Getur gagnslaus skólaganga verið eftirsóknarverð?

The Case against Education: Why the Education System Is a Waste of Time and Money
Höfundur: Bryan Caplan
Útgefandi: Princeton University Press, 2018
416 bls.

Í bók sem kom út í janúar á þessu ári fjallar Bryan Caplan, prófessor í hagfræði við George Mason University, um gagnsemi, eða öllu heldur gagnsleysi, skólagöngu. Niðurstaða hans er í stuttu máli að langskólanám bæti oftast efnaleg kjör einstaklinga en það sé í meirihluta tilvika á annarra kostnað og þjóni ekki hag heildarinnar.

Bókin heitir The Case against Education: Why the Education System Is a Waste of Time and Money og er gefin út af Princeton University Press.

Rökum Caplans er einkum beint gegn þeim sem skoða formlega menntun svo að hún auki mannauð („human capital“) og álíta að hærri laun langskólagenginna skýrist af því að vinna þeirra skapi meiri verðmæti. Gegn þessum mannauðsfræðum teflir Caplan merkjakenningu („signaling theory“), sem sækir innblástur í skrif þekktra hagfræðinga á borð við Michael Spence, Kenneth Arrow og Joseph Stiglitz.

Merkjakenningar snúast um að skýra hegðun fólks á markaði þegar það hefur takmarkaðar upplýsingar og lætur því duga að nota vísbendingar um líkur á að þetta eða hitt beri með sér þau gæði sem sóst er eftir.

Hugsum okkur fyrirtæki sem þarf að ráða margt fólk í vinnu. Fyrirtækið vill helst starfsmenn sem a) geta lært til verka, b) eru iðjusamir og c) þægir og láta vel að stjórn. Það er of mikil fyrirhöfn að kynnast öllum umsækjendum og kanna kosti hvers og eins. Hvað gerir fyrirtækið? Það á varla annars úrkosta en að kanna vísbendingar um að umsækjendur hafi þessa þrjá kosti – velja þá sem sýna sterkustu vísbendingarnar og taka í viðtöl, en synja hinum um möguleika á að koma inn fyrir dyr og sýna hvað í þeim býr.

Í nútímasamfélagi eru prófskírteini ríkjandi form merkja eða vísbendinga um þessa þrenns konar kosti sem flest fyrirtæki sækjast eftir. Þau eru það eins þótt ekkert af því sem einstaklingurinn lærði í skóla gagnist til að vinna starfið. Velgengni í skóla bendir til að einstaklingur hafi umrædda eiginleika, alveg óháð því hvort skólagangan gaf honum þá eða hvort hann fékk þá í vöggugjöf. Þess vegna fá þeir sem hafa útskrifast úr skóla aðgang að vinnumarkaði. Eftir að inn er komið veltur frami hvers og eins síðan meira á því hvernig hann stendur sig en á því hvaða prófgráðu hann hefur. Sitt er hvað gráða og gjörvileiki. Gráðan er aðeins ótraust vísbending, en samt nógu traust til að það borgi sig oftar en ekki að nota hana.

Meginrökfærsla Caplans snýst um að sýna fram á að fylgni milli hærri launa og lengri skólagöngu skýrist að mestum hluta af því að námsferillinn sé vísbending um eiginleika, sem stuðla að afköstum í vinnu, og einstaklingur hafði, áður en hann lagði í langt nám. Hann neitar því þó ekki að hluti af skýringunni sé að skólagangan auki starfshæfni. Að hans mati eru sjónarmið þeirra sem tala um „mannauð“ ekki alröng. Hann telur að aukin hæfni vegna menntunar skýri um fimmtung af launamun þeirra sem hafa langa skólagöngu og þeirra sem hafa stutta skólagöngu. Rök hans fyrir þessu eru allflókin og verða ekki endursögð hér. Þau byggja mest á tölfræðilegri greiningu gagna um menntun og vinnumarkað í Bandaríkjunum.

Caplan segir að flestar prófgráður bæti tekjur manna einkum vegna þess að þær komi þeim fram fyrir aðra í biðröð ungs fólks eftir að komast á vinnumarkað. Hann bendir samt á ástæður til að ætla að sum skólaganga, t.d. nám í rafvirkjun, pípulögnum og fleiri verkmenntagreinum á framhaldsskólastigi, skili mönnum hærri ævitekjum einkum vegna þess að námið geri þá færari um að vinna verðmæt störf.

Löndin sem ég bar saman eru talin upp í töflunni. Gögn um meðalatvinnuleysi 2006-15 voru sótt af http://www.oecd-ilibrary.org/employment/oecd-labour-force-statistics_23083387. Gögn um hlutfall 25 til 34 ára sem höfðu lokið framhaldsskóla 2016 voru sótt af http://www.oecdilibrary.org/education/education-at-a-glance_19991487.

Meðal þeirra röksemda sem Caplan notar eru að menntun eykur tekjur einstaklinga meira en þjóða. Sá sem bætir við skólagöngu sína fær forskot fram yfir aðra á vinnumarkaði og kemst í vinnu þar sem laun eru hærri. En þegar meðalskólaganga heillar þjóðar lengist aukast tekjur hennar ekki að sama skapi, eins og vænta mætti ef arður af vinnu væri í hlutfalli við lengd skólagöngu. Það að menn troðist hver fram fyrir annan bætir ekki hag heildarinnar. Í inngangi (bls. 6) skýrir Caplan þetta með líkingu: Ef ég stend upp á stólnum á tónleikum, í stað þess að sitja, þá sé ég hljómsveitina betur, þar sem hnakkinn á manninum fyrir framan mig skyggir ekki á. En það er ekki þar með sagt að við sjáum almennt betur ef allir standa uppi á stólnum sínum.

Þegar ég las þetta varð mér hugsað til þess sem sagt hefur verið um brottfall úr framhaldsskólum hér á landi. Ef kenning Caplans er rétt hafa menn þeim mun minni ástæðu til að ljúka formlegu námi, því auðveldara sem er að komast með lappirnar inn fyrir þröskuld á vinnumarkaði. Það ætti því að vera fylgni milli atvinnuleysis og þess hve margir kjósa að ljúka námi. Ég gramsaði í gögnum frá OECD og skoðaði löndin í Norður- og Vestur- Evrópu. Í þessum löndum er sterk fylgni (0,66) milli atvinnuleysis á árabilinu 2006 til 2015 og þess hve hátt hlutfall 25 til 34 ára höfðu lokið framhaldsskóla árið 2016. Er brotfall úr námi ef til vill bara það sem búast má við í hagkerfi sem einkennist af manneklu fremur en atvinnuleysi?

Mér varð líka hugsað til þess að það eru vísbendingar um að með hverju ári sem líður verði auðveldara að ljúka formlegu námi án þess að sýna mikinn dugnað eða námshæfileika. Ef svona „einkunnaverðbólga“ er veruleiki má ætla að þar komi að prófskírteini hætti að vera nógu traust vísbending um kosti af þeim þrem gerðum sem Caplan lýsir. Ég spyr mig hvort það leiði til „hruns“ í menntakerfinu – hvort prófgráður hætti þá að gilda sem vísbendingar um eftirsóknarverðan starfskraft og aðsókn að langskólanámi dragist saman.

Caplan tekur það fram að rök sín beinist ekki gegn þeim sem telja að menntun sé verðmæt í sjálfri sér. Hann talar meðal annars um hve dýrmætt það er honum að hafa lært að meta klassíska tónlist og bókmenntir. Gegn þeim sem segja að það sé gott fyrir fólk að ganga í skóla til að auðga anda sinn hefur hann þó eina veigamikla mótbáru. Hann heldur því fram að þetta sé einkum gott fyrir þá sem hafa ánægju af náminu – fyrir þann fjölda sem leiðist í skóla sé ávinningur af þessu tagi lítill. Hann nefnir og að lengri skólaganga, þar sem nemendum leiðist, taki af tíma sem þeir geti nýtt til að leika sér og þroskast af annarri iðju. Hann mælir með að dregið verði úr skólastarfi, en bendir á að verði það ekki gert sé að minnsta kosti hægt að lengja frímínútur og auka svigrúm fyrir frjálsan leik á skólatíma.

Áherslan á menntun til að auka „mannauð“ á samkvæmt því sem segir í bókinni mikinn þátt í því að gera skólagöngu að gleðisnauðum þrældómi sem tekur fleiri og fleiri ár af lífi ungs fólks. Ef rökin í bókinni standast er stærstur hluti stritsins vita gagnslaus.

Höfundur skrifar ensku sem syngur í og þetta er allt hin skemmtilegasta lesning. Hann lítur við og við yfir eigin skólagöngu og segir meðal annars um hana að bestu árin hafi verið í BA-námi („college“) vegna þess hvað námskröfurnar voru litlar. Hann gat þá lesið heimspeki, hlustað á óperur og rifist um pólitík fram á nætur.

„Ég á sál mína því að þakka hvað námskröfurnar voru litlar“ segir hann („I owe my soul to lax academic standards“, bls. 259).

Caplan er róttækur og skorinorður. Hann skefur ekkert utan af því að fyrir fjölda ungmenna sé miklu betra að komast strax í vinnu heldur en að sitja árum saman í skóla og læra eitthvað sem þau hafa hvorki ánægju af né not fyrir – og það til þess eins að komast yfir „merki“ til að veifa með atvinnuumsókn. Skólahald sem snýst um að menn komist hver fram fyrir annan í röð eftir atvinnuviðtölum er að hans mati dýr, leiðinlegur og mannskemmandi bægslagangur sem eykur hvorki þjóðartekjur né lífsgæði heildarinnar.

Höfundur er heimspekingur og dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

 

Bókarýnin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2018.