Reykjavík: Stækkandi kerfi í boði vinstri manna

Reykjavíkurborg hefur hafnað því að Hjálpræðisherinn fái ókeypis lóð undir nýtt húsnæði sitt í Reykjavík, þrátt fyrir að hafa árið 2013 afhent Félagi múslima á Íslandi lóð undir mosku í Sogamýri árið 2006 og Ásatrúarfélaginu lóð undir hof í Öskjuhlíð árið 2006.

S. Björn Blöndal, fráfarandi formaður borgarráð, var til svara um málið í fréttum Stöðvar 2 föstudaginn 5. janúar. Þar vísaði Björn til þess að Hjálpræðisherinn hefði nýlega selt herkastalann svokallaða í miðbæ Reykjavíkur fyrir umtalsvert fé og þyrfti því ekki á ókeypis lóð að halda. Félag múslima sem þiggur veglega styrki frá Saudi Arabíu fékk þó sem fyrr segir ókeypis lóð frá vinstri meirihlutanum.

Sjálfsagt væri hægt að halda langar ræður um tvískinnung, andúð vinstri meirihlutans í Reykjavík á kristnum trúfélögum, hræsni og pólitíska rétthugsun. En það er ekki ætlunin hér.

Í fréttum Stöðvar 2 var vísað til þess að samkvæmt lögum beri borginni að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur Þjóðkirkjunnar, en að borgin hafi fram til þessa túlkað lögin með þeim hætti að hið sama skuli ganga yfir önnur trúfélög á grundvelli jafnræðisreglu. Aðspurður um þetta sagði Björn að lögin væru tímaskekkja.

Því er Þröstur sammála, svo langt sem það nær. Það eiga ekki að gilda sérstök lög um úthlutun opinberra eigna til trúfélaga frekar en annarra, en aftur á móti er Þröstur þeirrar skoðunar að afhenda beri lóðir með sem minnstum kostnaði til einkaaðila, enda er það hlutverk einkaaðila að byggja upp bæi og borgir.

Það sem þó vakti sérstaka athygli Þrastar var að S. Björn Blöndal sagði, eftir að hafa sagt að borgarstjórnarmeirihlutinn væri á móti lögunum og að þau ætti að afnema, að borgin hefði „auðvitað sent óskir þess efnis til Alþingis.“

Þetta er nokkuð merkilegt. Nú stendur til að fjölga borgarfulltrúum í Reykjavík um nær helming, úr 15 í 23. Þessi fjölgun borgarfulltrúa er eitt besta dæmið um óþarfa bruðl með opinbert fé. Nógu mikill er kostnaður við æðstu stjórn borgarinnar. Vinstri meirihlutinn, undir forystu Dags B. Eggertssonar og S. Björns Blöndal, hefur iðulega borið því að borgin sé eingöngu að fara eftir lögum sem sett væru á Alþingi og því væri lítið annað hægt að gera en að fjölga borgarfulltrúm. Til upprifjunar er vert að taka fram að ný lög um sveitarstjórnir voru samþykkt í tíð vinstristjórnarinnar sem var við völd frá 2009-13, m.a. vegna þrýstings frá samflokksmönnum hennar í borgarstjórn.

En fyrst að S. Björn Blöndal upplýsir nú að borgin hafi sent ósk til Alþingis um að breyta lögum um lóðir fyrir trúfélög – hefði þá ekki mátt spara útsvarsgreiðendum í Reykjavík stórfé með því að senda samhliða ósk um að breyta lögum um óþarfa fjölgun borgarfulltrúa?

Sjálfsagt var það ekki gert. Vinstri meirihlutinn í Reykjavík vill fjölga borgarfulltrúm, stækka kerfið og auka kostnað. Ávinningur borgarbúa er enginn, nema hærri skattar og álögur auðvitað.