Fjölnir: Embættismennirnir sem tóku völdin

Í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna árið 2010 var nokkuð rætt um reynsluleysi Jóns Gnarr, sem þá leiddi lista Besta flokksins. Hvernig ætlaði grínisti með enga reynslu úr stjórnmálum að stýra Reykjavíkurborg yrði hann borgastjóri? Jón svaraði því mjög heiðarlega, til staðar væri her embættismanna sem vel gæti stýrt borginni. Jón hafði rétt fyrir sér. Hann varð borgarstjóri og embættismenn borgarinnar fengu völdin í sínar hendur. Síðan þá hefur kostnaður við yfirstjórn borgarinnar blásið út og það sér ekki fyrir endann á því.

***

Á síðustu árum hafa komið fram ýmsar hugmyndir innan borgarkerfisins sem nær undantekningarlaust miðast við metnað embættismannakerfisins. Einn daginn þurfa borgarbúar að bera ruslatunnuna út á gangstétt, svo þurfa þeir að flokka ruslið sitt rétt, þeir mega ekki keyra um ákveðnar götur, skólar og leikskólar mega ekki fara með börn í kirkju á jólunum, íþrótta- og æskulýðsfélögum er meinað að kynna starfsemi sína, það má ekki gefa skólabörnum hjálma, það má ekki keyra litlar rútur í miðbæinn, götur eru þrengdar þvert á vilja íbúa og þannig mætti áfram telja. Það er enginn skortur á því hvað má ekki gera og hvernig borgarbúar eiga að aðlaga daglegt líf sitt þörfum embættismannanna.

***

Engin þessara hugmynda er komin frá kjörnum fulltrúum. Það má halda því til haga að það er ekki sjálfgefið að hugmyndir séu slæmar þó þær komi úr embættismannakerfinu. Það er hins vegar slæmt þegar borgarfulltrúar láta embættismenn mata sig af skoðunum og gerast málsvarar fyrir draumóra þeirra. Ein af mörgum ástæðum þess að Sjálfstæðisflokkurinn mælist með lítið fylgi í Reykjavík er að borgarfulltrúar flokksins hafa ítrekað kosið að fylgja línunni sem lögð er í embættismannakerfinu, línunni sem vinstri meirihlutinn er hvort eð er alltaf sammála. Það var t.a.m. undarlegt að fylgjast með borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, sem nær allir lifa og starfa í miðborg Reykjavíkur, taka undir og tala fyrir hugmyndum um sérstakt gjald á þá sem kjósa að keyra um á nagladekkjum yfir vetrartímann. Á sama tíma skilja þeir ekkert í fylgistapi flokksins.

***

Völd embættismanna eru ekki bara bundin við Reykjavíkurborg. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, var ekki búinn að sitja lengi sem fjármálaráðherra þegar hann kynnti fyrir samstarfsmönnum sínum í ríkisstjórn að hann ætlaði sér að hækka skatta á ferðaþjónustuaðila. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu hækki úr 11% í 24% um mitt sumar 2018, og lækki síðan hálfu ári síðar í 22,5%. Ríkisstjórnin, sem sumir héldu að væri hægrisinnaðasta ríkisstjórn allra tíma, samþykkti fjármálaáætlunina með fyrrnefndri skattahækkun.

***

Allt var þetta kynnt undir því yfirskyni að nauðsynlegt væri að einfalda skattkerfið, sem í sjálfu sér er ágætis markmið. En það að vilja einfalda skattkerfið er fyrst og fremst draumur embættismanna, t.d. í fjármálaráðuneytinu. Sömu embættismenn munu aldrei leggja til lækkun skatta, því samkvæmt excel útreikningi þeirra mun það draga úr tekjum ríkisins. Í kosningabaráttunni sl. haust talaði Benedikt þó fyrir lækkun skatta og sú var tíðin að Sjálfstæðisflokkurinn talaði fyrir lækkun skatta. Það kann að vera ágætt að einfalda skattkerfið, en það má aldrei vera á kostnað þess að lækka skatta.

Ríkisstjórn leidd af Sjálfstæðisflokknum virðist leggja blessun sína yfir tvöföldun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu undir því yfirskini að hægt verði að lækka efra þrep virðisaukaskatts úr 24% í 22,5% stuttu síðar. Það verður hins vegar lítið mál fyrir næstu vinstri stjórn að hækka skattinn aftur í 24% og jafnvel meira. Þá hefur ríkisstjórnin ekki kynnt neinar áætlanir um lækkun tekjuskatts. Væntanlega af því að embættismennirnir í fjármálaráðuneytinu telja það of dýrt. Í þessu máli hafa embættismenn tekið völdin.

Menn fara ekki út í pólitískan slag til að einfalda skattkerfið í stað þess að lækka skatta, nema að embættismennirnir hafi lagt línurnar.

***

Það má rifja upp fleiri sambærileg dæmi. Um mitt sumar blés fjármálaráðherra til blaðamannafundar þar sem hann tilkynnti að ríkið ætlaði sér í stríð við skattsvikara. Vopnabúrið voru tillögur starfshóps sem hafði unnið skýrslu fyrir ráðherrann, en starfshópinn skipuðu nær eingöngu opinberir starfsmenn og embættismenn. Tillögur hópsins voru eftir því. Þannig var m.a. lagt til að öll viðskipti yrðu rafræn og dregið yrði verulega úr notkun peningaseðla í samfélaginu. Eftir sólarhrings hita á samfélagsmiðlum gerði fjármálaráðherra lítið úr tillögunni og sagði hana einungis eina af mörgum góðum tillögum sem fram hefðu komið. Það breytir því ekki að tillögur hópsins voru allar miðaðar út frá þörfum ríkisins. Einn gagnrýnandi orðaði það sem svo að nefnd, sem eingöngu var skipuð rjúpum, kom saman og lagði til að jólunum yrði aflýst.

***

Þessar tillögur embættismannanna gefa þó tilefni til að staldra við, því þær eru áminning um það sem koma skal. Draumur embættismannsins er að geta fylgst með borgurunum allan sólarhringinn. Af hverju ætti öll greiðslumiðlun ekki að vera rafræn ef fólk hefur ekkert að fela? Skattayfirvöld hafa nú þegar aðgang að bankareikningum landsmanna, af hverju ættu þau ekki að hafa aðgang að kreditkortafærslunum líka? Seljendur að vöru og þjónustu eiga hvort eð er að gefa öll sín viðskipti upp til skatts, hvað ætla menn að reyna að fela með því að vilja ekki hafa viðskiptin rafræn og rekjanleg?

Þetta eru spurningarnar sem embættismaðurinn spyr. Einn daginn geta menn svo greint greiðslumiðlunargögnin betur. Þá kemur í ljós að landsmenn eru að verja allt of miklu fjármagni í eitthvað sem hið opinbera telur óæskilegt. Það er aldrei að vita nema að sett verði á fót sérstök deild til að fylgjast með rafrænni greiðslumiðlun, svona til að greina og meta það hvernig landsmenn verja peningunum sínum og hvort að hægt sé að taka mið af ýmsum sjónarmiðum ríkisins, t.d. lýðheilsusjónarmiðum. Embættismaðurinn mun láta stjórnmálamanninn útskýra málið þannig að þetta séu auðvitað ekki persónunjósnir og hafi ekkert að gera með ofríki, heldur sé þetta allt saman gert borgurunum til varnar og verndunar.

***

Nú ef stjórnmálamennirnir eru með einhverjar óvægnar athugasemdir þá er þeim bara hótað af embættismönnunum. Því fékk Haraldur Benediktsson, formaður fjárlagnefndar Alþingis, að kynnast í september sl. Fjárlaganefnd hafði þá lagt til við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins að hafin yrði rannsókn á einkavæðingu ríkisbankanna eftir hrun. Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, hringdi í kjölfarið í Harald og hótaði honum.

Í tilkynningu til fjölmiðla sagði Guðmundur sjálfur; „… Í því samtali tjáði ég honum þá skoðun mína og fleiri að ásakanir í skýrslu sem að sögn nýtur stuðnings meirihluta nefndarinnar, þar á meðal hans, feli í sér rætnar og alvarlegar ásakanir á hendur þeim sem komu að samningum milli gömlu og nýju bankanna af hálfu ríkisins. Ég vildi ganga úr skugga um að hann áttaði sig á alvarleika slíkra ásakana og að við áskildum okkur rétt til að láta reyna á persónulega ábyrgð þeirra sem slíku héldu fram fyrir dómstólum, enda æra okkar og starfsheiður að veði.“

Guðmundur hafði komið að einkavæðingu ríkisbankanna eftir hrun og leit augljóslega þannig á að fulltrúar fjárlaganefndar hefðu engan rétt á því að efast um heilindi embættismannanna í málinu. Það urðu engir eftirmálar af þessu alvarlega atviki. Það eina sem situr eftir er að stjórnmálamenn munu fara varlega í að gagnrýna störf embættismanna í framtíðinni. Dýrmæt lexía fyrir Harald og aðra kjörna fulltrúa.

***

Embættismaðurinn kemst upp með hluti sem enginn annar kemst upp með. Það er til dæmis óhugnanlegt að lesa bók Björns Jóns Bragasonar, Gjaldeyriseftirlitið, sem kom út í fyrra. Í bókinni er rakið hvernig Seðlabankinn og starfsmenn hans fóru offari við rannsókn meintra brota á gjaldeyrislögum. Í bókinni eru rakin þrjú mál sem öll eru bæði Seðlabankanum og réttarkerfinu til skammar; Aserta-málið, Samherja-málið og hið svokallaða Ursus-mál. Þessi mál eru þekkt og því gerist ekki þörf á að rekja þau nánar hér. Þó er rétt að halda til haga að í Aserta-málinu voru allir sakborningar sýknaðir og í Samherja- og Ursus-málinu var ekki gefin út ein einasta ákæra eða sekt. Með öðrum orðum hafði enginn af þeim einstaklingum sem embættismenn Seðlabankans rannsökuðu orðið uppvísir að nokkru saknæmu. Þeir sitja þó allir uppi með skert mannorð, háa lögfræðireikninga og glataðan tíma sem ekki fæst endurheimtur.

Þessi mál hafa þó engin áhrif haft á embættismenn og starfsmenn Seðlabankans. Þrátt fyrir að hafa farið offari gegn einstaklingum í krafti stöðu sinnar sitja þeir enn og geta allt eins byrjað næstu herferð á morgun ef þeim sýnist svo. Gjaldeyriseftirlitið er enn starfandi þó búið sé að afnema gjaldeyrishöftin!

***

Embættismaðurinn passar líka upp á aðra embættismenn. Í hrunmálunum svokölluðu komu upp tilvik þar sem sannað var að embætti sérstaks saksóknara hafði hlerað samtöl sakborninga og lögmanna. Trúnaðarsamband sakborninga og lögmanna á að heita heilagt og það er með öllu óheimilt að hlera slík samtöl. Þá skiptir engu fyrir hvaða brot sakborningur sætir rannsókn eða ákæru. Það er algjört grundvallaratriði í réttarríkinu að menn geti átt trúnaðarsamtöl við lögmann sinn.

Nú er aftur á móti búið að rjúfa þennan rétt manna hér á landi. Bæði ríkissaksóknari og dómarar við Hæstarétt líta þannig á að fyrst að umræddar hleranir voru ekki lagðir fram sem gögn þeirra mála sem um ræðir sé lítið við því að gera þó brotið hafi verið á réttindum manna. Ríkið má með öðrum orðum brjóta á rétti þínum ef það bara notar ekki brotið gegn þér með beinum hætti. Dómarar á öllum dómstigum hafa þó það hlutverk að gæta réttinda allra landsmanna, ekki bara lögreglunnar eða saksóknara. En þegar á reynir telur embættismaðurinn, í þessu tilfelli hæstaréttardómarar, mikilvægara að gæta hagsmuna hvers annars.

Það má nefna fleiri dæmi. Haustið 2014 lak Samkeppniseftirlitið upplýsingum um rannsókn á stjórnendum skipafélaganna Samskip og Eimskip. Stjórnendur félaganna voru sakaðir um refsiverða háttsemi og gátu ekki með nokkrum hætti komið sér til varnar. Nú, þremur árum síðar, hefur ekkert gerst í málinu, engin sekt verið lögð á fyrirtækin og engin ákæra gefin út. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins hafði uppi stór orð um að til stæði að finna þann sem lak gögnunum um rannsóknina, en það reyndist bara yfirborðskennt þvaður enda hefur ekkert komið út úr því máli heldur.

***

Og þeir gæta hagsmuna hvers annars á fleiri sviðum. Í vor varð uppi fótur og fit þegar lýðræðislega kjörinn stjórnmálamaður ákvað að fara ekki eftir tillögum hæfnisnefndar um skipun við dómara í nýjan dómstól hér á landi, Landsrétt. Það vill svo til að umrædd hæfnisnefnd var að mestu skipuð af sitjandi dómurum og aðilum úr dómstólasýslunni. Ábyrgðin á skipun dómara er þó alltaf í höndum ráðherra og sitjandi þingmanna. En þannig vill embættismaðurinn ekki hafa það, hann vill fá að ráða þessu og stjórnmálamenn eiga að hafa sem minnst um málið að segja – og helst þegja. Það má endalaust deila um það hvernig rétt sé að standa að skipun dómara, en það getur þó aldrei talist eðlilegt að dómarar velji sjálfir sína samstarfsmenn.

***

Fyrir nokkrum árum var rætt um „freka karlinn“ í íslensku samfélagi. Gott ef að var ekki fyrrnefndur Jón Gnarr sem fann upp þetta heiti og aðrir vinstri menn hafa ítrekað notað þetta hugtak í þjóðfélagsumræðunni. Freki karlinn er að þeirra mati gamlir (hægri sinnaðir stjórnmálamenn) sem halda enn að þeir ráði einhverju.

Fjölnir telur þó að freki karlinn sé í raun embættismaðurinn sem hefur ekkert lýðræðislegt umboð, ræður því sem hann vill ráða og beitir kröftum kerfisins af öllu afli gegn þeim sem kunna að verða honum ósammála. Þeir sem gagnrýna gjaldeyriseftirlit Seðlabankans eiga ekki von á góðu, þeir sem gagnrýna ráðuneytisstjóra fá hringingar og hótanir, forsvarsmenn fyrirtækja þora ekki að biðja Samkeppniseftirlitið um leiðbeiningar af ótta við að lenda í margra ára rannsókn, menn þora ekki að gagnrýna dómara um of því þeir vita að dómarinn getur – og mun líklega – hefna sín á þeim í réttarsal, það er enginn sem gætir þess að grundvallarreglum í réttarríkinu sé framfylgt og þannig mætti áfram telja.

Hinn almenni borgari á ekki roð í embættismanninn og getur ekki með nokkrum hætti borið hönd fyrir höfuð sér ætli embættismaðurinn sér að taka hann fyrir. Þeir einu sem geta haldið aftur af freka karlinum eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar. Þeir eru fulltrúar almennings en ekki hliðverðir kerfisins. Þeir eru ekki að vinna fyrir embættismennina og þurfa ekki að vera hræddir um að vega að starfsheiðri þeirra þó svo að þeir kunni að hafa aðra hugmynd um það hvernig stjórnsýslan á að starfa. En þá verða lýðræðislega kjörnir fulltrúa líka að leiða hjá sér hótanir og muna að þeir starfa í umboði almennings.

Svo má auðvitað vera að stjórnmálamennirnir séu jafn hræddir við embættismanninn og hinn almenni borgari. Þá fær freki karlinn, embættismaðurinn, alltaf að ráða.

Í sumarhefti Þjóðmála hóf göngu sína nýr ritstjórnarpistill sem ber heitið Fjölnir, til heiðurs Fjölnismönnum. Þar er á vandaðan hátt fjallað um samfélagsmál, stjórnmál og viðskipti. Pistillinn úr sumarheftinu er hér birtur í heild sinni.