Afnemum tekjuskattskerfið í núverandi mynd

Öllum ber að greiða skatta til ríkis og sveitarfélaga og það er eðlilegt að menn séu sjálfir ábyrgir fyrir því. Það að greiða tekjuskatt og útsvar á að vera eins og hver önnur útgjöld heimilisins.

Vinstristjórnin sem tók við völdum árið 2009 náði litlum árangri í helstu stefnumálum sínum – sem betur fer. Henni tókst ekki að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, henni tókst ekki að eyðileggja það góða fiskveiðistjórnunarkerfi sem við búum við og henni tókst ekki að umbylta stjórnarskránni. Og hún verður ekki sökuð um að hafa ekki reynt, því þetta voru bardagar sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur háði af fullum krafti.

Eitt tókst henni þó, að flækja skattkerfið, leggja á nýja skatta og hækka aðra skatta. Svo miklum árangri náði hún í þessu að á kjörtímabilinu 2009-2013 voru gerðar á annað hundrað breytingar á skattkerfinu í sinni víðustu mynd. Í nær öllum tilvikum urðu skattgreiðendur undir í þeirri baráttu, bæði einstaklingar og fyrirtæki.

Það væri aðeins til að æra óstöðugan að ætla að telja þær allar upp hér. Þess í stað verður einblínt á þá skatta sem snerta okkur öll hvað mest, tekjuskatta.

Ríkisstjórn Jóhönnu lagði á svokallað þrepaskipt skattkerfi og eyðilagði þar með nokkuð einfalt tekjuskattskerfi, sem þó var þrepaskipt út í hið óendanlega. Jóhönnustjórnin lagði á tvö þrep af hátekjuskatti. Allar tekjur á bilinu 200-650 þús. kr. féllu í neðra þrep hátekjuskatts og báru þannig um 40% skatt en tekjur yfir 650 þús. kr. báru um 46% skatt. Meðallaun í landinu voru þá rétt rúmar 400 þús. kr. á mánuði, sem sýnir að vinstrimenn voru tilbúnir að leggja hátekjuskatt á hinn almenna launamann, millitekjuhópinn. Því má aldrei gleyma. Þeir gerðu það einu sinni og eru vísir til þess að gera það aftur.

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem sat á árunum 2013-16, afnam neðra þrep hátekjuskattsins, en þó ekki fyrr en 2017. Neðsta þrep tekjuskattsins hefur aðeins lækkað lítillega frá árinu 2014, eða um tæp 0,3 prósentustig. Efsta þrepið hefur verið óbreytt frá árinu 2014 en krónuviðmið tekna hefur þó hækkað á tímabilinu.

Það er hægt að skrifa í löngu máli um skatta og skattheimtu, hversu ósanngjörn hún er, um viðhorf stjórnmálamanna til skattgreiðenda og það sem enn verra er – viðhorf embættismanna til skattgreiðenda. Um það var fjallað lítillega í grein minni í vorhefti Þjóðmála og að öllu óbreyttu verður full ástæða til að víkja aftur að því síðar. En hér skulum við fjalla um galla tekjuskattskerfisins í núverandi mynd.

 

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá hvernig staðgreiðsluskattur, þ.e. tekjuskattur og útsvar, hefur þróast á þeim tveimur áratugum sem liðnir eru frá því að núverandi staðgreiðslukerfi var tekið upp. Eins og sjá má fór tekjuskattur nokkuð hækkandi allt til ársins 1995. Myndin ein sýnir þó ekki alla söguna. Þannig má nefna að árið 1994 lækkaði tekjuskattur um 1,15 prósentustig en útsvar hækkaði um 1,65 stig. Árið 1997 lækkaði tekjuskatturinn um tæp 3,5 prósentustig en útsvarið hækkaði um tæp 2,8 stig, það kom til vegna flutnings grunnskóla yfir til sveitarfélaga. Frá árinu 1993 hækkaði tekjuskattur ekki fyrr en árið 2009, þegar hann hækkaði um 1,35 prósentustig. Það var ákvörðun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem kom til í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Árið 2009 kynnti ríkisstjórn VG og Samfylkingar til sögunnar þrepaskipt skattkerfi. Allar tekjur á bilinu 200-650 þús. kr. féllu í neðra þrep hátekjuskatts og báru þannig um 40% skatt. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem sat á árunum 2013-16, afnam neðra þrep hátekjuskattsins, en þó ekki fyrr en 2017. Það má enn furðu sæta að hún hafi ekki afnumið bæði þrepin.

 

Afnemum staðgreiðslukerfið

Ein besta leiðin til að koma í veg fyrir hækkun skatta er að auka tilfinningu almennings gagnvart skattgreiðslum sínum. Þeir sem komnir eru á miðjan aldur muna eflaust eftir því þegar staðgreiðslukerfið svokallaða (sem enn er í gildi) var tekið upp árið 1987. Nú draga atvinnurekendur staðgreiðsluskattinn (tekjuskatt og útsvar) af launþegum og skila honum til ríkisins 15. hvers mánaðar. Skattgreiðslan er því á ábyrgð atvinnurekenda, en ekki þess sem vinnur sér inn launin.

Kerfið er að mörgu leyti einfalt og þægilegt. Það er meira að segja svo þægilegt að launþeginn þarf í raun ekkert að hugsa út í það. En er það kostur? Eins og sjá má í töflu á síðunni hér á undan hefur þróun tekjuskatts verið nokkuð mikil í þau tæpu 20 ár sem liðin eru frá því að staðgreiðslukerfið var tekið upp. Á innan við tíu árum var staðgreiðsluhlutfall tekjuskatts búið að hækka um tæp sjö prósentustig, frá 35% upp í tæp 42%.

Það hvort tekjuskatturinn hækkar eða lækkar um 1-2 prósentustig hefur í sjálfu sér lítil áhrif á flesta launþega. Það myndi þó eflaust hafa einhver áhrif ef þeir þyrftu að greiða skattinn sjálfir.

Tökum einfalt dæmi. Pétur er með 500 þús. kr. mánaðarlaun. Að frádregnum 4% greiðslu í lífeyrissjóð og 2% greiðslu í séreignarsparnað er skattstofn hans 470 þús. kr. Vinnuveitandi hans dregur af honum 119.723 kr. í staðgreiðslu og skilar þeirri upphæð til ríkisins um miðjan mánuð ásamt öðrum launatengdum gjöldum. Þetta er einfalt og nokkuð öruggt kerfi, þá aðallega fyrir ríkið sem fær alltaf sitt. Sjálfsagt lítur meginþorri launamanna ekki á tekjuskatt sem útgjaldalið og þ.a.l. er hann að öllum líkindum hvergi færður í heimilisbókhald, sé það haldið á annað borð. Pétur er engu að síður búinn að greiða um fjórðung tekna sinna í skatt og hefur afganginn til ráðstöfunar fyrir önnur útgjöld, sem einnig bera hina ýmsu skatta.

Engin tilfinning fyrir sköttum

Gallinn við þetta kerfi er að launþeginn (skattgreiðandinn) meðhöndlar aldrei skattana sína. Þeir eru sem fyrr segir ekki hluti af útgjöldunum, eins og þeir ættu að vera. Það væri nær að greiða Pétri út öll sín laun og gera hann ábyrgan fyrir því að greiða sína skatta. Þannig fá skattgreiðendur betri tilfinningu fyrir skattgreiðslum sínum og um leið verður miklu erfiðara fyrir stjórnmálamenn að hækka skatta. Um leið og þeir hækka eru þeir orðnir stærri liður af áþreifanlegum útgjöldum heimilanna.

Þetta má gera með nokkuð einföldum hætti. Vinnuveitandinn býr til sama launaseðil og áður og sendir viðeigandi upplýsingar til skattayfirvalda, rétt eins og hann gerir nú. Í stað þess að draga staðgreiðsluna frá launum greiðir hann starfsmanni sínum brúttó laun. Innan skamms myndast krafa í heimabanka launþegans frá viðeigandi ríkisstofnun og hann greiðir hana rétt eins og aðra reikninga. Tölvukerfi nútímans leysa þetta með afar einföldum hætti.

Útsvarið er vel falið

Hér hefur ekkert verið minnst á útsvarið til sveitarfélaga. Allir launþegar með undir 700 þús. kr. í mánaðarlaun greiða hærra útsvar til sveitarfélaga en þeir greiða í tekjuskatt til ríkissjóðs. Það er stór galli að það skuli aldrei koma fram á launaseðlum landsmanna og fæstir gera sér grein fyrir því hversu hátt hlutfall launa rennur til sveitarfélaganna. Ef við viljum taka þetta alla leið ættum við að sjálfsögðu að búa til tvo reikninga í heimabankanum, annan fyrir ríkið og hitt fyrir sveitarfélagið. Þannig sjá menn með berum augum hvað þeir eru að greiða í útsvar hverju sinni – og um leið verður erfiðara fyrir sveitarstjórnir að hækka útsvarið.

Lítil breyting

Það eina sem breytist í raun við þetta er að launþegarnir greiða skattana sína sjálfir. Það má líka spyrja, af hverju ættu launþegar ekki sjálfir að vera ábyrgir fyrir sínum skattgreiðslum? Öllum ber að greiða skatta til ríkis og sveitarfélaga og það er eðlilegt að menn séu sjálfir ábyrgir fyrir því.

Sjálfsagt halda einhverjir því fram að ef núverandi kerfi yrði breytt myndu einhverjir ekki greiða skattana sína. Það má vel vera, en væntanlega hefur ríkisvaldið burði til að elta þær greiðslur uppi. Einhverjir gætu orðið hræddir um að fólk væri búið að verja peningunum í annað þegar kemur að greiðsludegi skatta. Slík rök halda ekki vatni, því við hljótum að geta treyst fólki fyrir þessu eins og öðru.

Þeir sem líklegir eru til að mótmæla þessari útfærslu geta ekki gert það á tæknilegum forsendum, því sem fyrr segir er lítið mál að senda allar þessar tölur í og á milli tölvukerfa. Líklega væru menn, þá helst embættismenn, líklegir til að mótmæla svona útfærslu af því að núverandi kerfi er þægilegt. En það er aldrei gott þegar orðin „skattar“ og „þægilegt“ koma fyrir í sömu setningu.

Við eigum að afnema staðgreiðslukerfið í núverandi mynd og færa skattgreiðslurnar nær almenningi. Þannig fær fólk betri tilfinningu fyrir þeim stóra útgjaldalið og það verður erfiðara að hækka skatta.

 

Eflaust gera ekki allir sér grein fyrir því hversu hátt hlutfall af tekjum rennur í raun til sveitarfélaga. Einstaklingur með um 300 þúsund krónur í mánaðarlaun greiðir aðeins um 10 þúsund krónur í tekjuskatt á mánuði (að frádregnum persónuafslætti) en um 41.500 kr. í útsvar. Það er ekki fyrr en einstaklingur er kominn með um 700 þúsund krónur í mánaðarlaun sem viðkomandi fer að greiða hærri skatta til ríkisins. Sveitarfélögin fá alltaf sín 14,44% enda reiknast persónuafsláttur bara á tekjuskatt til ríkisins. Í töflunum á þessari síðu er miðað við skattstofn að frádreginni 4% greiðslu í lífeyrissjóð og 2% greiðslu í séreignarsparnað. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan hækkar skattahlutfall samhliða hækkandi tekjum. Þannig væri það jafnframt þótt ekki væri til staðar efra þrep tekjuskatts. Sökum persónuafsláttar má segja að tekjuskattskerfið sé þrepaskipt út í hið óendanlega, enda greiða menn alltaf hærra hlutfall af sköttum eftir því sem tekjurnar eru hærri.

 

Höfundur er ritstjóri Þjóðmála og skattgreiðandi.

 

– Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is.