Hið lítt rædda hlutverk Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn hefur blessunarlega staðið sig ágætlega í að láta ekki vindstyrk umræðunnar stjórna sér.

Ég ólst upp á heimili tveggja kennara sem lærðu í Svíþjóð. Eins og gerist í uppeldi tók ég á bernskuheimilinu eins konar barnatrú á ýmis gildi um það hvernig hlutirnir eigi að vera. Þau voru mörg ágæt og dugðu mér fram eftir aldri. Það var ekki fyrr en í laganámi sem ég fór að spyrja mig gagnrýnna spurninga um það á hverju væri hyggilegast að byggja samfélagið.

Hildur Sverrisdóttir.

Ég komst fljótt að því, og hef bara styrkst í þeirri trú síðan, að mesta réttlætið felist í trú á fólk og frelsi þess til að gera það sem því hugnast. Ég komst líka að þeirri niðurstöðu að andstæðurnar; stjórnlyndið, helsið og vantrúin á fólk, bæri að varast, sama undir hvaða nöfnum þessi hugtök kynnu að birtast okkur og hversu velmeinandi þau væru.

Það var svo í hruninu sem ég endanlega sannfærðist. Allt tal vinstra megin sjóndeildarhringsins virtist snúast um að leiðin úr öllum ógöngum fælist í vantrausti á frelsi fólks. Á meðan ég áttaði mig á því að gott atvinnulíf og athafnasemi fólks væru nauðsynlegur drifkraftur til að skapa allt það sem við viljum á endanum fá út úr farsælu samfélagi, hluti eins og tekjur og velferð, voru atvinnulíf og fyrirtækjarekstur orðin skammaryrði í allri umræðu. Ofurtrú vinstrisins á hið algóða og alltumlykjandi ríki varð til þess að ég skráði mig í Sjálfstæðisflokkinn.

Ég held að frelsið og trúin á athafnasemi fólks séu og verði stoðir sem muni halda Sjálfstæðisflokknum í stafni sem mikilvægasta stjórnmálaaflið í landinu. Ég hef líka verið talsmaður þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé opinn og víðsýnn flokkur með frjálslyndi að leiðarljósi. Þannig held ég að hann skapi sem bestan grundvöll svo að framtíðin geti komið og við getum átt frumkvæði í öllu því nýja sem henni fylgir.

Með tímanum hef ég samt áttað mig á því að flokkurinn minn hefur annað ómissandi hlutverk sem kannski er ekki mikið rætt um en mér finnst brýnt að Sjálfstæðisflokkurinn standi vörð um, sérstaklega í þeim nýja raunveruleika sem við búum í þar sem ölduþungi umræðunnar er mikill og getur breytt landslagi stjórnmála og stemningu samfélags á örskotsstundu.

Heilagur réttur hagsmunahópanna

Það er gömul saga og ný að hagsmunahópar hafi áhrif á stjórnmálamenn. Þetta má setja í annarlegt ljós en oft er það raunar hið besta mál og getur stuðlað að því að stjórnmálamenn séu betur upplýstir. Raddir fólks og hópa eiga að heyrast og hafa áhrif – en það er líka eðlilegt að spyrja hversu langt slík áhrif eigi að ganga í að stöðva breytingar og framþróun. Raddir stakra hópa sem hafa hagsmuni eða sameiginlegan málstað eru nauðsynlegar en mega ekki hertaka umræðuna. Tveir hópar með háværar raddir á öndverðum meiði geta báðir haft heilmikið til síns máls og það er alveg eðlilegt að þeim finnist það réttur sinn að fá sínu fram. Það þýðir samt ekki endilega að það sé rétt.

Nærtækt dæmi er umræðan um áfengi í búðir. Þar er á ferðinni mál sem er í grunninn frjálslyndismál og snýst um að treysta fólki til að selja og kaupa löglega neysluvöru. Þetta er í dag orðin einföld tillaga um að afnema einkarétt ríkisins á að afhenda kúnnum áfengi yfir búðarkassa í afmörkuðu rými.

En vantraust sumra á fólk verður til þess að engum nema opinberum starfsmönnum skal treyst til að standa við kassann þegar rauðvínsflaska kemur eftir færibandinu. Hringavitleysan og óþarfi hennar er algjör.

Við virðumst stundum kikna í hnjánum og missa móðinn gjörsigruð þegar stór orð um lýðheilsu, illt innræti kaupmanna eða fyrirsjáanlegt óheft aðgengi barna að áfengi fara á loft. Það að einhver telji sig bera skarðan leik frá borði virðist stundum nægja til að hætta við allt saman, hversu mikill sem heildarávinningurinn er. Þá virðist engu máli skipta að svipuð rök hafi verið höfð uppi um svo gott sem allt sem leyfa hefur átt sem einhvern tímann hafði verið bannað eða þá að reglurnar ófrávíkjanlegu séu fullkomin andstæða við fyrirkomulag annarra ríkja. Bjórbannið kemur vitaskuld líka upp í hugann, einkavæðing hinna ýmsu fyrirtækja, smásala á mjólk, opnunartímar verslana og svo mætti lengi telja.

Það má nefna umræðuna um að gera leigubílaakstur frjálsan og opna fyrir frjálsa samkeppni. Þar eru það ekki lýðheilsa eða börn sem verður að gæta að heldur einfaldlega klassísk sérhagsmunagæsla. Skiljanlega vilja einstakir hópar passa sína sérstöðu og lífsviðurværi. Það er eflaust bara mannlegt og sjálfsagt. Við munum líka að unnið var gegn því með kjafti og klóm að útvarp yrði gefið frjálst, þá var öll menning landsins undir og útilokað að afleiðingin gæti orðið fjölbreyttari, frjálsari og einfaldlega betri menning.

Tilfinningarökin rista djúpt enda mála þau oftast áhrifameiri myndir en tölfræði og fordæmi. Við hrökkvum jafnan í kút ef einhver varpar því fram að tiltekin ákvörðun sé ekki augljóslega í þágu barnanna eða annarra hópa sem okkur er annt um.

Varnaðarorð eiga að fá að heyrast. Háværar raddir hræðslu, afturhaldssemi og forræðishyggju eiga líka að heyrast. En við verðum að greina á milli og velja hvað við hlustum á. Þetta lítt rædda hlutverk sem ég minntist á áðan er það að enginn annar flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert betur í því að horfa á heildarávinning ákvarðana, lögmæti og réttmæti þeirra og láta ekki stundarstemningu, múgsefjun eða tilfinningahita stöðva ákvarðanatöku og ferla kerfisins sem við búum við.

Vonda og leiðinlega fólkið

Dæmin sem nefnd voru að ofan eru langt í frá þau einu. Við erum vön því að taka okkur hlutverk þess sem verður að benda á heildarmyndina í efnahagsmálum, vön því að vera kjölfestan sem segir upphátt að það sé ekki hægt að gera allt. Stundum fær sá sem heldur uppi skynseminni að heyra að hann sé leiðinlegur, strangur og jafnvel vondur andstætt hinum sem segja bara fallega og skemmtilega hluti. En stundum þarf slíkar raddir, því annars eiga partíin til að enda illa.

Sjálfstæðisflokkur nú og í framtíðinni situr uppi með það hlutverk að vera þessi skynsemisrödd í smásamfélagi sem hefur enn mjög takmarkaða kunnáttu í samfélagsmiðlanotkun og hinum mikla raddstyrk sem fylgir upplýsingabyltingunni. Sögulega hefur ábyrgðin enda verið mest hans og hann valdið henni heilt yfir ágætlega.

Þetta hlutverk er bráðnauðsynlegt um þessar mundir. Staðreyndir og vandaðar rökleiðslur fá allt of lítið pláss. Upphrópanir, tilfinningahiti og gífuryrði eiga hins vegar vel upp á pallborðið. Ef stjórnmálin láta stjórnast af þessari stemningu er hætt við að áhrif upphrópananna verði slík að sá sem hæst lætur geti haft áhrif á hvort lög eru sett eða virt, skoðanakannanir teknar á versta tíma verði látnar ráða för í mikilvægum málum og hjartnæmar fyrirsagnir stýri efnahagsmálum.

Það eru þegar dæmi um þetta, og flokkarnir standa sig vægast sagt misvel í því að standast hrópkórana. Sjálfstæðisflokkurinn hefur blessunarlega staðið sig ágætlega í að láta ekki vindstyrk umræðunnar stjórna sér. Oftast er þetta bara truflandi en hefur ekki áhrif á fagleg störf. En það getur líka haft síður sýnilegar afleiðingar í för með sér. Stjórnmálamenn geta skirrst við að ræða mikilvæga hluti ef vitað er fyrir fram að þeir feli í sér pólitíska lífshættu.

Það eru til dæmis sárafáir ef nokkrir stjórnmálamenn sem ræða það grafalvarlega ástand sem er að myndast með fjölgun ungra karlmanna á örorku.

Þetta umræðuefni sem þyrfti að taka fyrir á opinn og breiðan hátt út frá öllum sjónarmiðum, allt frá mannsæmandi bótafjárhæðum til nauðsynlegra samfélagshvata til að skapa sér framtíð, er þó sama sem ekkert rætt. Ástæðan er hugsanlega sú að hræðslan við að vera brigslað um fordóma er yfirsterkari viljanum til að taka umræðuna.

Þegar sögunni var lokið og allt var leyst

Ég er mikill aðdáandi sjónvarpsþáttanna The West Wing sem fjalla um Bandaríkjaforsetann geðþekka Jed Bartlet og starfsfólk hans í kringum aldamótin síðustu. Það er áhugavert, jafnvel ljúfsárt, að sjá hve mikið hefur breyst á tveimur áratugum. Árið 1999 virtist allt á réttri leið, Rússagrýlan var orðin að sérvitrum vini og minnihlutahópar höfðu svo gott sem fengið öll sín réttmætu réttindi á meðan Bandaríkjaher skottaðist um heiminn í góðu skapi og lagaði það litla sem aflaga fór. Öll vandamál virtust snurfus og frágangur eftir hin farsælu sögulok. Katastrófurnar urðu helst ef forsetinn mismælti sig í ræðustól eða innsláttarvilla rataði á minnisblað.

Það þarf ekki að eyða orðum í samanburð á Hvíta húsi Bartlets og Hvíta húsi ársins 2019. Í The West Wing talaði enginn um „post truth“ eða „fake news“ en í einum þættinum er hins vegar komið inn á frasann „Vox Populi, Vox Dei“ eða „rödd fólksins er rödd Guðs“, frasa sem fylgt hefur m.a. breskum stjórnmálum um aldir. Þar er á ferðinni prýðisgott dæmi um það hvernig hlutirnir eiga það til að skolast til. Þessi hljómfögru orð ku nefnilega rekja rætur sínar allt aftur til áttundu aldar í heilræði fræðimanns að nafni Alcuin til keisarans Karlamagnúsar og hljómuðu upprunalega einhvern veginn svo: „Hlustið ekki á þá sem segja rödd fólksins vera rödd guðs því múgæsingur mannfjöldans er alltaf nærri brjálæði.“

Þetta má ekki skilja svo að ég sé að leggja til að Sjálfstæðisflokkurinn velji sér einvald og leggist í stríðsrekstur gegn Söxum. Kannski er lærdómurinn sá að sagan er aldrei búin og mannfjöldi á einum stað er ekki endilega rödd allra.

Hlutverk stjórnmálanna er að hlusta á raddir fólks en ekki elta þær í blindni, meta vilja og hagsmuni heildarinnar, virða leikreglurnar sem við höfum sett og fara vel með ábyrgðina. Stundum felur það í sér að taka óvinsælar ákvarðanir og stundum verða einhverjir undir. Hagsmunahóparnir verða alltaf á sínum stað. Skoðanirnar verða alltaf margar og háværar. Stjórnvöld verða að hafa agann til að skera á hnúta, taka ákvarðanir, bera pólitíska ábyrgð og ganga svo með verk sín í dóm kjósenda. Festa, framtíðarsýn og skynsemi eru ekki í hávegum höfð þessa dagana, en þeir dagar munu líka líða og sá sem stendur í lappirnar mun á endanum fá það launað. Það er einn af mikilvægustu eiginleikum Sjálfstæðisflokksins sem hann þarf hlúa að og taka með sér inn í framtíðina.

Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og aðstoðarmaður ráðherra.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2019, undir greinaflokk um Sjálfstæðisflokk framtíðarinnar, sem birtur er í tilefni 90 ára afmæli flokksins . Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.