði góðum meirihluta. Í júlí sama ár samþykkti meirihluti Alþingis að óska eftir aðild Íslands en um leið felldu þingmenn vinstri stjórnarinnar tillögu Sjálfstæðismanna um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Benedikt dró upp dökka mynd af fram-tíð þjóðarinnar ef ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu:

  1. Stórfyrirtæki flytja höfuðstöðvar sínar úr landi
  2. Útlendingar þora ekki að fjárfesta á Íslandi
  3. Fáir vilja lána Íslendingum peninga
  4. Þeir sem vilja lána þjóðinni gera það gegn okurvöxtum
  5. Atvinnuleysi, vaxtaokur og gjaldþrot verða viðvarandi
  6. Þjóðin missir af Evrópulestinni næstu tíu ár
  7. Íslendingar verða áfram fátæk þjóð í hafti

 

Benedikt benti á að Samfylkingin væri eini flokkurinn sem vilji sækja um aðild að Evrópusambandinu án skilyrða en aðrir „flokkar draga lappirnar og setja þannig framtíð þjóðarinnar í stórhættu“:

„Síðastliðið haust var aðstoð Alþjóðagjald-eyrissjóðsins eina haldreipi þjóðarinnar til skamms tíma. Sumir töldu að þjóðinni væri meiri sæmd að því að sökkva en grípa þann bjarghring. Sem betur fer var farið að viturra manna ráðum í því efni. Þeir sem hafna nú Evrópusambandsaðild hafa ekki bent á neina aðra leið úr rústum banka-hrunsins.“

Sammala.is

Í huga Benedikts var nauðsynlegt að þjóðin tæki „málin í sínar hendur og krefjast þess að stjórnmálamenn setji málið á dagskrá“:

„Það geta menn gert með því að undirrita áskorun til stjórnvalda á vefsvæðinu www.sammala.is þar sem þeir taka saman höndum sem eru sammála um að ríkisstjórnin, sem tekur við völdum að loknum kosningum 25. apríl, eigi að hafa það eitt af sínum forgangsverkefnum að skilgreina samningsmarkmið og sækja um aðild að Evrópusambandinu.“