Störfin sem hurfu

Nú þegar eru komin tæki sem geta raðað vörum í vöruhúsi á rétta staði, keyrt lyftara og þannig mætti áfram telja. Innan fárra ára mun fólk fá vörur sendar heim til sín án þess að margar hendur hafi komið að því að framleiða, flytja eða geyma þá vöru. Þessi hraða þróun verður enn hraðari og fækkun tiltekinna starfa er óumflýjanleg. Hærri launakostnaður mun flýta fyrir þessari þróun.

Árlega liggja álagningarskrár einstaklinga öllum opnar þar sem hnýsið fólk fær tækifæri til að skoða launatekjur samborgara sinna sér til gamans. Álagningarskrár liggja þó aðeins opnar í um tvær vikur en lifa þó lengur í hinum svokölluðum tekjublöðum sem gefin eru út samhliða. Tekjublöðin bera nafn með rentu því þau seljast eins og heitar lummur, enda er fólk almennt forvitið um aðra.

Það eru þó engin haldbær rök fyrir því að skerða persónufrelsi einstaklinga með þessum hætti. Allir einstaklingar, aðrir en þeir sem starfa í háum opinberum embættum, eiga rétt á því að laun þeirra séu trúnaðarmál.

Ef þeir hafa sérstaka þörf fyrir það að upplýsa um tekjur sínar á það að vera undir þeim sjálfum komið. Það sætir jafnframt furðu að skattayfirvöld skuli safna saman sérstökum listum, sem gjarnan eru kallaðir hákarlalistar, til að senda fjölmiðlum um hæstu skattgreiðendur landsins.

***

Þeir sem eru hlynntir því að laun manna skuli vera opinber nota til þess misunandi rök, sem auðvelt er að hrekja. Látum vera að álagningarskrár sem birtar eru á sumri eru ekki alltaf réttar því að stór hluti skattgreiðenda biður um leiðréttingu á álagningu sinni og lokaálagning liggur ekki fyrir fyrr en síðar.

Ein af rökunum eru þau að birting álagningarskráa veiti almennt aðhald. Dæmi; ef Pétur telur, eftir að hafa rýnt í álagningarskrána, að lífsstíll Páls sé ekki í takt við uppgefin laun hefur hann kost á því að koma þeirri ábendingu til skattayfirvalda. Þá er rétt að rifja upp að árið 1962 var kæruheimild einstaklinga til Ríkisskattstjóra afnumin og aldrei hefur fallið dómur hér á landi þar sem aðili er sakfelldur fyrir skattsvik eftir ábendingu frá nágranna eða ókunnugum manni út í bæ.

Það má líka velta því fyrir sér hversu langt almenningur á að ganga í því að hafa eftirlit með náunganum. Við getum vissulega tilkynnt ef við teljum að verið sé að meiða annan mann, verið sé að skemma eignir og svo framvegis, en að ætla almenningi að fara með skattaeftirlit er vafasöm hugmynd.

Önnur rök eru þau að birting álagningarskráa sé til þess fallin að auðvelda útreikning á ætluðum launamun kynjanna eða launaþróun einstakra hópa. Nú liggja þær tölur þó að mestu fyrir hjá öðrum opinberum aðila, Hagstofu Íslands, en auk þess má telja ómögulegt að tengja alla landsmenn við störf sín, vinnuhlutfall, ábyrgð í starfi og aðra þá þætti sem nauðsynlegir eru til að reikna út ætlaðan launamun kynjanna – á þeim tveimur vikum sem álagningarskrár liggja opnar. Enda er ekki nokkur maður eða stofnun sem notar þessi gögn í þeim tilgangi.

Það sama gildir um almenna launaþróun í landinu. Það eru til haldbær og eðlileg gögn til að taka saman launaþróun einstakra stétta og hópa, meta þau í samhengi við aðra og svo framvegis. Álagningarskrár hafa ekkert með það að gera.

Í stuttu máli má segja að ef birtingu álagningarskráa yrði hætt frá og með deginum í dag myndi það engin áhrif hafa önnur en að skerða tekjur þeirra sem gefa út sérstök tekjublöð, auk þess sem forvitnar frænkur þyrftu að finna sér önnur áhugamál í þær tvær vikur sem skrárnar liggja frammi.

***

Umræða um ójöfnuð

Það þarf að vísu ekki álagningarskrár til að kalla fram umræðu um ójöfnuð hér á landi. Hún skýtur reglulega upp kollinum og er drifin áfram af einstaka aðilum sem hafa hag af því að rætt sé reglulega um ójöfnuð. Nú má ekki skilja Fjölni sem svo að hann sé á móti því að rætt sé um ójöfnuð, þvert á móti. Því er ekki að neita að ójöfnuður er til staðar, hefur alltaf verið og verður alltaf að ákveðnu marki.

En jafnvel þó svo að einhver ójöfnuður kunni að vera til staðar er ekki þar með sagt að við búum í óréttlátu samfélagi. Það er mikill munur á ójöfnuði og óréttlæti. Ójöfn tekjuskipting þarf ekki að vera óréttlát. Og það að einn hafi meira á milli handanna en annar er ekki heldur óréttlátt. Fyrir því eru í langflestum tilvikum góðar ástæður.

Það að formaður VR eða Eflingar hafi tvisvar til þrisvar sinnum hærri laun en starfsmaður í afgreiðslu sömu stéttarfélaga þarf ekki endilega að vera óréttlátt, þó vissulega sé það ójafnt. Þau bera mikla ábyrgð í starfi sínu, starfsöryggi þeirra er til skemmri tíma og starf þeirra nær langt út fyrir hefðbundna stimpilklukku, svo taldar séu upp nokkrar ástæður fyrir því að réttlætanlegt sé að greiða þeim há laun.

***

Umræðan um ójöfnuð fer ekki öll fram með ábyrgum hætti. Reyndar gerir hún það sjaldnast. Undanfarin misseri hafa forystumenn stærstu verkalýðshreyfinga landsins staðið í mikilli baráttu og hótað öllu því sem hægt er að hóta, í nafni þess að þau ætli sér að bæta kjör þeirra verst settu í þjóðfélaginu. Öllum má þó vera ljóst að kjör þeirra verst settu verða ekki bætt með þeim aðferðum sem þau boða. Reyndar verða ekki nein kjör bætt þannig.

***

Hraðar breytingar

Vinnumarkaðurinn er sífellt að taka breytingum og enginn veit hvernig hann mun líta út eftir nokkur ár. Í dag er til fjöldinn allur af störfum sem voru ekki til fyrir 20 árum og fyrir 20 árum var til mikið af störfum sem eru ekki til í dag. Á þessu virðast stjórnmálamenn hafa takmarkaðan skilning og svo virðist sem forystumenn verkalýðsleiðtoga hafi hann ekki heldur.

***

Það heyrir orðið til undantekninga að sjá gjaldkera í banka og þá sjaldan að maður þarf að gera sér ferð í banka tekur þjónustufulltrúi á móti manni. Þeim hefur þó fækkað og mun halda áfram að fækka. Flestir stunda bankaviðskipti sín í gegnum tölvu og síma og hægt er að taka út og leggja inn pening í hraðbönkum.

Og það má nefna fleiri sambærileg dæmi. Þegar komið er inn á skyndibitakeðjur erlendis er í flestum tilvikum hægt að panta sér mat í gegnum tölvu úti á miðju gólfi. Þannig sparast mannskapur í afgreiðslu.

Í fljótu bragði má segja að fjölmörg þjónustustörf, sem fólu í sér að svara síma eða taka á móti viðskiptavinum í afgreiðslu, eru smátt og smátt að hverfa – og það án þess að þjónusta skerðist við viðskiptavini. Flestir geta stundað bankaviðskipti, skipulagt ferðalög frá A-Ö, keypt sér tryggingar eða tilkynnt um tjón, pantað sér mat, vörur eða þjónustu og þannig mætt áfram telja – án þess að þurfa nokkurn tímann að tala við nokkurn mann eða bíða eftir því að einhver starfsmaður veiti afgreiðslu eða þjónustu.

Og dæmin eru enn fleiri. Nú þegar eru komin tæki sem geta raðað vörum í vöruhúsi á rétta staði, keyrt lyftara og þannig mætti áfram telja. Innan fárra ára mun Fjölnir fá vörur sendar heim til sín án þess að margar hendur hafi komið að því að framleiða, flytja eða geyma þá vöru. Þessi hraða þróun verður enn hraðari og fækkun tiltekinna starfa er óumflýjanleg. Hærri launakostnaður mun flýta fyrir þessari þróun.

***

Það er því full ástæða til að spyrja sig að því fyrir hverju á að berjast þegar kemur að vinnumarkaði. Eru hærri laun eina takmarkið?

***

Það má taka nýlegt dæmi um afleiðingar þess að hækka lægstu laun með valdi. Bandaríska veitingakeðjan Red Robin tilkynnti nýlega að til stæði að segja upp hluta af starfsfólki á veitingastöðum keðjunnar, en þeir eru um 570 talsins víðs vegar um Bandaríkin. Fjármálastjóri Red Robin sagði í tilkynningu að fyrirtækið þyrfti að horfast í augu við aukinn launakostnað og ekki væri hægt að velta þeim kostnaði frekar út í verðlagið án þess að skaða samkeppnisstöðu þess. Hækkandi launakostnað félagsins má rekja til hækkunar lágmarkslauna vestanhafs. Með því að segja upp aðstoðarmönnum í sal (e. busboys) er áætlaður sparnaður keðjunnar um átta milljónir Bandaríkjadala.

Uppsagnir starfsmanna Red Robin eru aðeins eitt dæmi um það hvernig fyrirtæki bregðast við þegar opinberir aðilar þvinga fram aukin kostnað. Það þarf ekki mikla hagfræðiþekkingu til að átta sig á lögmálinu um framboð og eftirspurn. Þegar verð á vöru hækkar minnkar eftirspurnin og öfugt. Þegar launakostnaður fyrirtækja hækkar leita þau leiða til að minnka þann kostnað, ýmist með uppsögnum eða eftir tilvikum með fækkun stöðugjalda í gegnum starfsmannaveltu sem felur í sér að fólk er ekki ráðið í stöðugildi sem losna.

Hér er aðeins nefnt eitt dæmi um aðstöðu sem allir tapa á. Fyrirtækin segja upp starfsfólki með tilheyrandi óvinsældum. Álag eykst á það starfsfólk sem verður eftir og þarf að ganga í þau störf sem aðstoðarmenn í sal gegndu áður, viðskiptavinir tapa þar sem þjónustan minnkar eða verð hækkar og þannig mætti áfram telja. En stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar fagna sigri, því þeim tókst að koma hækkun lágmarkslauna í gegn – með valdi.

***

Launahækkanir án innstæðu

Líklega finnst fáum spennandi að vinna á lágmarkslaunum, en Fjölnir myndi þó ætla að lágmarkslaun séu betri en engin laun.

Fjölnir vill reyndar ganga lengra og spyrja; hvað hafa þeir sem lægst hafa launin gert til að réttlæta að þau séu hækkuð? Nú kann einhverjum að bregða og spyrja sig hversu ósvífinn þessi Fjölnir ætlar að vera. Tökum þó út hugtakið um lægstu launin og tölum um laun almennt. Hvað hafa launamenn gert til að réttlæta það að laun þeirra séu hækkuð á einu bretti með nýjum kjarasamningum?

Svarið við því er einfalt; ekkert.

Nú hækkuðu laun félagsmanna VR um 3% frá 1. maí sl., sem er í takt við nýjustu kjarasamninga. Félagsmenn VR eru hátt í 30 þúsund. Hafa allir þessir félagsmenn lært eitthvað nýtt til að réttlæta slíka launahækkun? Hafa þeir farið á námskeið, lagt sig aukalega fram eða skapað launagreiðendum sínum önnur verðmæti sem kalla á það að laun þeirra séu hækkuð? Líklega ekki.

Áður en réttlætisriddarar þessa lands froðufella af reiði yfir þessum orðum er rétt að taka fram að 3% hækkun á launataxta er vissulega ekki há upphæð í stóra samhenginu og vissulega geta verið réttlætanlegar ástæður fyrir því að hækka launataxta. Sjálfsagt eru mörg dæmi þess að einstaka launþegar hafi sótt sér aukna þekkingu eða tækni, bætt vinnubrögð, afköst eða annað sem réttlætir að laun þeirra séu hækkuð. En það verður ekki séð með einföldum hætti að slíkt eigi að ganga yfir bara af því að „aðilar vinnumarkaðarins“ náðu að semja.

***

Það er þó allt í lagi að skoða þessi mál út frá sjónarhorni þeirra sem greiða launin. Sá sem er ábyrgur fyrir því að reka fyrirtæki þarf að horfa í öll horn og vega og meta kosti þess og galla að hafa fólk í vinnu. Ef sá sem rekur vöruhús getur látið tölvur keyra vörur um húsið og raða þeim í hillur í stað ákveðins fjölda starfsmanna, þá er það vissulega freistandi. Tölvurnar verða ekki veikar, þær fara ekki í verkfall, það þarf ekki að greiða hátt tryggingargjald og önnur launatengd gjöld af þeim, það þarf ekki að ráða starfsmannastjóra til að sinna þeim og þannig mætti áfram telja. Ef sami eigandi kýs hins vegar að hafa tíu manns í vinnu í vöruhúsinu, þarf hann að miða launagreiðslur við afköst og framleiðni.

Þessir tíu starfsmenn eru hluti af verkalýðsfélagi og eigandi vöruhússins er aðili að einhverjum hagsmunasamtökum atvinnulífsins. Báðir aðilar eru búnir að framselja samningsrétt sinn, ef svo má að orði komast, til þriðja aðila. Þeir aðilar semja um ákveðna launahækkun og við það þarf að standa. Án þess að nokkuð breytist í vöruhúsinu, án þess að starfsmennirnir læri eitthvað nýtt eða leggi sig meira fram, þarf eigandinn að hækka laun þeirra. Til að mæta þeim kostnaði þarf hann annaðhvort að hækka tekjur hússins, t.d. með hærri verðlagningu sem kann að veikja stöðu hans í samkeppni við önnur vöruhús, eða með einhvers konar hagræðingu, s.s. uppsögnum. Það væri hægt að heimfæra svona dæmi á nánast öll fyrirtæki.

***

Þetta verður enn flóknara þegar kemur að opinberum störfum. Það er engin leið að verðlauna duglegan, frjóan og samviskusaman kennara umfram þann sem aðeins er áskrifandi að launum sínum. Það sama gildir um flestar heilbrigðisstéttir og aðra opinbera starfsmenn. Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, eru ekkert sérstaklega góðir launagreiðendur þó að einstaka hópar innan hins opinbera hafi hlaupið langt fram úr öðrum á undanförnum árum, s.s. forstjórar og stjórnendur opinberra fyrirtækja, þingmenn, ráðherrar og æðstu starfsmenn ráðuneyta. Fjölnir mun fjalla um það síðar.

***

Sósíalistar hafa rangt fyrir sér – enn og aftur

Þeir eru til sem telja að rekstraraðilar fyrirtækja séu með einhverjum hætti að arðræna starfsmennina. Orðræða þeirra sem hæst hafa innan verkalýðshreyfingarinnar hér á landi er pólitísk. Þetta eru sósíalistar og barátta þeirra er pólitísk. Við vitum alveg hvernig sósíalisminn hefur virkað þar sem hann er reyndur og afleiðingarnar eru skelfilegar. Þeir sem eru of ungir til að muna eftir Sovétríkjunum, Kína og Kúbu geta horft til Venesúela í dag. Ástandið þar í landi er skelfilegt og einkennist af ofbeldi, fátækt, hungursneyð og ungbarnadauða.

Þetta er ástand sem hvergi ætti að rekja í þróuðu landi (sem Venesúela var). Þeir einu sem hafa það gott í landinu eru þeir sem gegna æðstu stöðum og vinir þeirra.

Sósíalisminn á einn sök á ástandinu þar. Það er nákvæmlega sami sósíalismi og formenn VR og Eflingar boða og það er nákvæmlega sami sósíalismi og Gunnar Smári Egilsson boðar. Allt þetta fólk sér sósíalismann í hillingum og gerir engan greinarmun á fátækt í Venesúela og blankheitum á Íslandi.

***

Sósíalistaflokkur Íslands er sem betur fer lítill flokkur og fékk lítið fylgi í nýlegum sveitarstjórnarkosningum. En boðskapur flokksins og félagsmanna hans er hættulegur. Hann er ekki hættulegur hinum ríku eða þeim sem hafa það almennt gott, heldur er hann hættulegur öllum almenningi. Það er ekkert nýtt í orðræðu þeirra sem aðhyllast sósíalisma á Íslandi, þeir nota sömu orð, sömu frasa og sömu kenningar og skoðanabræður þeirra gerðu fyrir 100 árum.

***

Nú þegar við fögnum 100 ára fullveldi landsins er við hæfi að horfa til baka og sjá hversu langt við höfum komist á einni öld. Og það þarf stundum að setja hlutina í rétt samhengi.

Nýkjörinn borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands talaði mikið um þá fátækt sem hún upplifði sem barn hér á landi. Fjölnir hefur engar forsendur né vilja til að rengja þá frásögn og hefur fulla samúð með þeim aðstæðum sem hún kann að hafa búið við, hafandi kynnst þeim sjálfur. Óréttlætið hér á landi er þó ekki meira en það að þessi sama kona hefur nú lokið háskólaprófi og er orðin borgarfulltrúi. Það eru ekki mörg lönd í heiminum þar sem fólk sem býr við fátækt í æsku getur lokið háskólaprófi.

***

Ísland er landið þar sem barn sem býr við fátækt getur orðið læknir, lögfræðingur, kennari, bifvélavirki, dúkalagningamaður – eða lært hvað það vill svona almennt séð. Við bætum ekki hag almennings með sósíalískri byltingu eða með „jöfnun launa“ í hvaða birtingarmynd sem hún er sett fram.

Við bætum kjör almennings með því að halda áfram að byggja upp sterka innviði landsins – hvort sem það eru áþreifanlegir innviðir svo sem vegir, hafnir og fjarskipti eða óáþreifanlegir svo sem menntun.

Og við bætum kjör almennings með því að gefa sem flestum tækifæri til að vinna, fjárfesta, taka áhættu, skapa og þróa án þess að hið opinbera komi þar að verki.

Markaðshagkerfið var ekki búið til af neinum, heldur er það kerfi sem þróaðist með auknum samskiptum, nýjum uppgötvunum og viðskiptum milli manna. Ólíkt sósíalisma, sem setur reglur alveg óháð mannlegu eðli eða þörfum, tekur markaðshagkerfið mið af þörfum og löngunum manna.

Markaðirnir þróast eftir því hvernig við lærum að umgangast hvert annað. Það að halda því fram að kapítalisminn leiði til fátæktar og að sósíalisminn til hagsældar gengur þvert gegn þeim staðreyndum sem liggja fyrir okkur.

 

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2018.

Hægt er að kaupa áskrift að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is