Í tilefni af flutningi sendiráðs til Jerúsalem

Jerúsalem.Jerúsalem.

Í tilefni af yfirlýsingu Donalds Trump Bandaríkjaforseta 6. desember 2017 um að bandaríska sendiráðið í Ísrael yrði flutt til Jerúsalem (fyrir árslok 2019) birtist meðfylgjandi grein eftir Lone Nørgaard, lektor, cand. mag og Torben Hansen sagnfræðing á dönsku vefsíðunni altinget.dk 7. janúar 2018. Hún er hér birt í íslenskri þýðingu með góðfúslegu leyfi höfunda.

San Remo-ráðstefnan árið 1920

Þegar Ottómanríkið (forveri Tyrklands nútímans) leystist upp eftir fyrri heimsstyrjöldina var yfirráðasvæði þess fyrir botni Miðjarðarhafs skipt á milli sigurþjóðanna Breta og Frakka.

Þetta var gert á San Remo-ráðstefnunni árið 1920. Þar fengu Bretar og Frakkar hvorir sitt svæði til yfirstjórnar þar til innfæddir íbúar á svæðunum hefðu getu til að stjórna sér sjálfir. Í 4. lið 22. gr. San Remo-yfirlýsingarinnar segir „[…] þar til íbúarnir geta staðið á eigin fótum.“ Frakkar fengu Sýrland auk Líbanons, og Bretar fengu Írak og Palestínu (Vestur-Jórdaníu) en árið 1921 bættu Bretar Austur-Jórdaníu við svæði sitt. Það varð sjálfstætt furstadæmi (emírat) – í raun breskt verndarríki.

Sameiginlega mynduðu svæðin „breska umboðssvæðið Palestínu“ þar til Austur- Jórdanía – konungsríkið Jórdanía – hlaut sjálfstæði árið 1946. Í von um að koma í veg fyrir gagnrýni Araba – valdbeitingu Araba – bönnuðu Bretar Gyðingum strax árið 1922 að sækja austur yfir ána Jórdan. Þetta dugði ekki og Bretar færðu það sem eftir stóð af umboðssvæði þeirra í Palestínu (það er Vestur-Jórdaníu) undir forsjá Sameinuðu þjóðanna (SÞ) árið 1947. Í nóvember 1947 samþykktu SÞ að skipta Palestínu í svæði Gyðinga og svæði Araba. Gyðingar samþykktu skiptinguna en Arabar höfnuðu ályktuninni um hana og gerðu vopnaða árás.

Flóttamenn til og frá Ísrael – íbúaskipti

Arabar lutu í lægra haldi og margir þeirra flýðu. Fjöldinn er óljós. Folke Bernadotte, sendimaður SÞ, taldi að um 330.000 manns hefði verið að ræða. Enn hærri tölur hafa einnig verið nefndar – allt frá hálfri í eina milljón – vegna þess að Arabar í nágrannalöndunum skráðu sig einnig sem flóttamenn til að njóta stuðnings hjálparstofnana sem komið var á fót.

Flóttinn hófst þegar í desember 1947 og oft er talað um 538.000 arabíska flóttamenn árin 1947 til 1948, sem ekki er ósennilegur fjöldi. Þeir Arabar – 160.000 – sem urðu eftir á yfirráðasvæði Ísrael héldu áfram að búa þar. Eftir sex daga stríðið árið 1967 flýði enn nokkur hópur Araba frá Vesturbakkanum. Þar var einkum um jórdanska innflytjendur að ræða eða fólk sem þá þegar hafði verið skráð sem flóttamenn í Jórdaníu.

Til samanburðar ber að hafa í huga að á árunum 1948 til 1957 flúðu 567.000 Gyðingar til Ísraels frá Arabalöndunum og enn flúðu 250.000 Gyðingar til Ísraels á árunum 1958 til 1972. Þetta eru 817.000. Fjöldamorð í Írak í seinni heimsstyrjöldinni auk friðsamlegs flutnings fólks, einkum frá Marokkó og Líbanon, hækkar töluna í 873.000.

Alls voru um 880.000 Gyðingar í Arabalöndunum og Íran árið 1945 en nú eru þeir um að bil 7.000. Með öðrum orðum hafa langtum fleiri Gyðingar flúið frá Arabalöndunum en öfugt. Þótt tölurnar kunni að vera ólíkar hefur þarna orðið tilflutningur á fólki sem svipar til þess sem varð milli Grikklands og Tyrklands árið 1923 og Indlands og Pakistans árið 1947, í báðum tilvikum mátti rekja það til þess að stríðsátökum lauk.

Þessi tilflutningur á fólki hefur hins vegar ekki leitt til friðar. Það má ekki síst rekja til SÞ, en allsherjarþingi þeirra er stjórnað af 48 múslímskum ríkjum og olíuviðskiptavinum þeirra í hópi aðildarríkjanna (sjá einnig rök hér á eftir fyrir greinilegri slagsíðu innan SÞ).

Fjölmiðlar hafa árum saman þagað um þessa atburði eða afflutt þá. Það hentar vinstrisinnum að benda á hve margir Arabar flýðu árin 1947 og 1948 en þegja um fjöldamorð og þjóðernishreinsanir á Gyðingum í flestum Arabalöndum. Vinstrisinnar telja að Arabar/ múslimar séu fórnarlömb – að undanskildum kristnum Aröbum. Með goðsögninni um fórnarlömbin eru Ísraelar úthrópaðir sem heimsvaldasinnaðir skúrkar þótt hvað eftir annað hafi verið ákveðið að kalla ísraelska hermenn frá hersetnum svæðum – til dæmis Gaza árið 2005.

SÞ hafa ályktað að Gaza og Vesturbakkinn séu „hernumin svæði“

SÞ hafa ályktað að Gaza og Vesturbakkinn séu „hernumin svæði“. Sé grannt skoðað eru Gaza og Vesturbakkinn ekki frekar hersetin en 210.000 ferkílómetra svæðið sem Sovétmenn lögðu undir sig í síðari heimsstyrjöldinni, af þeim ráða Rússar nú yfir 108.000 ferkílómetrum. Án minnsta hiks samþykktu SÞ að þessi svæði væru hluti af Rússlandi, þau eru þess vegna ekki hernumin. Hvers vegna gildir annað um þau en Vesturbakkann og Gaza? Hvers vegna eru til dæmis Suður- Slésvík, Elsass-Lothringen, Suður-Týról og Transsylvanía ekki hernumin?

Ísraelar og Jórdanir sömdu um frið sín á milli árið 1994 og Jórdanir féllu frá öllu tilkalli til „Vesturbakkans“ (Júdeu og Samaríu). Það er himinn og haf milli þess hvernig Sovétmenn gengu fram árið 1945 og Ísraelar árið 1948. Í báðum tilvikum leiddi stríð til flóttamannastraums, opinberar tölur segja nú að alls fjórar milljónir Araba komi þar við sögu. Líta ber á þetta í ljósi þess að á árunum 1944 til 1945 flæmdu Sovétmenn um það bil 15 milljónir Þjóðverja, Pólverja og Finna á brott. Af þeim eru … já, einmitt: engir flóttamenn. Þeir settust að í öðrum löndum og urðu hluti íbúa þar sem þeir leituðu skjóls sem flóttamenn. Öðru máli gegnir um Arabana.

Hvers vegna?

Svarið er að finna hjá SÞ-stofnuninni UNRWA – The United Nations Relief and Works Agency for Palestine Refugees in the Near East. Fáir vita um þessa stofnun þótt hún gegni lykilhlutverki í deilunni. Það er kannski ekki svo skrýtið því að einmitt UNRWA á mikið undir því að óreiðan haldist sem mest í Mið-Austurlöndum.

Flóttamenn og UNRWA

UNRWA var komið á fót árið 1949. Ætlunin var að stofnunin starfaði tímabundið í þágu arabískra flóttamanna. Hún starfar hins vegar enn þann dag í dag og í stað þess að vinna að því að arabísku flóttamennirnir settust að í öðrum Arabalöndum leggur UNRWA sig fram um að kynna þá sem píslarvotta í mjög sérstakri stöðu – og á þar oftast nána samleið með Arabalöndunum. Palestínumenn hafa nefnilega fengið allt aðra réttarstöðu en allir aðrir hópar flóttamanna, þeim fjölgar þess vegna á sama tíma og það fækkar jafnt og þétt í öðrum hópum af eðlilegum aðstæðum og vegna aðlögunar.

Meðal flóttamannahópa eru Palestínumenn þeir einu sem hafa öðlast svokallaðan endurkomurétt (e. right of return), að mati Araba. Hann nær einnig til nátengdra og ekki aðeins flóttamannanna og sameiginlegra afkomenda þeirra. Enginn endurkomuréttur er fyrir ofangreinda Þjóðverja, Finna og Pólverja og ekki heldur fyrir milljónir Hindúa sem urðu að flýja til Indlands þegar Pakistan kom til sögunnar árið 1947, hálfu ári áður en Ísraelsríki var stofnað.

Palestínumenn eru eini flóttamannahópurinn í veröldinni sem nýtur þeirrar viðurkenningar hjá fjölmiðlum og stjórnmálamönnum að hann hafi rétt til að snúa aftur til síns heima. „Hvenær verður sérrreglan fyrir Arabana afnumin, reglan sem gerir flóttamennina frá 1947-48 að eilífðar-flóttamönnum en allir aðrir flóttamenn sem hafa orðið fyrir barðinu á átökum þessa synduga heims verða að aðlagast til að lifa eðlilegu lífi?“ spurði Bent Jensen prófessor einu sinni og nefnir þar mál sem af órannsakanlegum ástæðum er aldrei minnst á í fjölmiðlum okkur til fróðleiks. Hvers vegna? Hafa þeir jafnmikinn áhuga á halda lífi í krísunni og UNRWA augljóslega hefur?

Hundruð þúsunda Palestínumanna og afkomendur þeirra njóta nú jórdansks ríkisborgararéttar en UNRWA lítur enn á þá sem flóttamenn. Börn, barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn palestínskra flóttamanna í Líbanon geta ekki – jafnvel eftir tæplega 60 ára dvöl – fengið líbanskan ríkisborgararétt, þau mega ekki eiga eða eignast fasteign og þeim er bannað að starfa í vissum atvinnugreinum. Í öllum tilvikum er þarna brotið gegn sáttmálum sem gilda til dæmis í Danmörku.

Í staðinn fyrir að vinna að því að Palestínumenn falli inn í og lagi sig að nýjum gistilöndum sínum leggur UNRWA áherslu á að ýta undir reiði palestínsku flóttamannanna til að halda lífi í arfgengu hatri þeirri.

Arabar flæma Palestínumenn á brott

Svo virðist sem enginn kippi sér upp við að Palestínumenn eru jafnan hraktir frá Arabalöndunum og meira að segja hópum saman. Í greininni Kuwait Expels Thousands of Palestinians í Middle East Quarterly Fall 2012 nefnir Steven J. Rosen tölu. Hún nálgast fjölda Araba sem flýðu frá Ísrael.

Stöðunni er lýst sem völundarhúsi án útgöngudyra og fyrir tilstuðlan SÞ versnar hún stöðugt vegna afskipta undirstofnana samtakanna, einkum UNWRA. Við stofnunina starfa rúmlega 30.000 manns (fleiri en hjá nokkurri annarri SÞ-stofnun) og hún stækkar jafnt og þétt. „Flestir starfsmenn UNRWA eru sjálfir flóttamenn,“ segir stofnunin af stolti á vefsíðu sinni og leyfum þeirri mynd að njóta sín andartak.

Flestir starfsmenn UNRWA eru með öðrum orðum Palestínumenn og í október 2004 viðurkenndi stjórnandi UNRWA, Daninn Peter Hansen, cand. scient. pol. prófessor, í fyrsta sinn að félagar í Hamas væru á launaskrá hjá honum og svo óheppilega vill til að þeir starfa flestir á menntasviðinu. Honum þótti það þó ekki vandamál vegna þess að hann sagði „ekki alla Hamasmenn vígamenn“. Samvinnan heldur því áfram, sem er alls ekki saklaust.

UNRWA hefur ráðið hryðjuverkamenn

Nefna má Awad al-Qiq til sögunnar til að sýna að hér er ekki um saklaust samstarf að ræða. Hann var ráðinn sem efna- og eðlisfræðikennari við UNRWA-skóla, eftir margra ára starf var hann hækkaður í tign og gerður að stjórnanda Rafah-drengjaskólans, ekki léttvæg staða. Auk kennslustarfanna var al-Qig í fremstu röð sprengjugerðarmanna í þágu heilags stríðs íslamista, hann var drepinn þegar farin var eftirlitsferð um sprengjugerðarstöð skammt frá skólanum. Með öðrum orðum vann hann nálægt skólanum við að búa til sprengjur til árása á almenna borgara í Ísrael á sama tíma og hann innrætti nemendum sínum að gera það sama. Hann þurfti engar greiðslur frá íslamísku stríðsmönnunum af því að hann var á launum hjá SÞ í gegnum UNRWA.

Ísraelar eiga þannig ekki aðeins í höggi við Hamas. Þeir glíma einnig við falinn og voldugan fjandmann í SÞ sem annaðhvort á allsherjarþinginu eða í gegnum undirstofnanir sínar svarar jafnan fullyrðingum Ísraela um brot á öllum samþykktum með ásökunum sem eiga mjög lítið skylt við raunveruleikann.

Þetta á ekki síst við um öryggisráð SÞ og mannréttindaráð SÞ. Öryggisráðið hefur samþykkt 131 ályktun, mannréttindaráðið 45 ádrepur. Hve oft hafa SÞ til dæmis fordæmt valdhafana í Súdan, Sádi-Arabíu, Líbíu og Alsír? Í þessum löndum hafa verið – og eru enn – stunduð mikil fjöldamorð á Aröbum. En uss,uss – ekki tala um það.

Hjálparstofnanir gagnrýnar á Ísrael

Flestar hjálparstofnanir í Danmörku eru gagnrýnar á Ísrael og neikvæðust er Hjálparstofnun kirkjunnar. Stofnunin hefur oft sent frá sér boðskap sem er tvímælalaust pólitískur. Þar er ekki aðeins lýst efasemdum um tilverurétt Ísraelsríkis heldur einnig um hlut Gyðinga í sögu svæðisins með yfirlýsingum eins og „fyrstu kristnu mennirnir voru Palestínumenn“ og um „fátæka Arabadrenginn Jesús“.

Gagnrýnin er alltaf skökk. Þegar Hamasliðar skjóta af ásetningi frá skólum, sjúkrahúsum og moskum í von um að með því að svara hitti Ísraelar almenna borgara setja félagasamtök kíkinn á blinda augað svo að sjaldan er minnst á þessi mannréttindabrot.

Þá láta helstu fjölmiðlar einnig hjá líða að geta um raunverulega undirrót átakanna: Ósk Arabanna um að ná fram hefndum á þjóð sem þeir hafa í meira en 1.000 ár talið:

  1. Óvini Guðs (trúarlega ástæðan).
  2. Fyrirlitlegt undirmálsfólk (þjóðlega ástæðan).

 

„Það nagar sálir okkar að svo lítið land sem Ísrael með aðeins sjö milljónir íbúa geti staðist 350 milljónum Araba snúning. Það niðurlægir sameiginlegt egó okkar.“ – Ahmed Sheikh, ritstjóri Al Jazeera, í Die Weltwoche, tilvitnun frá Thomas Friedman í NY Times.

Það er með öðrum orðum óskin um hefnd sem er raunverulegur aflvaki deilunnar og þess vegna verður hún ekki leyst nema sigur vinnist á Ísrael og landið verði upplausn að bráð. Skoðanakannanir sýna að þetta er viðhorf meirihluta Araba, án tillits til þess hvar þeir búa. Þetta snýst um arabísk/ íslamska smán og heiður, þar er að finna lykilinn að greiningunni.

Textinn er saminn á grunni framlags frá Geoffrey Cain, Ole Groth-Andersen, Bernard Gilland og Torben Snarup Hansen.

______________________________

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2018.

Hægt er að kaupa áskrift að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is