Bjarni: Hræðsla stjórnmálamanna bitnar á framförum

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd: HAG

„Gagnrýni er hluti af starfinu og fólk á ekki að gefa sig að stjórnmálum ef það er viðkvæmt fyrir henni. Gagnrýni getur verið líka uppbyggileg. Allt fer það eftir því hvernig hún er sett fram en líka hvernig maður ákveður að taka henni.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í ítarlegur viðtali í nýjasta tölublaði Þjóðmála. Í viðtalinu fjallar Bjarni um ríkisstjórnarsamstarfið, stöðu og framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins, um aðkomu einkaaðila í mennta- og heilbrigðismálum, það hvort stjórnmálamenn gefi sér nægan tíma fyrir hugmyndafræði og margt fleira.

Ofangreindur kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og er því birtur hér á vef Þjóðmála í heild sinni.

Eðli málsins samkvæmt fær Bjarni nokkra gagnrýni frá vinstri væng stjórnmálanna, en hvað finnst honum um það þegar hægri menn gagnrýna hann fyrir að fylgja ekki nógu fast eftir hugsjónum þeirra?

„Mér finnst það oft ósanngjarnt en það fer aldrei í taugarnar á mér. Það er viss hégómi í öllum mönnum og það finnst öllum, þar á meðal mér, ágætt að fá klapp á bakið af og til fyrir það sem hefur verið gert vel. Ég væri hins vegar fyrir löngu hættur ef það væri hrósið sem ég sæktist eftir,“ segir Bjarni.

Sem fyrr segir telur Bjarni að gagnrýni sé hluti af starfinu og fólk eigi ekki að gefa sig að stjórnmálum ef það er viðkvæmt fyrir henni.

„Meira að segja ósvífin og rætin gagnrýni getur gert þér gagn ef þú kannt að nýta þér hana. Þegar er lamið stanslaust á manni er maður þvingaður til að spyrja sig stöðugt um eigin hugmyndafræði og um það hver maður er. Sá sem kemst í gegnum slíkt stendur eftir sem sterkari stjórnmálamaður, með meitlaða hugmyndafræði og sterkari sjálfsmynd,“ segir Bjarni.

Stundum þarf ekki mikið til að hræða stjórnmálamenn með illri umræðu og einhver sagði að það væri ekkert verra en hræddur stjórnmálamaður, er það rétt?

„Já, ég get tekið undir það,“ segir Bjarni.

„Ég held hins vegar að það sé of stór fullyrðing að segja að stjórnmálamenn séu upp til hópa hræddir. Aðalatriðið er að stjórnmálamenn eru bara eins og annað fólk sem getur tekið það til sín ef að einhverju er haldið fram sem því finnst ekki gefa rétta mynd. Þetta verður vissulega til þess að sumir stjórnmálamenn eiga erfitt með að setja á dagskrá eða tala fyrir málum sem þeir vita fyrirfram að getur mætt einhverjum mótbyr. Það er veikleiki.“

Hvar kemur sá veikleiki niður?

„Hann bitnar á framförum og fælir menn frá því að berjast gegn kerfinu og viðteknum hugmyndum,“ segir Bjarni.

„Ef hugmynd er fleytt, sem stjórnmálamaður hefur fengið lýðræðislegt umboð til að fylgja eftir, þá verður hann að hafa úthald og þor til að ljúka slíku máli, þótt það kunni á köflum að vera erfitt. Við höfum gert það í okkar ríkisstjórnum, að fara í gegnum allskonar umræðu með ýmis konar mál. Enda fela stærstu málin iðulega í sér miklar áskoranir, en við höfum fylgt þeim til enda, eins og til dæmis uppgjöri slitabúanna, afnámi miðþreps tekjuskatts og leiðréttingu á skuldastöðu heimilanna.“

 

Sem fyrr segir er rætt við Bjarna í viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is. Þá fæst ritið í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.