Valdatafl á æðstu stöðum

Kirsan Ilyumzhinov og Georgios Makropoulos á góðri stundu.

Ólympíuskákmótið fer fram í Batumi í Georgíu við Svartahafið 23. september til 6. október. Þar verður án efa hart barist á reitunum 64.

Ísland sendir lið í bæði opnum flokki og í kvennaflokki. Nýlega voru lið Íslands tilkynnt. Karlaliðið skipa Héðinn Steingrímsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Hannes Hlífar Stefánsson, Jóhann Hjartarson og Helgi Áss Grétarsson. Í fyrsta skipti síðan 1996 er liðið aðeins skipað stórmeisturum.

Helgi Ólafsson er liðsstjóri. Kvennaliðið skipa þær Lenka Ptácníková, Guðlaug Þorsteinsdóttir, Nansý Davíðsdóttir, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir. Liðsstjóri er Björn Ívar Karlsson.

Í Batumi verður einnig hart barist utan reitanna 64 því þá fer fram stjórnarkjör til æðstu embætta alþjóða skáksambandsins, FIDE. Staðan er í senn stórfurðuleg og flókin.

Forsetinn í vandræðum

Rússinn Kirsan Ilyumzhinov er forseti FIDE og hefur verið síðan árið 1995 þegar hann komst óvænt til valda þegar Filippseyingurinn Florencio Campomanes hrökklaðist frá völdum. Sá hafði fellt Friðrik Ólafsson úr forsetastóli árið 1982.

Ilyumzhinov er ákaflega umdeildur maður. Hann hefur sagst hafa verið numinn á brott af geimverum og hefur verið sakaður um morð á blaðakonu í heimalandi sínu. Það er þó ósannað. Hann hefur í gegnum tíðina nýst Pútín, sem notaði hann t.d. að heimsækja einræðisherra á borð við Assad og Gaddafi þegar búið var að loka öðrum leiðum til að eiga við þá opinber samskipti.

Þegar bandarísk stjórnvöld beittu Kirsan viðskiptaþvingunum fór hins vegar verulega að þrengja að honum og um leið að FIDE, þar sem bankar fóru að hóta á því að eiga ekki í viðskiptum við FIDE á meðan þetta ástand varði.

Grikki tekur yfir sviðið

Kirsan og FIDE urðu að bregðast við. Árið 2015 afsalaði Ilyumzhinov sér helstu völdum sínum innan FIDE og fyrsti varaforseti FIDE, Grikkinn Georgios Makropoulos, ávallt kallaður Makro, hefur verið starfandi forseti FIDE síðan þá. Kirsan er að nafninu til forseti en er í raun og veru algjörlega valdalaus. Hin formlegu völd eru Makro megin.

Makro hefur verið forseti gríska skáksambandsins síðan 1982 og sat fyrsta FIDE-fund sinn þegar Friðrik var felldur. Hann hefur verið í stjórn FIDE síðan 1986 og fyrsti varaforseti síðan 1996. Hann hefur að margra mati verið í raun og veru valdamesti maður FIDE um áratugaskeið og hefur fengið viðurnefnið „The Puppet Master“.

Makro er þéttur maður á velli, með afar sterka nærveru. Hann er ekki góður ræðumaður en þeim mun betri plottari. Í gegnum árin hefur hann stjórnað kosningabaráttu Kirsans og er sagður heilinn á bak við sigra hans. Er klókur og um leið ófyrirleitinn þegar hann vill ná sínu fram. Sagan segir að margoft hafi verið leitast eftir kröftum hans í grískum stjórnmálum en Makro hafi ávallt hafnað slíkum málaleitunum. Sennilega líkað betur við að stjórna á bak við tjöldin í FIDE!

Vík milli vina

Nú er hins vegar vík milli vina. Uppgjör varð árið 2017 á dramatískum fundi stjórnar FIDE þar sem Kirsan lýsti því grátklökkur yfir að hann væri hættur sem forseti eftir að hart var að honum sótt. Hann hætti síðar við þá ákvörðun en síðan þá hefur allt bakland hans innan stjórnarinnar snúið við honum baki og nú er hann nánast algjörlega vinalaus í stjórn FIDE. Kirsan er hins vegar vinur Pútíns, sem er býsna stór breyta.

Makro og félagar hófu þá þegar leit að nýjum forsetaframbjóðanda en gekk illa. Það kom þó fyrir að þeir töldu sig hafa fundið frambjóðanda – en þá kom í kjölfarið eitt stykki símtal frá Moskvu og framboðin runnu út í sandinn. Að lokum ákvað Makro að bjóða sig bara sjálfur fram og í hans liði er gamla klíkan sem stjórnað hefur FIDE. Margir eru þar býsna umdeildir.

Makro hefur lýst því yfir að hann ætli sér aðeins að sitja á forsetastóli í fjögur ár. Aðalmálið sé að koma í veg fyrir áframhaldandi veru Kirsans á valdastóli. Nýlega lokaði svissneski bankinn UBS öllum viðskiptum á FIDE vegna Kirsans og afar erfitt hefur reynst fyrir sambandið að komast í ný bankaviðskipti á meðan Kirsan er formlega forseti. Þetta ástand hefur kostað FIDE háar fjárhæðir.

Gervimaður í framboði

Kirsan hefur safnað að sér nýju framboðsteymi sem þykir nokkuð sérkennilegt. Enginn með skáktengingu er í teyminu. Meðal meðframbjóðenda hans er taílensk prinsessa, sem margir vilja draga í efa að sé raunverulega prinsessa, og Bandaríkjamaður að nafni Glen Stark, sem segist vera auðkýfingur en enginn veit hver er í raun og veru. Aldrei má samt vanmeta Kirsan – sérstaklega ef hann hefur Pútín á bak við sig.

Nigel Short kemur fram á sjónarsviðið

Nýlega lýsti enski stórmeistarinn Nigel Short yfir framboði sínu. hann er greinilega studdur af Garry Kasparov, sem tapaði fyrir Kirsan árið 2014. Vandamál Short er hins vegar að hann hefur þótt í gegnum tíðina frekar hrokafullur, hefur talað býsna óvarlega og móðgað marga með óheppilegum ummælum. Sérstaklega hefur hann þótt hafa talað niður til skákkvenna og á tímum #metoo-byltingarinnar koma sum ummæli hans sér nú illa fyrir hann.

Ensku vinirnir Nigel Short og Malcolm Pein eru til hægri á myndinni.

Nigel Short er ólíklegur til að ná Vestur-Evrópu á bak við sig og meira að segja er óljóst hvort hann hefur stuðnings heimalands síns, Englands.

Það vekur óneitanlega athygli að Malcolm Pein, aðalskipuleggjandi ofurmótsins London Classic, og stórvinur Shorts (kannski ekki enn), er varaforsetaefni Makro. Pein hefur látið hafa það eftir sér að hann sé sammála Short að öllu leyti en hafi takmarkaða trú á stjórnunarhæfileikum hans. Hann hefur lýst yfir áhuga að taka við forseta embætti FIDE árið 2022.

Rússar ókyrrast – stígur Karpov fram?

Rússar kunna illa því að tapa, enda hafa þeir stjórnað því sem þeir vilja stjórna innan FIDE síðan Campomanes felldi Friðrik Ólafsson af forsetastóli árið 1982. Þeir sjá nú fram á það að Kirsan kunni að tapa og lausnin gæti verið að Anatoly Karpov bjóði sig fram. Kirsan mun ekki hætta við framboð nema bein fyrirmæli berist frá Pútín sjálfum.

Karpov er miklu líklegri til að ná árangri en Nigel Short, þar sem hann gæti bæði fengið stuðning frá Rússablokkinni og Kasparovblokkinni.

Spennandi tímar eru fram undan í Batumi. Þar verður teflt á Ólympíuskákmóti og í valdatafli!

Skáksamband Íslands hefur enga ákvörðun tekið sína afstöðu og mun ekki gera fyrr en framboðsfrestur rennur út.

Höfundur er forseti Skáksambands Íslands.

—-

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.