Sóknarfæri Sjálfstæðisflokksins

Vala Pálsdóttir.

Vala Pálsdóttir.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur ekki rofið 30% múrinn á landsvísu frá því í alþingiskosningum árið 2007. Þrátt fyrir hraðan efnahagslegan viðsnúning undir hans stjórn á síðustu árum og að hér ríki eitt mesta hagsældaskeið Íslands fyrr og síðar hefur flokkurinn ekki náð fyrri styrk. Margir hafa nefnt ástæður á borð við fjölgun flokka í framboði, að umræðan sé á tíðum óbilgjörn og snúist meira um menn en málefni og að hér ríki óstöðugleiki í stjórnmálum. Hann er þó ekki meiri en svo að núverandi ríkisstjórn nýtur meira trausts og vinsælda en síðustu ríkisstjórnir hafa gert.

Opinber umræða breyttist við hrun íslensku bankanna. Þó að uppgjöri á ábyrgð og skyldum þeirra er þar störfuðu sé að mestu lokið hafa íslensk fyrirtæki eflst um leið og heimili og einstaklingar standa á stöðugri fótum.

Þrátt fyrir jákvæðari efnahagshorfur og upptakt í þjóðfélaginu eimir enn sterklega eftir af röddum sem vilja halda íslenskri þjóð í greipum óánægju og efa. Það virðist eins og stór hópur sem er virkur í opinberri umræðu vilji hafa umræðuna sem neikvæðasta. Það skiptir engu þó að þessir sömu aðilar hafi vikist undan ábyrgð og bent á einn einstakling innan stjórnsýslunnar og sótt hann til saka eftir hrun. Það reyndist sneypuför þegar upp var staðið.

Þeir sömu vildu leggja skuldir einkafyrirtækja á íslenska skattgreiðendur til að greiða fyrir inngöngu í hnignandi samband Evrópuríkja. Um leið létu þeir eins og Icesave væri Sjálfstæðisflokknum að kenna. Aðgerðir og athafnir þeirra eru þeim til skammar. Þeir sömu segja nú að Ísland þurfi frjálslyndari stjórn og verkmeiri. Í ljósi alls er vert að spyrja, hvað lögðu þeir til á síðasta áratug svo að almenningur nyti meira frelsis og velsældar?

Ógnin við lýðræði

Ef horft er til breytinga á opinberri umræðu síðustu tíu ár er oft sagt að hún einkennist af glundroða og upphrópunum. Tilkoma samfélagsmiðla hefur ráðið þar mestu um. Ný tækni hefur breytt þjóðfélagsumræðu og opnað hana. Fleiri geta tekið þátt og virðast sumir líta svo á að þátttaka sé mikilvægari en að hafa eitthvað fram að færa.

Þó að ný tækni og samskiptatól séu líklega eitt stærsta framfaraskref upplýsingarinnar hefur hún að sama skapi búið samfélaginu nýja ógn. Auðveldara er orðið að afla og dreifa efni, en uppruni þess er orðinn óljósari. Framboð er mikið og áreiðanleiki óvís. Það er vatn á myllu þeirra sem vilja ata umræðuna auri í stað þess að ræða málsatvik á rökstuddum grundvelli. Ágæti samfélagsmiðla er jafnan gott en að sama skapi eru þeir ógn við lýðræðið. Í ofanálag getur enginn lokað augum fyrir þeirri staðreynd að Rússland og líklega fleiri lönd hafa með notkun samfélagsmiðla reynt að hafa áhrif á kosningar, m.a. í Bandaríkjunum, Frakklandi, Spáni og víðar.

Fyrir suma er ávinningur af því að stjórnmálalegur efi og vantraust ríki þótt ekki sé ástæða til.

Umræða úr takti við árangur

Í kosningunum vorið 2009 minnkaði fylgi Sjálfstæðisflokksins og flokkurinn stóð frammi fyrir uppgjöri og þeirri áskorun að endurvinna traust kjósenda; fyrst á meðan hann var í stjórnarandstöðu en svo í ríkisstjórn.

Það tók flokkinn eitt kjörtímabil að endurheimta fyrri stöðu sína sem stærsti flokkur á landsvísu og hann hefur setið í stjórn síðan. Fyrst máttu landsmenn glíma við aukna skatta og höft undir máttleysislegum aðgerðum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Það skilaði veikri krónu, verðbólgu og hægfara uppbyggingu fyrstu árin eftir hrun fjármálakerfisins. Ekki var tilefni til bjartsýni þegar þjóðin gekk að kjörborðinu vorið 2013 en fólk vildi breytingar, fleiri tækifæri og lægri skatta.

Sá viðsnúningur sem hefur orðið í íslensku efnahagslífi á einungis rétt tæpum fimm árum er hraður og það mætti jafnvel segja undraverður. Þó að stjórnarskipti hafi verið óvenju tíð hefur það ekki hamlað uppgangi íslensks efnahagslífs. Mörg framfaraskref hafa verið tekin og hagur Íslands vænkast. Aflétting hafta, sigur í Icesave fyrir EFTA-dómstólnum, uppgjör þrotabúa bankanna, lækkun ríkisskulda og þá hefur atvinnulífinu verið blásinn aukinn kraftur í brjóst, m.a. með niðurfellingu á vörugjöldum. Ef horft er til Evrópu er ljóst að árangurinn á Íslandi er einstakur. Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur alltaf setið í ríkisstjórn síðustu fimm ár en þrátt fyrir það hefur fylgi hans ekki aukist að ráði.

Hræðsluáróður og ósannindi

Umræðunni hefur ítrekað verið beint á aðrar brautir, frá staðreyndum að tilfinningum og frá yfirvegun að upphrópunum. Það sást glögglega í alþingiskosningunum síðasta haust. Málefnin komust aldrei á dagskrá, þess í stað sáum við rætnar árásir á einstaka menn og áróður um spillingu var daglegt efni. Hvaðan sprettur þetta og hvaða áhrifavaldar vinna að þessu? Kannski að Pútín hafi verið óhress með þátttöku íslenskra stjórnvalda í viðskiptaþvingunum, en það er langur vegur að ætla að hann grafi upp persónugögn úr þrotabúi banka. En engan skal undra hvaðan slíkt kemur og að meðalið eigi að helga tilganginn. Meðalið getur þó aldrei orðið auknir skattar úrræðaleysi og þvinganir vinstristjórnar.

Ítrekað hafa andstæðingar Sjálfstæðisflokksins gert atlögu að ímynd hans. Í fyrstu þegar ekki reyndist gerlegt að brjóta niður hugmyndafræði flokksins, líkt og hún hafi verið valdur að efnahagslegu hruni sem í reynd átti uppruna sinn úti í heimi, var horfið frá því. Þess í stað var sjónum beint að fólkinu í flokknum og sér í lagi forystunni. Það er með ólíkindum hversu rætnar árásirnar hafa verið og í hvaða búning þær hafa verið settar. Það er lyginni líkast að forsætisráðherra Íslands í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins hafi verið settur undir sama hatt og Pútín, Assad og aðrir þekktir einræðisherrar í afhjúpun þjófóttra undanskota og peningaþvætti til að fjármagna stríðsrekstur og árásir í valdatafli heimsmálanna. En þökk sé því trausti sem vináttuþjóðir bera til Íslands hefur staða þess ekki veikst. Ekki frekar en hræðsluáróður fyrri ára um slæmar afleiðingar vegna afstöðu Íslands í málum á borð við Icesave, setu bandaríska hersins hér á landi eða NATO.

Borgin og konur eru mikilvægt verkefni

Það er ekki skortur á ómálefnalegum efnistökum andstæðinga Sjálfstæðisflokksins. Þeir segja ítrekað að engar konur finnist í flokknum eða þær séu til skrauts en ekki gagns. Ef sjálfstæðiskonur verða ráðherrar þarf að koma þeim frá. Þær mega ekki vinna að málum sem gætu veikt málstað vinstrimanna. Það er látið í veðri vaka að þær hylmi yfir með barnaníðingum eða hafi enga samúð með flóttamönnum. Lætin eru slík og krafan ófrávíkjanleg að öll rök og staðreyndir skipta engu.

Nú göngum við til sveitarstjórnarkosninga. Tæplega helmingur kjörinna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins er konur, þar af eru 13 konur oddvitar í sveitarstjórnum og 19 karlmenn. Með þessum málflutningi er lítið gert úr afrekum þeirra sem stýra sveitarfélögum sínum af krafti og einurð. Flokknum gengur sjaldnast betur en þegar konur eru í framvarðasveit hans og því kannski ástæða fyrir andstæðinga að tala eins og þær séu ekki til. Við þurfum hins vegar að gera sveitarstjórnarkonur okkar enn sýnilegri og efla hlut kvenna í landsmálunum. Við megum aldrei hætta að hvetja og styðja konur til þátttöku. Stærsta verkefni flokksins í vor er að endurheimta fyrri stöðu sína í borginni. Það má eiginlega segja að þar sé áróðrinum snúið í varnarbandalag vinstri afla og ríkisfjölmiðilsins. Þar hefur verið settur teflonhjúpur utan um borgarstjóra svo ekki falli skuggi á hann og störf hans. Þá skiptir engu þótt borgarbúar baði sig upp úr skólpi, drekki plast eða komist ekki ferða sinna. Skuldir hafa hækkað þrátt fyrir auknar tekjur og stofnaðir eru vinnuhópar sem þyngja borgarkerfið þannig að minnstu mál fá enga úrlausn.

Það er jafnvel búið að telja borgarbúum trú um að hæsta útsvar skili ekki betri þjónustu þar sem stærðin vinni á móti hagkvæmni. Í reynd virðist sem lögmál hagfræðinnar vinni á öfugan hátt í Reykjavík en víða annars staðar í hinum stóra heimi. Aukin notkun rafmagns leiði til hækkana, fleiri bílar þurfi þrengri götur og sameina þurfi skóla þó að börnum fjölgi. Kannski er staðan í Reykjavík eitt skýrasta dæmi um hversu áhrifarík umræða vinstri afla er. Eða kannski er það svo að Reykjavík þrífst í skjóli vel rekinna nágrannasveitarfélaga og þangað flytur ungt fólk og tekjuhærri fjölskyldur. Er það jöfnuðurinn sem vinstrimenn vilja?

Samband við kjósendur þarf að styrkja

Eitt sterkasta vopn Sjálfstæðisflokksins er hugmyndfræði flokksins, árangur hans og kjörnir fulltrúar hans sem tala fyrir frelsisstefnunni. Flokkurinn býr við eitt besta skipulag stjórnmálaflokka á Íslandi, hefur skýrar reglur og marga flokksmenn. Starf og stærð landsfundarins undirstrikar styrk sjálfstæðismanna. Niðurstaða kosninga um Icesave gaf einnig skýrt til kynna að landsmenn vilja sjálfstæði og kjósa að fara með sín mál sjálfir. Frelsisstefna Sjálfstæðisflokksins á því fullt erindi við landsmenn.

Tæknivæðing hefur fært nýjar áskoranir í samskiptum. Í fyrstu varð hagræðing til þess að tækni leysti mannfólkið af og samskipti urðu ópersónulegri. Á árunum 2006 til 2008, þegar samfélagsmiðlar tókust á flug, breyttust þau á nýjan leik. Í grein sem birtist í Harvard Business Review fyrir tæpum þremur árum var fjallað um hvernig þróun heildarverðmæta fyrirtækja sýnir svo ekki verður um villst að samband við viðskiptavini skiptir nú meira máli en fyrir tíu árum og trompar nú virði ímynd fyrirtækja. Fyrirtæki eru að setja aukinn kraft og mannauð í að styrkja samband við viðskiptavini. Þetta má heimfæra upp á stjórnmálin.

Það eru ekki ný vísindi að það sé dýrara að afla nýrra viðskipta en að efla þau sem fyrir eru. Það sama á við um kjósendur. Við þurfum að efla tengsl og samskipti við flokksmenn og kjósendur okkar. Við þurfum að miðla árangri, vinnu og stefnu flokksins en ábyrgðin er líka hjá kjörnum fulltrúum og flokksmönnum öllum. Við höfum eignað okkur efnahagsmálin og árangur á því sviði en við eigum líka heilmikið inni í öðrum málaflokkum sem stundum má segja að aðrir hafi eignað sér óverðskuldað heiðurinn af. Við þurfum að taka umræðuna í okkar hendur og efla flokksmenn til þátttöku. Dreifileiðirnar eru til staðar en efnisveituna skortir.

Stundum er talað um að hægrisinnað fólk forðist að stíga inn í þann forarpytt sem umræðan er á stundum. Við getum hins vegar verið stolt af verkum Sjálfstæðisflokksins og eigum að eigna okkur þau með afgerandi hætti. Breytum þessu og blásum til sóknar! Það er mikilvægt að umræður á opinberum vettvangi verði ekki eftirlátnar vinstrimönnum og hægrimenn sitji hljóðir hjá.

Eignum okkur umræðuna og stöðvum dylgjur og rætnar árásir. Höldum teinrétt til sigurs í sveitarstjórnarkosningum, stöðvum óstjórn Reykjavíkurborgar og tengjum starf okkar við árangur í þágu landsmanna. Allir vilja lægri skatta, frelsi til athafna og sjálfstæði til ákvörðunartöku. Það eru fyrstu skrefin til að brjóta þrjátíu prósenta fylgismúrinn á landsvísu.

Höfundur er formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna.

______________________________

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2018.

Hægt er að kaupa áskrift að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is