Nýtt eðlilegt ástand í íslenskum stjórnmálum

Rétt eins og eftir bankahrunið mun þurfa þverpólitíska sátt um aðhald í rekstri hins opinbera og niðurgreiðslu skulda. Það gæti þó orðið erfiðara en áður að sannfæra stjórnmálamenn um ágæti þess að halda skuldsetningu í lágmarki. Svo virðist sem margir þeirra hafi lagt sig fram við að finna upp nýjar leikreglur, í stað góðra og gamalla gilda, til réttlætingar sífelldri útþenslu ríkisins og hinu ómissandi hlutverki embættismanna. (Mynd: VB/HAG)

Átta flokkar fengu kjörna menn á þing í kosningunum laugardaginn 28. október 2017. Þremur þeirra, Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum, tókst að mynda ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, fimmtudaginn 30. nóvember. Stjórnarsáttmálinn er tæp 6.000 orð og þar er lögð höfuðáhersla á heilbrigðis-, mennta- og samgöngumál auk framhalds á styrkri stjórn efnahags- og ríkisfjármála. Enginn vill glutra niður frábærum efnahagslegum árangri undanfarinna ára.

Í fyrsta sinn í stjórnmálasögunni taka höndum saman við stjórn landsins flokkar sem eru fulltrúar þriggja meginása stjórnmálanna: Sjálfstæðisflokkurinn til hægri, Framsóknarflokkurinn í miðjunni og Vinstri græn (VG) til vinstri. Rúm 100 ár eru frá því að þessi skipting varð flokkslega í íslenskum stjórnmálum. Slík stjórn hefur aldrei fyrr verið mynduð.

Í fyrsta sinn í stjórnmálasögunni skipar fulltrúi flokksins lengst til vinstri sæti forsætisráðherra. Í ríkisstjórninni sem jafnan er kölluð Stefanía, stjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks 1947 til 1949, var Stefán Jóhann Stefánsson Alþýðuflokki forsætisráðherra. Sú stjórn beitti sér fyrir aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) gegn andstöðu þeirra sem skipuðu sér lengst til vinstri.

Að Katrín Jakobsdóttir situr sem forsætisráðherra ræðst af tvennu. Hún treysti sér ekki til að mæla með þessu samstarfi í eigin flokki nema forsætið væri í hennar höndum. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, taldi það geta stuðlað að sátt í kjaradeilum og minnka líkur á átökum ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingar að Katrín yrði í forsæti. Vegna þessa eiga sjálfstæðismenn fimm ráðherra en hvor hinna flokkanna þrjá. Þá hafa sjálfstæðismenn sterkari stöðu í þingnefndum en hefði ella orðið.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ræddi við forystumenn stjórnmálaflokkanna mánudaginn 30. október og veitti Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, síðan umboð til stjórnarmyndunar fimmtudaginn 2. nóvember. Forsetinn sagði 2. nóvember að í ljós hefði komið í viðræðum sínum að leiðtogar VG, Framsóknarflokks, Samfylkingarinnar og Pírata væru reiðubúnir að vinna að myndun nýrrar ríkisstjórnar. Katrín fengi því umboð til stjórnarmyndunar og ætti að vinna að henni. Festa hefði komist á viðræðurnar og þær væru háðar tímamörkum. Forsetinn bjóst við að heyra af gangi viðræðnanna um og eftir helgi, eins og hann orðaði það á fundi með blaðamönnum á Bessastöðum.

Katrín skilaði umboðinu mánudaginn 6. nóvember. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, taldi of áhættusamt að mynda fjögurra flokka ríkisstjórn með eins atkvæðis meirihluta á þingi. Augljóst var að hann bar ekki traust til Pírata. Einn þingmanna þeirra, Björn Leví Gunnarsson, lék tveim skjöldum þegar hann var spurður hvort og hvernig hann mundi styðja slíka stjórn.

Eftir að Katrín skilaði umboðinu liðu 22 dagar þar til hún fékk það aftur, það er þriðjudaginn 28. nóvember. Þá skýrði hún forseta Íslands frá því að viðræður hennar, Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar hefðu leitt til stjórnarsáttmála og nyti hann stuðnings meirihluta þingmanna. Þar með var sjálfgefið að forseti Íslands veitti henni umboð til stjórnarmyndunar að nýju og miðvikudaginn 29. nóvember reyndi á málið í stofnunum flokkanna þriggja.

Flokksráð sjálfstæðismanna og miðstjórn Framsóknarflokksins samþykktu stjórnarsamstarfið einum rómi. Um 80% flokksráðsmanna VG studdu stjórnarsáttmálann en tveir þingmenn flokksins treystu sér ekki til að samþykkja hann. Þeir standa hins vegar að baki niðurstöðu meirihluta flokksráðsins þótt afstaða þeirra til ríkisstjórnarinnar sé á reiki – hún nýtur örugglega stuðnings 33 þingmanna, ef til vill 35.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hélt fyrsta fund sinn föstudaginn 1. desember. Þriðjudaginn 5. desember hafði ríkisstjórnin mótað meginlínur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018 og ákvað að Alþingi kæmi saman fimmtudaginn 14. desember.

Ríkisstjórnin hlaut strax góðan byr. Miðvikudaginn 6. desember birti Fréttablaðið niðurstöður könnunar sem sýndi að 78% þeirra sem svöruðu voru hlynnt stjórninni.

II.

Forseti Íslands hafði annan hátt á við stjórnarmyndun núna en fyrir ári. Þá var engu líkara en að hann liti á sig sem meiri geranda í málinu en hann er. Formlegt vald hans er skýrt en efnislega valdið er hjá stjórnmálamönnunum sem bjóða sig fram til að veita þjóðinni pólitíska forystu, sem forseti gerir ekki. Þá gaf forseti út nokkrar skriflegar yfirlýsingar um mat sitt á stöðunni. Nú greip hann ekki til þess ráðs.

Hann fór hins vegar að ráðum stjórnmálaforingja þegar þeir hvöttu til þess að þeir fengju svigrúm til að ræða saman án þess að nokkur einn hefði umboð forseta til að leiða viðræðurnar. Undarlegt er að forseti veitti Bjarna Benediktssyni aldrei umboð til stjórnarmyndunar, formanni stærsta flokksins og starfandi forsætisráðherra. Vilji forseta stóð greinilega til þess að Katrín fengi ein að halda á keflinu í sínu umboði.

Guðni Th. Jóhannesson hefur staðið frammi fyrir tveimur stjórnarkreppum á stuttum forsetaferli sínum. Hann hefur nálgast verkefni sitt á ólíkan hátt við þessar aðstæður. Seinni aðferðin, að halda að sér höndum og gefa stjórnmálaforingjunum svigrúm til að takast á við verkefnið sem þeir buðu sig fram til að leysa, leiddi til styttri stjórnarkreppu en sú fyrri. Hvort það var aðferð forseta eða vilji stjórnmálamannanna sem þarna skipti sköpum er auðsvarað: að sjálfsögðu réðu stjórnmálamennirnir að lokum og ekki síst sáttavilji Bjarna Benediktssonar og traustið sem hann nýtur í eigin þingflokki.

III.

Að loknum kosningunum hér blasti við að aðeins yrði unnt að mynda þriggja flokka stjórn með aðild Sjálfstæðisflokksins. Ljóst var frá fyrsta degi eftir kosningar að Bjarni Benediktsson útilokaði ekki samstarf við VG. Hann gerði ekki heldur afdráttarlausa kröfu um að halda áfram sem forsætisráðherra.

Eftir kosningarnar 29. október 2016 vildu Katrín Jakobsdóttir og þingflokkur VG ekki heyra á það minnst að stofna til stjórnarsamstarfs með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Fréttir bárust þó um að kannski hefði þeim snúist hugur þegar við blasti að Bjarna hefði tekist að mynda meirihlutastjórn með Bjartri framtíð og Viðreisn í ársbyrjun 2017.

Það auðveldaði VG að stofna til samstarfs við Framsóknarflokkinn núna að flokkarnir höfðu verið í eitt ár saman í stjórnarandstöðu og Sigmundur Davíð er ekki lengur í Framsóknarflokknum. Hann stofnaði eigin flokk, Miðflokkinn, rétt fyrir kosningar en komst aldrei til viðræðna við neinn um stjórnarmyndun að kosningum loknum, það var einfaldlega engin spurn eftir honum.

Reiði ýmissa innan VG í garð Sjálfstæðisflokk- sins er fordómafull og mótast af ómálefnalegri óvild gagnvart Bjarna Benediktssyni. Alið er á ranghugmyndum og rangfærslum til að réttlæta óvildina en það dugði ekki til að flokkurinn stæði utan ríkisstjórnar. Aldrei kom til þess að leitað yrði til Flokks fólksins um aðild að stjórn.

Flokkar skipaðir reyndasta fólkinu á þingi hafa myndað ríkisstjórn. Vonir eru bundnar við að því takist að binda enda á stjórnmálaupplausnina. Til þess kann að koma að þingmenn sem nú sitja í áhrifalitlum smáflokkum gangi í þingflokka stjórnarflokkanna og verði þannig virkari og áhrifameiri í þingstörfum. Eyðimerkurganga á þingi í áhrifalitlum smáflokkum þar sem eina leiðin til ímyndaðra áhrifa felst í tækifæri til að tala í tvær mínútur í upphafi þingfundar um eitthvert dægurmál er ömurlegt hlutskipti fyrir þá sem hafa stjórnmálalegan metnað.

IV.

Þegar Steingrímur J. Sigfússon ákvað að skilja sig frá Alþýðubandalagsmönnum sem gengu til samstarfs við flokkana sem stofnuðu Samfylkinguna árið 2000 var almennt talið að flokkur hans Vinstrihreyfingin – grænt framboð yrði dæmdur til einangrunar vegna þröngsýnnar, sósíalískrar stefnu. Að VG hafi nú fengið meira fylgi en Samfylkingin í tvennum kosningum í röð, 2016 og 2017, þrátt fyrir ömurlega framgöngu í ríkisstjórninni 2009-2013, segir fyrst og síðast hve Samfylkingin hefur farið illa að ráði sínu.

Í upphafi kosningabaráttunnar nú og fram eftir henni var VG spáð stórsigri og mikilli fylgisaukningu. Að lokum jókst fylgið þó aðeins um eitt stig, í 16,9%. VG tapaði kosningabaráttunni.

Samfylkingin, sem þurrkaðist nánast út í kosningunum 2016, fékk nú 12,1% atkvæða og jók fylgi sitt um 6,4 stig. Miðflokkur Sigmundar Davíðs fékk 10,9% í þessum fyrsta slag sínum. Framsóknarflokkurinn hélt hins vegar velli miðað við kosningarnar 2016 með 10,7%, tapaði 0,8 stigum. Píratar fengu 9,3% og töpuðu 5,3 stigum. Flokkur fólksins fékk 6,9% og bætti við sig 3,4 stigum. Viðreisn fékk 6,7% og tapaði 3,8 stigum og Björt framtíð fékk ekki nema 1,6%, tapaði 6 stigum.

Björt framtíð stofnaði til stjórnarslita í fljótræði um miðjan september 2017 og varð þar með sjálfri sér að aldurtila. Óttarr Proppé er hættur sem formaður flokksins og Björt Ólafsdóttir, fyrrv. umhverfisráðherra, sem ýtti undir óðagotið við stjórnarslitin, er orðin flokksformaður.

Sjálfstæðisflokkurinn hélt stöðu sinni sem stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum með 25,2% atkvæða, tapaði 3,8 stigum frá 2016. Bjarni Benediktsson flokksformaður er burðarás flokksins og þar með einnig helsta skotmark andstæðinga hans. Fyrir utan flokkspólitískar árásir sem oft eru lítt málefnalegar ýta vefmiðlarnir Stundin og Kjarninn helst undir andstöðu við Bjarna og Sjálfstæðisflokkinn.

Ingi Freyr Vilhjálmsson á Stundinni leggur sig mest fram um að ófrægja Bjarna með skrifum um viðskiptaumsvif. Þegar við blasti (28. nóvember) að VG gengi til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn birti Ingi Freyr pistil á Stundinni og sagði undir lok hans:

„Spurningin er hvort pólitísk hræsni Vg hér sé „óumflýjanleg“ eða hvort flokkurinn vilji bara einfaldlega fara í þessa ríkisstjórn og noti nytjahyggjurökin til að rökstyðja niðurstöðu sem svo margir kjósendur flokksins geta ekki sætt sig við. Þá er spurningin hvort pólitísk hræsni Vg í málinu sé svo stór pólitísk hræsni að hún muni eyðileggja fyrir flokknum og kannski „öllum“ í samfélaginu. Lömuð, ráðvillt, leiðtogalaus og fylgislítil Vinstri græn auka líkurnar á því að Sjálfstæðisflokkurinn fái aftur frítt spil til annarrar nýfrjálshyggjutilraunar, eins og á árunum 1991 til 2008, í nánustu framtíð og kannski strax eftir næstu kosningar.“

Þessi hræðsluáróður dugði ekki til að fæla nema lítinn hluta flokksráðsmanna VG frá að styðja stjórnarmyndunina en hann er lifandi dæmi um hvernig andstæðingar Sjálfstæðisflokksins tala.

V.

Sjálfstæðimenn fara með yfirstjórn ríkisfjármála. Mótun efnahagsstefnunnar er í þeirra höndum og ráðherrar þeirra sitja í atvinnuvegaráðuneytunum. Sömu sögu er að segja um stjórn ráðuneytanna sem tryggja öryggi landsmanna inn og út á við.

Meginstefna stjórnarinnar í öryggismálum er á forsendum Sjálfstæðisflokksins. Stefna flokksins gagnvart Evrópusambandinu birtist í stefnu ríkisstjórnarinnar um að „hagsmunum Íslands“ sé best borgið utan sambandsins.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru því í lykilhlutverki við að skapa fjárhagslegar forsendur fyrir því að unnt sé að standa undir auknum útgjöldum til heilbrigðis-, mennta- og samgöngumála. Þetta verður ekki gert nema staðinn sé vörður um einkarekstur á öllum sviðum. Engu er líkara en þá sem tala gegn einkarekstri í íslenskum heilbrigðismálum skorti alla vitneskju um hvernig málum er í raun háttað.

Leggi Sjálfstæðisflokkurinn sig fram um að rækja hlutverk sitt í ríkisstjórninni af kostgæfni nær hann að höfða til borgaralegra afla í þjóðfélaginu sem hafa jafnan verið öflugasta baráttusveit hans.

Sjálfstæðismönnum gefst einstakt tækifæri til að minna á þessa sérstöðu sína meðal stjórnmálaflokkanna á komandi mánuðum í sveitarstjórnarkosningunum. Þar er fjármálaleg óstjórn Reykjavíkur undir vinstristjórn víti til að varast og verða sjálfstæðismenn að benda rækilega á það. Til þess þurfa þeir öflugan leiðtoga sem borgarstjóraefni. Leiðtoga sem hefur burði og þekkingu til að gera borgarbúum og þjóðinni allri grein fyrir því að í Reykjavík hafa vinstrimenn árum saman keypt sig frá lausn viðfangsefna með hækkun skatta og gjalda í stað þess að þora eða geta tekið erfiðar ákvarðanir.

Að Reykjavíkurborg verði ekki gjaldþrota ræðst nú mest af því hvernig haldið er almennt á efnahagsmálum þjóðarinnar. Hér skal enn áréttuð sú skoðun að brýnasta flokkslega verkefni sjálfstæðismanna er að taka sér tak í Reykjavík. Ömurlegt er til þess að vita að nú tala vinstrisinnaðir álitsgjafar um það sem gefna staðreynd að kjósendur í Reykjavík hafi færst svo mjög til vinstri að Sjálfstæðisflokkurinn nái sér aldrei á strik í borginni.

Gegn þessari þróun verður að snúast. Innan Sjálfstæðisflokksins hvílir sú skylda fyrst og síðast á Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra, sem hefur lagt mest af mörkum til þess valdakerfis sem þróast hefur innan flokksins í höfuðborginni og sækir orku sína til innbyrðis átaka frekar en baráttu við andstæðinga flokksins.

VI.

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg komst fimmtudaginn 23. nóvember 2017 að þeirri niðurstöðu að ekkert í málsmeðferð rannsóknarnefndar Alþingis, þingsins eða saksóknara alþingis hefði leitt til þess að málsmeðferðin fyrir Landsdómi gegn Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, teldist ekki réttlát. Þá sagði í niðurstöðu dómsins að Landsdómur hefði verið sjálfstæður og óvilhallur í skilningi Mannréttindasáttmála Evrópu og sú staðreynd að Alþingi hefði kosið dómara leiddi ekki að sjálfu sér til þess að þeir teldust ekki sjálfstæðir og óvilhallir. Þá taldi dómstóllinn jafnframt að ákvæði stjórnarskrárinnar og laga um ráðherraábyrgð varðandi skyldu Geirs að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni væru skýr og Geir hefði því getað séð fyrir að það kynni að skapa honum refsiábyrgð að hafa þau að engu.

Þessi niðurstaða breytir ekki þeirri staðreynd að Geir H. Haarde sigraði efnislega í landsdómsmálinu. Hann var sýknaður af meginatriðum ákærunnar en dæmdur án sakfellingar fyrir að efna ekki til ráðherrafundar um yfirvofandi hrun bankanna. Sem ráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde hef ég þá skoðun að sakfellingin sé reist á röngum grunni. Að krefjast þess að bókað sé í fundargerðabók ríkisstjórnar að líkur séu á að bankakerfi ríkis hrynji eða efnt sé til sérstaks fundar um málið er eftir-áspeki. Raunar hélt ríkisstjórnin frægan fund þriðjudaginn 30. september 2008 með þátttöku Davíðs Oddssonar, þáv. forsætisráðherra. Kusu einhverjir samráðherra minna að leka því að á fundinum hefði Davíð nefnt að við ríkjandi aðstæður kynni einhverjum að koma til hugar að mynduð yrði þjóðstjórn. Þau orð benda auðvitað til þess að alvarlegt ástand hafi verið til umræðu.

Í byrjun desember rituðu Ragnar Hjálmarsson, doktorsnemi við Hertie School of Governance í Berlín, og Iosif Kovras, kennari í alþjóðastjórnmálum við City University í London, grein á vefsíðu London School of Economics (LSE) þar sem þeir fjalla um niðurstöðu MDE í máli Geirs H. Haarde og spurninguna hvort sækja eigi stjórnmálaforingja til saka eftir hættuástand.

Þeir segja meðal annars að með því að sakfella Geir fyrir „stórfellda vanrækslu“ vegna skorts á fundum í aðdraganda hættuástandsins gefi Landsdómur til kynna að með fleiri fundum hefði mátt milda áhrif hrunsins. Höfundarnir segja: „Þessi eftir-á-speki er ónákvæm og hættuleg.“

Skýra megi þessa fullyrðingu með því að benda á að hefði Geir upplýst ríkisstjórnina um hættuna og þeim upplýsingum verið lekið til fjölmiðla hefði það örugglega flýtt fyrir hruninu. Efnahagskreppur séu flóknar og stjórnmálaforingjar hafi ráðrúm til að taka eina ákvörðun á grundvelli takmarkaðra upplýsinga. Með því að leggja á menn refsiábyrgð vegna tilviljanakenndra afleiðinga ákvarðana sem teknar séu á hættustundu sé skapað varasamt fordæmi. Sakfelling af þessu tagi geti orðið lögmætt skjól fyrir lýðskrumara sem þrífist á óánægju almennings og krefjist þess að fleiri „hausar fjúki“.

Þeir benda á að enn sé glímt við eftirleik landsdómsmálsins gegn Geir H. Haarde í íslenskum stjórnmálaumræðum. Nú telji jafnvel þeir sem stóðu að ákærunni að hún hafi verið mistök sem hafi að nauðsynjalausu skapað andstæður á stjórnmálavettvangi, spornað gegn viðleitni til sátta í stjórnmálum og tafið fyrir að þjóðlífið næði bata.

Höfundarnir vilja að stjórnmálaelítan sæti aðhaldi og gagnrýni en menn eigi að varast að glæpavæða töku ákvarðana á hættustundu. Best sé að fara sömu leið og hér var farin með rannsóknarnefnd Alþingis, þar með hafi ekki aðeins verið varpað ljósi á ábyrgð einstakra manna heldur einnig lagðar til umbætur með vísan til mistaka. Þegar litið sé fram á veginn eigi menn að stuðla að sáttum, draga úr andstæðum og loks leggja grunn að heilbrigðum endurbótum.

VII.

Undir árslok 1979 var hreyft tillögu um samstarf Sjálfsæðisflokks og Alþýðubandalags í ríkisstjórn. Hvorugur flokkanna hafði áhuga á því þá. Þegar alþýðubandalagsmenn töldu sig geta klofið Sjálfstæðisflokkinn með því að setjast í ríkisstjórn undir forsæti Gunnars Thoroddsen gripu þeir tækifærið í ársbyrjun 1980.

Líta má á myndun ríkisstjórnarinnar sem hélt fyrsta fund sinn 1. desember 2017 sem alvarlegustu tilraunina frá hruni til að stuðla að heilbrigðum endurbótum á stjórnmálalífinu. Tveir flokkar sem voru í stjórnarandstöðu haustið 2008 hafa myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Að sigla málum á þennan veg er afrek forystumanna allra flokkanna en ekki síst Bjarna Benediktssonar. Á ensku tala menn um að skapist new normal – nýtt eðlilegt ástand – við merk þáttaskil í samskiptum þjóða eða stjórnmálaflokka. Það hefur nú skapast í íslenskum stjórnmálum.

 

Af vettvangi stjórnmálanna birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2017.