Þrjár skýrslur Hannesar: Umhverfismál, bankahrun og kommúnismi

dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor. Ljósmynd: VB/BIG

Lesendum Þjóðmála þykja eflaust forvitnilegar þrjár skýrslur á ensku sem hugveitan New Direction í Brussel gaf út árið 2017 eftir dr. Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor. Þær eru jafnframt allar aðgengilegar á netinu, bæði á heimasíðu New Direction og í Google Books. Þær eru allar myndskreyttar. New Direction er sú hugveita í Brussel sem styður hvað einarðlegast frjáls markaðsviðskipti.

Grænn kapítalismi

Hannes H. Gissurarson kynnti skýrslu sína um Grænan kapítalisma á umhverfisráðstefnu ACRE í Bibliotheque Solvay í Brussel 24. maí 2018.

Fyrsta skýrslan ber heitið Grænn kapítalismi: Umhverfisvernd í krafti skilgreindra eignaréttinda (Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Private Property Rights). Er hún 69 blaðsíður að lengd.

Hannes rifjar upp að á sjötta og sjöunda áratug komu út ýmsar bækur með spádómum um stórkostlegan vanda mannkyns sökum umhverfisspjalla. Raddir vorsins þagna (Silent Spring) eftir Rachel Carson var um hættuna af skordýraeitrinu DDT, sem úðað var á ræktað land. Carson hafði rétt fyrir sér um að efnið gat gert suma fugla ófrjóa tímabundið en hitt reyndist rangt að DDT væri hættulegt mönnum. Engu að síður var horfið frá því að nota það gegn skordýrum, með þeim afleiðingum að milljónir manna hafa dáið úr mýraköldu (malaríu), en DDT drepur fluguna sem ber sjúkdóminn í menn.

Í Óbyggð og allsnægtum (Wilderness and Plenty) hélt Sir Frank Fraser Darling því fram að mannkyni stafaði ógn af stjórnlausri offjölgun. Reyndin hefur hins vegar orðið sú að hægt hefur á fólksfjölgun eftir því sem fátækar þjóðir hafa komist í meiri álnir. Hannes H. Gissurarson kynnti skýrslu sína um Grænan kapítalisma á umhverfisráðstefnu ACRE í Bibliotheque Solvay í Brussel 24. maí 2018.

Í Heimi á helvegi (A Blueprint for Survival) kváðu Edward Goldsmith og félagar hans þéttingu byggðar leiða til aukinna glæpa, en hið gagnstæða hefur gerst: glæpum hefur víðast fækkað. Í Endimörkum vaxtarins (Limits to Growth) fullyrtu höfundar að framleiðsla lífsgæða gæti ekki haldið í við fjölgun mannkyns og aukningu þarfa, svo að mörg hráefni yrðu á þrotum um og eftir 2000. Þetta hefur ekki gerst, ekki síst vegna ófyrirséðra tækniframfara. Væri nær, segir Hannes, að tala um að raddir vorsins fagni.

Hannes ræðir meðal annars um skóga, en þeim var víða eytt í Norðurálfunni, Evrópu, á miðöldum. Nú er verið að rækta þá þar aftur, og hefur skóglendi aukist í álfunni síðustu áratugi. Jörðin hefur líka grænkað í heild vegna aukins koltvísýrings í andrúmsloftinu, en hann örvar vöxt í jurtaríkinu. Í mælingum sínum reyndust vísindamenn líka hafa vanmetið skóglendi á þurrlendi, meðal annars kjarr og gróður í þéttbýli.

Hannes segir rétt að regnskógar hafi hins vegar eitthvað hopað síðustu áratugi, meðal annars á Amasón-svæðinu, en það sé rangt að slíkir skógar séu „lungu jarðarinnar“. Lungu mannanna taka til sín súrefni og láta frá sér koltvísýring en skógar gera hið gagnstæða.

Sú röksemd að í regnskógum búi líffræðilegur fjölbreytileiki sé rétt en slíkan fjölbreytileika megi varðveita á miklu smærri svæðum, eins og dæmið af Atlantshafsskóginum í Brasilíu sýni. Hann hafi að mestu leyti verið höggvinn, en líffræðilegur fjölbreytileiki sé svipaður í því, sem eftir er af honum, og áður var eftir besta mati vísindamanna. Hitt sé áhyggjuefni, segir Hannes, að Amasón-skógurinn sé ekki undirorpinn eignarrétti, svo að þar sé stunduð rányrkja, ekki aðeins í skóginum sjálfum, heldur líka í ám og vötnum svæðisins. Vitaskuld eigi Brasilíumenn að nýta þessi gæði á sjálfbæran hátt sér til hagsbóta.

Í skýrslu sinni teflir Hannes hófsamlegri umhverfisvernd í krafti skýrra nýtingarreglna, afnota- og eignaréttinda (wise use environmentalism) fram gegn umhverfisöfgastefnu (ecofundamentalism), sem virðist í ætt við trúarbrögð frekar en skynsamlega skoðun. Hann telur hagvöxt ekki þurfa að ógna umhverfinu, enda sé eðlilegur hagvöxtur aðallega í því fólginn að finna ódýrari leiðir að settum markmiðum, spara orku, fjölga tækifærum. En fylgismenn hófsamlegrar umhverfisverndar geri sér grein fyrir að vernd krefjist verndara. Einhverjir þurfi að hafa hag af því að nýta umhverfið svo vel að það spillist ekki. Hannes rekur þessa hugmynd til hagfræðinganna Ronald Coase og Harold Demsetz en bendir líka á ýmsa kunna rithöfunda sem hafi lýst henni, til dæmis Matt Ridley í bókinni Heimur batnandi fer (The Rational Optimist), Johan Norberg í Framförum (Progress) og Bjørn Lomborg í Hinu sanna ástandi heimsins (Verdens sande tilstand).

 

Sumir fílastofnar í Afríku eru í útrýmingarhættu en rétta ráðið að sögn Hannesar er að breyta veiðiþjófum í veiðiverði með því að veita þeim sem næstir búa fílunum afnotarétt af þeim.

Tiltölulega auðvelt sé að skilgreina eignaréttindi á landi og kvikfé að sögn Hannesar: Land megi girða og kvikfé megi merkja eigendum. En erfiðara sé að koma slíkum girðingum eða merkingum við á öðrum gæðum, á Íslandi til dæmis á afréttum upp til fjalla og laxveiðiám. Þar hafi myndast sérstök blanda einkanota- og samnotaréttinda, jafnvel þegar á þjóðveldisöld. Hver hreppur hafi átt sína afrétt, og síðan hafi fylgt hverri jörð ákveðin tala sauða, sem reka mátti í afréttina, ítalan svonefnda. Eigendur jarða við laxveiðiár hafi átt þær saman, en hverri jörð fylgt ákveðinn stangafjöldi á veiðitímabilinu. Þannig hafi aðgangur að takmörkuðum gæðum verið takmarkaður. Kvótakerfið í íslenskum sjávarútvegi sé í raun svipað hinni fornu ítölu. Hverju skipi fylgi ákveðið magn af fiski sem veiða megi, kvótinn, en hann geti líka gengið kaupum og sölum. Þannig nýtist tveir helstu kostir einkaeignarréttar: að handhafar réttindanna einbeiti sér að því að nýta sem hagkvæmast þau gæði sem þeir hafa einkaafnotarétt á, og að réttindin rati smám saman í frjálsum viðskiptum í hendur þeirra sem best kunna með þau að fara.

 

Í skýrslu sinni víkur Hannes að lokum að þremur „þokkafullum risadýrum“ (charismatic megafauna); hval, fíl og nashyrningi. Hann bendir á að hvalastofnarnir tveir sem Íslendingar nýta, langreyður og hrefna, séu traustir og eigi þess vegna alls ekki heima á alþjóðlegum listum um dýrategundir í útrýmingarhættu. Sumir stofnar fíla og allir stofnar nashyrninga séu hins vegar í útrýmingarhættu. Þar sé lausnin sú að breyta veiðiþjófum í veiðiverði með einu pennastriki: með því að gera þá sem næstir búi dýrunum að eigendum þeirra eða gæslumönnum. Sem fyrr krefjist vernd verndara.

Lærdómar af bankahruninu

Önnur skýrsla Hannesar fyrir New Direction ber heitið Lærdómar Evrópuþjóða af bankahruninu íslenska 2008 (Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse). Hún er 93 blaðsíður að lengd.

Í upphafi vísar Hannes á bug ýmsum algengum skýringum á bankahruninu. Það stafaði ekki af auknu atvinnufrelsi, enda voru margar þjóðir frjálsari en Íslendingar, án þess að bankakerfi þeirra hryndu. Það var ekki heldur vegna kvótakerfisins í sjávarútvegi, sem hafði í meginatriðum myndast árin 1975–1990, löngu fyrir bankahrunið.

Það mátti ekki heldur rekja til „karlaveldis“. Fjármálageirar annarra þjóða voru skipaðir körlum að miklum meirihluta, án þess að bankakerfi þeirra hryndu. Bankahrunið var ekki heldur vegna stjórnarskrárinnar, sem var svipaðs efnis og hin danska. Hannes telur skýringu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu rétta, svo langt sem hún nær: Bankarnir uxu svo hratt og urðu svo stórir að íslenskum stjórnvöldum var um megn að veita þeim lausafjárfyrirgreiðslu í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu. En stærð bankanna var að sögn Hannesar nauðsynlegt skilyrði fyrir bankahruninu og ekki nægilegt.

Hannes leiðir rök að því að óþarfi hafi verið að beita hryðjuverkalögunum gegn Íslendingum. Þessi aðgerð skosku stjórnmálamannanna Alistairs Darlings og Gordons Browns hafi verið af stjórnmálahvötum. Ljósm. Alamy.

Það reið baggamuninn að seðlabankar í Evrópu og Norður-Ameríku neituðu íslenska seðlabankanum um sömu lausafjárfyrirgreiðslu og til dæmis norrænir seðlabankar og hinn svissneski fengu, jafnframt því sem ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins lokaði breskum bönkum í eigu Íslendinga á sama tíma og hún veitti öllum öðrum breskum bönkum aðstoð, og síðan bætti hún gráu ofan á svart með því að setja hryðjuverkalög á Landsbankann, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið.

Hannes telur að setning hryðjuverkalaganna hafi ekki verið ill nauðsyn, eins og breskir ráðamenn hafi látið í veðri vaka. Fjármálaeftirlitið breska hafi haft næg úrræði til að stöðva fjármagnsflutninga úr landi.

Hannes kveður skýringuna á áhugaleysi Bandaríkjanna um Ísland árið 2008 vera að landið var hætt að skipta máli hernaðarlega, en í síðari heimsstyrjöld og Kalda stríðinu voru Bandaríkin öflugur bakhjarl Íslands. Fjandskapur evrópskra seðlabanka í garð íslensku bankanna var aðallega vegna þess að þeir voru taldir ágengir og áhættusæknir og raska jafnvægi á mörkuðum með innlánasöfnun sinni og samkeppni við hefðbundna banka.

Skýringin á hinum ruddalegu aðgerðum bresku Verkamannaflokksstjórnarinnar gegn Íslendingum var hins vegar margþætt, að því er Hannes telur. Gordon Brown forsætisráðherra og Alistair Darling fjármálaráðherra voru báðir Skotar, en skoska sjálfstæðishreyfingin ógnaði yfirburðum Verkamannaflokksins í Skotlandi. Þeir Brown og Darling vildu sýna Skotum hvaða áhættu þeir tækju með því að slíta sambandinu við England.

Enn fremur vildu þeir sýna breskum kjósendum hversu ódeigir þeir væru í vörn fyrir breska hagsmuni, og harka við Íslendinga kostaði þá ekkert. Í þriðja lagi vildu þeir hugsanlega bæta vígstöðu Breta í fyrirsjáanlegri deilu við Íslendinga um uppgjör Icesave-reikninga Landsbankans, sem vistaðir voru í útbúi bankans í Lundúnum, en ekki í dótturfélagi, svo að hinn íslenski Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta bar ábyrgð á innstæðum, en ekki sambærilegur breskur sjóður.

Hannes leiðir rök að því að íslenskir ráðamenn hafi brugðist rétt við með neyðarlögunum 6. október 2008, þegar íslenska ríkið tók ekki lagalega ábyrgð á innstæðum, heldur gerði innstæðueigendur að forgangskröfuhöfum í búum bankanna. Það sé rangt að með því hafi breskum og íslenskum innstæðueigendum verið mismunað, því að hvorir tveggja hefðu orðið forgangskröfuhafar, heldur hafi í raun innstæðueigendum og öðrum kröfuhöfum verið mismunað, og hafi legið til þess gildar ástæður. Hannes rifjar upp að ráðherrar Samfylkingarinnar hafi verið tregir til að samþykkja varnarvegg þann um Ísland (ringfencing), sem seðlabankastjórarnir þrír hafi lagt á ráðin um.

Lærdómar Evrópuþjóða af íslenska bankahruninu séu:

  1. Hin einbeitta og ötula forysta Seðlabankans, sem varaði við útþenslu bankakerfisins og undirbjó í kyrrþey áætlun um varnarvegg, skipti sköpum.
  2. Hagkerfið þarf ekki að hrynja þótt ekki sé komið í veg fyrir að bankar fari í þrot. Allt íslenska bankakerfið hrundi en Ísland dafnar vel.
  3. Skynsamlegt er að veita innstæðueigendum forgangskröfur í bú banka, enda er verið að taka það ráð upp víða annars staðar.
  4. Sé það gert þarf ekki ríkisábyrgð á innstæðum, en slík ábyrgð getur einmitt leitt til freistnivanda.
  5. Þegar skapað er geðþóttavald, eins og gert var með hryðjuverkalögunum bresku, er hætt við að það verði misnotað, eins og ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins gerði þegar hún beitti þeim gegn Íslendingum.

Raddir fórnarlambanna

Þriðja skýrsla Hannesar fyrir New Direction ber heitið Raddir fórnarlambanna: Drög að yfirliti um andkommúnískar bókmenntir (Voices of the Victims: Notes Towards a Historiography of Anti-Communist Literature). Hún er 61 bls. og er skrifuð í tilefni hundrað ára afmælis bolsévíkabyltingarinnar rússnesku.

Molotov og Hitler hittast í Berlín haustið 1940 til að fylgja eftir ýmsum ákvæðum griðasáttmálans sem Stalín og Hitler gerðu í Moskvu í ágúst 1939. Kommúnistar og nasistar voru bandamenn fyrstu tvö ár stríðsins. Ljósm. Library of Congress.

Í upphafi rekur Hannes stuttlega leið kommúnismans frá Pétursborg í Rússaveldi 1917 til Pyongyang í Norður-Kóreu 2017. Hvarvetna hefur þessari stefnu fylgt eymd og kúgun, hungursneyðir, fjöldaaftökur, fangabúðir, flokkshreinsanir, átthagafjötrar og ritskoðun. Hannes telur að þetta sé engin tilviljun, heldur eðlisnauðsyn kommúnismans. Í stefnunni sé fólgið að afnema eigi bestu tryggingu skoðanafrelsisins, sem væri dreifð yfirráð yfir atvinnutækjunum. Vitnar Hannes um þetta í tvo kommúnista: Rósa Lúxemborg lagði áherslu á að frelsið væri alltaf frelsi stjórnarandstæðingsins. Lev Trotskíj sagði að í landi þar sem stjórnin væri eini vinnuveitandinn biði stjórnarandstæðingsins hægur hungurdauði.

Hannes reifar einnig rök Friedrichs A. Hayeks fyrir því að hvers konar sósíalismi sé „leiðin til ánauðar“. Ef á að skipuleggja atvinnulífið í stað þess að treysta á frjáls markaðsviðskipti þarf að skipuleggja mennina líka, fækka þörfum þeirra og einfalda þær, og það tekst aðeins með því að taka flest eða öll mótunaröfl mannssálarinnar í þjónustu stjórnarinnar, meðal annars fjölmiðla, íþróttir, dómstóla, listir og vísindi, en þá er komið í alræði, eins og það hefur jafnan verið skilgreint.

Hannes segir síðan deili á helstu ritum sem komið hafa út um kommúnisma. Verður hér aðeins minnst stuttlega á nokkur þeirra sem komið hafa út á íslensku. Þjónusta, þrælkun, flótti er eftir Ingríann Aatami Kuortti, sem var lúterskur prestur og þjónaði þremur sóknum í Ingríu, nálægt Lenínsgarði eða Pétursborg. Ingríar eru náskyldir Finnum og skilja finnsku.

Þegar Kuortti neitaði að njósna um sóknarbörn sín fyrir kommúnista var hann sendur í þrælkunarbúðir í Karelíu. Þaðan tókst honum að flýja yfir til Finnlands 1930 og segja sögu sína. Kíra Argúnova eftir Ayn Rand er skáldsaga um unga og hugrakka stúlku í Pétursborg sem þolir ekki áþján kommúnismans og reynir að flýja yfir landamærin til Lettlands, sem þá var sjálfstætt ríki.

Myrkur um miðjan dag eftir Arthur Koestler er skáldsaga um hin alræmdu Moskvuréttarhöld sem Stalín hélt á fjórða áratug 20. aldar yfir gömlum félögum sínum í kommúnistaflokknum. Koestler reynir að skýra hvers vegna þeir játuðu á sig hinar fáránlegustu sakir, að því er virðist fúsir. Hann telur að þeir hafi sem byltingarmenn afsalað sér öllu siðferðilegu sjálfræði. Flokkurinn var þeim sannleikurinn og þegar hann ákvað að þeir væru sekir urðu þeir að viðurkenna að þeir væru sekir.

Úr álögum eftir Jan Valtin, sem hét réttu nafni Richard Krebs, er um starf hans fyrir Alþjóðasamband kommúnista, Komintern, en höfundurinn ljóstraði því meðal annars upp, sem hefur verið staðfest annars staðar, að kommúnistar notuðu skip Eimskipafélags Íslands til að flytja leyniskjöl milli landa.

Skáldsagan Nítján hundruð áttatíu og fjögur eftir George Orwell, réttu nafni Eric Blair, er um alræðisríkið þar sem allir verða að elska Stóra bróður og fara eftir því sem Flokkurinn ákveður hverju sinni. Ég kaus frelsið er sjálfsævisaga flóttamanns frá Úkraínu, Víktors Kravtsjenkos. Þar lýsir hann eymdinni og kúguninni undir hinni rússnesku ráðstjórn, lögregluríkinu, þrælkunarbúðunum og hungursneyðinni í Úkraínu 1932–1933.

Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum er eftir Ants Oras, prófessor í enskum bókmenntum við Tartu-háskóla, sem varð vitni að hernámi Rauða hersins 1940 og þýska hersins 1941, en tókst að flýja 1943. Segir hann sögu smáþjóðar sem átti við ofurefli að etja. Guðinn sem brást hefur að geyma frásagnir sex menntamanna og er að vonum afburðavel skrifuð. Þrír gengu á hönd kommúnismanum; rithöfundarnir Arthur Koestler frá Ungverjalandi, Ignazio Silone frá Ítalíu og Richard Wright frá Bandaríkjunum. Þrír voru samferðamenn (eða meðreiðarsveinar) kommúnista; franski rithöfundurinn André Gide (Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum), bandaríski blaðamaðurinn Louis Fischer og enska skáldið Stephen Spender.

Í öllum kommúnistaríkjum var aðeins til einn Flokkur og einn Sannleikur. Þeir sem ekki þrömmuðu áleiðis með stjórnvöldum voru sveltir til bana, skotnir, fangelsaðir eða neyddir til að þegja og hlýða. Ljósm. Bundesarchiv.

Konur í einræðisklóm eftir Margarethe Buber- Neumann lýsir lífi hennar frá því að hún flýði undan nasismanum til Rússlands, var handtekin í hreinsunum Stalíns og send í þrælkunarbúðir en síðan afhent nasistum eftir að Stalín og Hitler höfðu gert griðasáttmála sinn í ágúst 1939. El campesino er eftir Valentín González, sem var herforingi lýðveldissinna í spænska borgarastríðinu og flýði síðan til Rússlands. Þar var hann sendur í fangabúðir fyrir ógætileg ummæli sín um ráðamenn, og slapp hann þaðan á ævintýralegan hátt eftir mikinn jarðskjálfta í Ashkabad.

Nytsamur sakleysingi eftir norska sjómanninn Otto Larsen er um vist hans í rússneskum þrælkunarbúðum fyrir engar sakir, en hann var látinn laus eftir dauða Stalíns 1953 og komst aftur til heimalands síns. Hin nýja stétt eftir Milovan Djilas, sem var einn af ráðamönnum Júgóslavíu, er um afskræmingu kommúnismans, þegar hann breyttist úr hreyfingu í stofnun. Með valdatöku kommúnista tók aðeins ný valdastétt við af gamalli. Villtir svanir eftir Jung Chang er um þrjár kynslóðir kvenna í Kína og reynslu höfundarins af kínversku menningarbyltingunni.

Maó: Sagan ókunna er eftir Jung Chang og mann hennar, enska sagnfræðinginn Jon Halliday. Þar rekja þau sögu Maós, hins miskunnarlausa alræðisherra Kína, og afhjúpa margar goðsagnir um hann. Svartbók kommúnismans kom fyrst út á frönsku 1997, og var prófessor Stéphane Courtois ritstjóri hennar. Var þar reynt að segja sögu kommúnismans eftir bestu fáanlegu heimildum, en sumar þeirra komu í ljós eftir að Ráðstjórnarríkin liðuðust í sundur 1991. Telur Courtois að um hundrað milljónir manna hafi dáið af völdum kommúnismans, ýmist úr hungri og vosbúð eða verið drepnir. Eru þá ótalin mörg hundruð milljóna manna sem þurftu að búa við kúgun kommúnista í þögulli angist.

Í lok skýrslu sinnar gagnrýnir Hannes hlutdrægni vinstrisinnaðra sagnfræðinga á Íslandi. Þeir Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson verja til dæmis tíu línum í kennslubók fyrir framhaldsskóla í lýsingu á framgöngu Josephs McCarthys í Bandaríkjunum um og eftir 1950, en minnast ekki á hungursneyðina í Úkraínu 1932–1933, sem kostaði sex milljónir mannslífa. Þeir segja aðeins að samyrkjan sem Stalín neyddi upp á bændur með þessum óskaplegu afleiðingum hafi verið „í óþökk“ þeirra.

 

Umfjöllunin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.