Kjarnarugl

Allt frá því að grein mín „Kjarninn – að kaupa sig til áhrifa“ birtist í vorhefti tímaritsins Þjóðmála í apríl síðastliðnum hafa þeir Kjarnamenn staðið í ströngu. Fyrst birtu þeir grein eftir Þórð Snæ Júlíusson ritstjóra þar sem spjótum var beint að persónu minni, reyndar svo að furðu mátti sæta. Svargrein hans bar heitið: „Hvað vakir fyrir Sigurði Má Jónssyni?“ Fyrirsögnin ein og sér afhjúpar að honum er fyrirmunað að skilja starf blaðamannsins þegar hann er sjálfur til umfjöllunar. Í kjölfarið fylgdi alls konar persónulegur óhróður í minn garð á samfélagsmiðlum, oft með velþóknun þeirra sem sitja við hlustir í bergmálshelli ritstjórans.

Sömu meðulum hefur verið beitt af hálfu Magnúsar Halldórssonar, meðstofnanda hans að Kjarnanum, þegar hann skrifaði fyrir stuttu grein sem bar heitið „Lélegt og óheiðarlegt hjá Sigurði Má“. Augljóslega átti hér að skjóta sendiboðann! Í tvígang hefur verið reynt að koma málinu fyrir siðanefnd Blaðamannafélags Íslands sem hefur hafnað erindum þeirra Þórðar Snæs og Magnúsar, enda töldu nefndarmenn skrif mín rúmast innan þess tjáningarfrelsis sem siðareglur leyfa. Samhliða þessu hefur leynt og ljóst verið haft í hótunum við ritstjóra Þjóðmála um að málinu kunni að vera fylgt eftir fyrir dómstólum.

Það er einu sinni svo að sumir skilgreina fjölmiðla sem fjórða valdið í samfélaginu. Þeir eru því ekki einskonar klúbbur þar sem menn fallast í faðma og sneiða hjá allri gagnrýni þó að þeir hafi ýmis sameiginleg hagsmunamál, eins og til dæmis verndun tjáningarfrelsis. Í raun er stórfurðulegt að sjá ritstjóra á skoðanamiðli (e. opinion journalism) eins og Kjarnanum hrína eins og stunginn grís þegar um hann er fjallað en hampa sjálfum sér við önnur tækifæri fyrir að vilja standa fyrir umræðu um erfið og vandasöm málefni.

Í kjölfar greinar minnar hefur siglt töluverð umræða. Ritstjóri Kjarnans hefur bæði í eigin miðli og annars staðar tjáð sig um þá hlið málsins sem að honum snýr. Sjálfur hef ég skrifað tvær greinar á eigin blogg í andsvari við fullyrðingar hans. Þetta rakti ég allt í nýrri grein í sumarhefti Þjóðmála. Það að reyna að koma málinu fyrir siðanefnd bar því meira keim af einhvers konar lagaklækjum en virðingu fyrir frjálsri umræðu og efnisatriðum málsins. Á samfélagsmiðlum hefur Þórður Snær ritstjóri jafnframt birt yfirlýsingar og ummæli sem ein og sér hljóta að varða við 1. grein siðareglna, kjósi menn á annað borð að beita henni. Þegar á reynir telur hann þetta allt útbreitt samsæri, eins og meðfylgjandi færsla hans á Twitter sýnir:

„Níðkapparnir vinna vanalega í bylgjum. Taktíkin er vanalega þannig að hermaður (Sigurður Már Jónsson og Þjóðmál) eru látin gefa upp þvælubolta, hann svo pikkaður upp af nafnlausu rotþróarpistlasvæðum í Mbl og/eða VB. Hér eru Staksteinar dagsins. Verður stuð að sjá næsta VB.“

Getur sá er svona skrifar kallað eftir vernd af hálfu 1. greinar siðareglna BÍ þegar honum hentar? Það er skoðun undirritaðs að sú grein lúti einmitt að þáttum er Þórður Snær hefur brotið með því að reyna að gera störf mín tortryggileg á þeim tíma þegar við unnum saman. Sú tilraun er vindhögg en augljóst er að ritstjórinn svífst einskis. Því til viðbótar er ljúft að geta þess að ekki verður séð að greinarefnið hafi verið tekið upp í nafnlausum ritstjórnardálkum Morgunblaðsins eða Viðskiptablaðsins.

Á sama tíma og þetta gerist koma yfirlýsingar og fullyrðingar um að fjárhagsstaða Kjarnans sé að batna, nýir stuðningsáskrifendur komi inn og fleiri auðmenn séu komnir í hluthafahópinn. Þegar þetta er skoðað í samhengi hlýtur allt þetta brambolt ritstjóra  miðilsins að vekja furðu. Þó er augljóst að hann þolir ekki umræðu er beinist að honum sjálfum. 

Til viðbótar við kærur til siðanefndar Blaðamannafélagsins hefur verið farið fram á leiðréttingar, nú síðast í grein eftir Magnús Halldórsson sem birt var á vef Viðskiptablaðsins án þess að það hafi blandast inn í þessa deilu fyrr (hugsanlega þó til þess að fá meiri útbreiðslu en Kjarninn getur vænst). Allt er þetta samstofna en þessi skæðadrífa hefur tafið svör mín, sem koma hér lið fyrir lið við grein Magnúsar frá 1. ágúst síðastliðnum.

Einstakar vísanir eru í samstofna kæru til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands:

1. Í grein Sigurðar Más segir: „Þegar við blasti að vinstrimenn myndu gjalda afhroð og missa stjórnartaumana í kosningum til Alþingis vorið 2013 fóru nokkrir vinstrisinnaðir einstaklingar úr fjölmiðlum, stjórnmálum og viðskiptalífi að kanna möguleika á því að stofna nýjan fjölmiðil sem gæti veitt yfirvofandi hægristjórn mótstöðu. Niðurstaðan var sú að vefmiðillinn Kjarninn var formlega stofnaður hinn 1. júní 2013, viku eftir að ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók til starfa.“

Fyrir þessari fullyrðingu um hvatann af stofnun Kjarnans, færir Sigurður Már engar sannanir. Fullyrðingarnar eru rangar og Sigurður Már hefði getað sannreynt það með því að kynna sér stofngögn Kjarnans sem eru aðgengileg í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra hverjum sem þau vill sækja. Þar kemur skýrt fram hverjir stofnuðu miðilinn, hvernig staðið var að stofnun hans og hversu mikið fjármagn var lagt til. 

Um var að ræða sex manns, fjóra blaðamenn, einn fyrrverandi starfsmann fjarskiptafyrirtækis og einn markaðsmann. Enginn í þessum hópi hefur nokkru sinni starfað í stjórnmálaflokki. Enginn var fjárfestir í öðru en eigin húsnæði eða gæti fallið undir skilgreininguna að vera „úr viðskiptalífinu“. Allt það fé sem lagt var til við stofnunina kom frá þeim sem stofnuðu miðilinn.

Svar: 

Fyrsta athugasemd þeirra Magnúsar og Þórðar Snæs felst í því að hafna þeirri ályktunni minni að þeir sem stóðu að stofnun Kjarnans hafi verið vinstrimenn. Er það ekki deila um keisarans skegg? Ekki voru þeir Sjálfstæðismenn, ekki voru þeir Framsóknarmenn og óhætt að segja að þeir teljist seint til stuðningsmanna Miðflokksins. Kannski hafa þeir þá verið eitthvað allt annað en það sem íslenskt flokkakerfi fangar. Skilgreining mín byggðist ekki á flokksskírteinum þeirra heldur á orðum og gerðum. Er það umdeilanlegri ályktun en basl ritstjórans við að úthluta lýðskrums-merkimiðum á alla þá sem eru ósammála honum, svo að vitnað til bæði nýlegra og eldri skrifa? Kjarnamenn eru ófeimnir við að skilgreina menn á hinu pólitíska litrófi en kveinka sér undan ef þeir þurfa sjálfir að þola ámóta umsagnir um pólitískar skoðanir. Verða þeir þó seint sakaðir um að vera skoðanalausir menn og áhugalausir um stjórnmál. 

Ég fæ ekki betur séð en að í texta sínum staðfesti ritstjórinn þau orð mín að þeir sem komu að stofnun Kjarnans séu „vinstrisinnaðir einstaklingar úr fjölmiðlum, stjórnmálum og viðskiptalífi.“ Enda kemur skýrt fram í greininni — og er þungamiðja umfjöllunar minnar — að stuttu eftir stofnun komu að miðlinum fjárfestar sem voru framarlega í stjórnmálum og í æðstu trúnaðarstörfum innan Samfylkingarinnar. Það hvort þeir voru þar frá upphafi eða komu snemma inn í starfsemi félagsins skiptir í raun ekki öllu. Allt verður þetta að skoðast í samhengi og því endurbirti ég hér hluta úr umfjöllun minni í upphaflegu greinni í Þjóðmálum

„Yfirlýsingar stofnenda Kjarnans voru hástemmdar í byrjun. Í einni auglýsingu vefritsins er haft eftir blaðamanni: „[V]ið eigum Kjarnann, engir fjárfestar, engin hagsmunaöfl, ekkert rugl.“

Ekki leið þó á löngu uns útgáfufélag Kjarnans hafði gefið út nýtt hlutafé og fjárfestar hófu að birtast í bakgrunninum og höfðu fljótt eignast á milli 30% og 40% í miðlinum á móti stofnendum. Í hluthafahópinn bættust meðal annarra Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, og Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi varaformaður flokksins. Þar með höfðu allar fjórar staðhæfingarnar í auglýsingunni fokið út í veður og vind. Miðillinn var ekki í eigu starfsmanna, með fjárfesta og augljós hagsmunatengsl.“

Undirritaður er hvorki fyrsti né síðasti maðurinn til að tengja þannig Kjarnann og starfsmenn hans við skoðanir vinstra megin við miðju. Um hvað er þá verið að deila hér? Pólitískar skoðanir stofnenda miðilsins? Kjarnamenn hika ekki við að skilgreina og afmarka pólitískt leiðarhnoð annara en virðast ekki þola það sjálfir að vera skilgreindir. Ég tel að ég hafi fulla heimild til þess að draga eigin ályktanir og skilgreina þá út frá þeirra skrifum en sé það rangt athugað í einhverjum tilvikum eru hæg heimatökin að bera af sér skoðanir. Það hefur enginn gert. Í skrifum mínum segir hvergi að starfsmenn á ritstjórn Kjarnans séu skráðir í stjórnmálaflokka eða hafi sóst þar eftir ábyrgðarstörfum. Kjarnamenn kjósa samt að „leiðrétta“ það sem aldrei var sagt og draga svo heiðarleika í málflutningi annarra í efa!

Í kæru sinni til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands taldi ritstjórinn að tilitssemisregla siðareglna hafi verið brotin í umfjöllun um þennan lið málsins. Það hlýtur að verða að teljast einhverskonar spaug af hálfu hans.

2. Í grein Sigurðar Más segir: „Lengst af hefur fjölmiðillinn orðið að treysta á fórnfýsi eigenda sinna, sem hafa hlaupið undir bagga, ýmist með lánum eða auknu hlutafé, en eins hafa starfsmenn í einhverjum tilvikum þegið hlutabréf, sem við þessar aðstæður eru verðlaus.“ 

Enginn starfsmaður Kjarnans hefur nokkru sinni þegið hlutabréf frá félaginu. Engin bréf hafa nokkru sinni skipt um hendur nema að greitt hafi verið fyrir. Virði hvers hlutar í síðustu gerðu viðskiptum kemur fram í gögnum sem skilað hefur verið inn til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra líkt og lög gera ráð fyrir. Fullyrðing Sigurðar Más er því röng og hann hefði getað komist hjá því að setja fram þá röngu tilkynningu með því að verða sér úti um gögn frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, sem eru opinber.

Svar:

Nú hefur verið upplýst að Kjarninn hefur verið rekin með tapi frá upphafi ef undanskilið er upphafsárið, eins og rakið var í grein minni. Vefmiðillinn var meira að segja rekinn með tapi á síðasta ári þó að ritstjóri hans hefði haldið öðru fram í svargrein sinni 25. apríl síðastliðin (Þórður Snær Júlíusson, „Hvað vakir fyrir Sigurði Má Jónssyni?“ kjarninn.is, 25. apríl 2019).

Í grein minn var ég einfaldlega að benda á hve brösuglega rekstur Kjarnans hefur gengið og þá staðreynd að hann hefur ekki verið sjálfbær í sex ára sögu sinni. Aftur á móti eru aðilar sem engu að síður telja rétt (eða sig hafa hagsmuni af því) að halda honum gangandi. Ekki er hægt að komast að annarri niðurstöðu en að rekstrarafkoma Kjarnans hafi valdið aðstandendum hans vonbrigðum, því að fáir fjárfesta í þeim tilgangi að glata fjármunum sínum nema annað búi að baki. Þegar lánum, sem félagið hefur fengið er breytt í hlutafé, er það ákveðin tegund endurfjármögnunar. Við þann gjörning þynnist hlutafé annarra út og eftir situr að stofnendur Kjarnans eiga sífellt minni hlut í félaginu. Væntanlega er það hlutverk fjárfesta að leggja félaginu til rekstrarfé, ef þess þyrfti ekki með gætu starfsmenn væntanlega rekið það endalaust. Varla er verið að halda því fram að starfsfólk á ritstjórn Kjarnans fjármagni rekstur hans? Hvernig greiðsla kemur til vegna hlutafjáraukningar er ekki aðalatriði, hluthafar þynna sig út, starfsmenn fá vinnuframlag metið til hlutafjár og svo framvegis. Þetta svar er augljós tilraun til að afvegaleiða umræðuna.

3. Í grein Sigurðar Más segir: „Í seinni tíð hefur miðillinn orðið að skera niður starfsemi sína og flokkast hann nú undir það að vera eins konar bloggsíða sem birtir hugleiðingar Þórðar Snæs [ritstjóra Kjarnans] og treystir mikið á endurbirtingar frétta úr öðrum fjölmiðlum“.

Fullyrðing Sigurðar Más er röng og ef hann hefði vandað upplýsingaöflun sína þá hefði hann getað komist hjá henni. Á fyrstu 17 vikum ársins 2019 birtust samtals tíu skoðanagreinar eftir ritstjóra Kjarnans á vef hans en önnur efni sem þar birtust voru yfir eitt þúsund. Skoðanaefni ritstjórans er því vel undir eitt prósent af birtu efni á vef Kjarnans. Nær allt það efni er frumunnið, þótt Kjarninn sannarlega segi frá völdum fréttum sem birtast í öðrum miðlum og ritstjórn hans telur að eigi erindi við lesendur hans, sérstaklega þegar um stór mál er að ræða sem Kjarninn hefur sjálfur fjallað umtalsvert um í frumunnum fréttum og fréttaskýringum. 

Svar:

Þessi athugasemd mín var ekki gripin úr tómarúmi. Orðrétt var vitnað til ábendinga og umkvartana annara fjölmiðlamanna um endurnýtingu efnis þeirra á Kjarnanum. Orðrétt sagði fjölmiðlakona við mig síðasta vetur: „Það er ekki mikið að gerast þarna, en svo skrifar Doddi leiðara og hann er kostaður út á Facebook og það býr til traffík. Mér sýnist þeir lifa á þessu.“ Miðill með eins fámenna ritstjórn og Kjarninn á bæði góða og vonda daga. Það væri sjálfsagt verðugt að greina hann nánar en orð mín byggðu á umræðu og skoðunum mínum en ekki rannsóknum. Með 34 ára reynslu af fjölmiðlum treysti ég mér alveg til að greina þokkalega hvað er í gangi á ekki stærri miðli en Kjarnanum.

4. Í grein Sigurðar Más segir: „Afskriftir og endurfjármögnun hefur nokkrum sinnum verið endurtekin, en nú má heita að starfsemi miðilsins sé í lágmarki.“ 

Fullyrðing Sigurðar Más er röng. Engar afskriftir, í þeim skilningi að skuldir hafi verið niðurfærðar án endurgjalds, hafa átt sér stað í rekstri Kjarnans frá því að hann var stofnaður. Í hugtakinu endurfjármögnun felst að taka nýtt lán til að greiða gamalt. Slíkt hefur aldrei átt sér stað í sögu Kjarnans. Einu lánin sem hann hefur tekið eru yfirdráttur sem er ekki ádreginn, og er með persónulegri ábyrgð, og hluthafalán sem síðar var breytt í nýtt hlutafé. Engin endurfjármögnun hefur átt sér stað og fullyrðingar um slíkt því rangar.

Hægt er að nálgast upplýsingar um slíkt í gögnum sem skilað hefur verið inn til fyrirtækjaskráar ríkisskattstjóra og í birtum ársreikningum. Auk þess er rangt að starfsemi miðilsins sé í lágmarki. Velta Kjarnans hefur þvert á móti aldrei verið meiri (um 25 prósent vöxtur milli 2017 og 2018) og kostnaður vegna framleiðslu á ritstjórnarefni, þ.e. launagreiðslur til fastráðinna starfsmanna og verktaka, hefur aldrei verið hærri. Hægt er að nálgast lista yfir eigendur Kjarnans á vef Fjölmiðlanefndar.

Svar:

Það hvernig Magnús kýs að skilja orð mín um „afskriftir og endurfjármögnun“ er auðvitað ekkert annað en orðhengilsháttur. Af samhengi greinar minnar er augljóst öllum að nýtt hlutafé í fyrirtæki, sem tapar í rekstri og á í fjárhagsörðugleikum, er hin eina raunverulega endurfjármögnun. Kjarninn hefur fengið inn nýtt hlutafé. Í taprekstri bera hluthafar skerðan hlut. Hvernig er annars hægt að reka starfsemi með tapi árum saman án þess að endurfjármagna reksturinn?

Magnús gefur sér raunar að í hugtakinu endurfjármögnun felist einvörðungu að taka nýtt lán til að greiða gamalt – og segir að síkt hafi aldrei átt sér stað í sögu Kjarnans. Breyting á lánum hefur svo sem verið nefnt endurfjármögnun en hún er þó ekki meiri en svo að skuldastaðan kann að vera sú sama og áður, ef ekki hærri. Þá nefnir Magnús til sögunnar hluthafalán (!) og að því hafi verið breytt í hlutafé. Auðvitað veit Magnús að á láni og hlutafé er mikill munur. Með þessari breytingu losnaði Kjarninn við að greiða lánið í taprekstrinum, færði það úr bókum sínum og áhættan fór öll yfir á viðkomandi hluthafa! Þá er eftirtektarvert að hluthafalánið virðist ekki af orðum Magnúsar að dæma hafa verið svonefnt víkjandi lán, heldur hefðbundið lán frá hluthafa. Sá hefur væntanlega talið miklu hagkvæmara, í taprekstri miðilsins, að breyta láni í hlutafé en að fá það greitt til baka í beinhörðum peningum eins og venja er.

5. Í grein Sigurðar Más segir: „Af upphaflegu ritstjórninni eru aðeins Þórður Snær Júlíusson og Magnús Halldórsson eftir, sá síðarnefndi raunar mjög laustengdur, býr erlendis og sinnir fyrst og fremst vikuritinu Vísbendingu.“

Fullyrðing Sigurðar Más um framlag og starfshlutfall mitt er röng og ef hann hefði vandað upplýsingaöflun sína þá hefði hann getað komist hjá henni. Magnús Halldórsson hefur verið í 100 prósent starfi á Kjarnanum frá því að hann var stofnaður árið 2013. 

Efni eftir hann birtist nær alla daga á miðlinum, merkt blaðamanninum. Auk þess ritstýrir hann útgáfu Vísbendingar, rits sem gefið er út af Kjarnanum. Sigurður Már hefði getað komist hjá því að setja fram þessa röngu fullyrðingu með því að fara inn á vef Kjarnans og skoða það efni sem þar birtist.

Svar: 

Af upphaflegu ritstjórninni eru aðeins Þórður Snær og Magnús enn við störf á Kjarnanum. Hvað er verið að leiðrétta? Já, og Magnús býr erlendis og ritstýrir Vísbendingu! Magnús gefur sér að orðið „laustengdur“ merki að hann sé ekki í 100% starfi. Ég segi ekkert um það. Laustengdur á ritstjórn merkir bara það sem það merkir og Magnús á ekki að skilja það öðruvísi.

Magnús býr erlendis og er eðlilega ekki með fasta viðveru á ritstjórn Kjarnans með öðrum blaðamönnum. Hann er vægast sagt „laus við“ á ritstjórninni. Það segir sig hins vegar sjálft að hann er í fjarskiptasambandi við ritstjórnina og vinnur efni sitt erlendis frá. Að sjálfsögðu veit Magnús líka að með fjarskiptabyltingunni og auknum sveigjanleika í viðveru starfsmanna er vaxandi umræða í atvinnulífinu að tengja vinnuframlag við afköst frekar en klukkustundir við skrifborðið. Magnús getur þess vegna unnið tólf tíma á dag en verið laustengdur við ritstjórnina á sama tíma.

Í greininni vakti ég athygli á að nokkrir starfsmenn Kjarnans — og í flestum tilfellum hluthafar — hefðu farið til starfa annars staðar en haldið eignarhlut sínum í miðlinum. Mér fannst mér það sérstaklega umdeilanlegt þegar í hlut áttu starfsmenn Ríkisútvarpsins og fæ ég reyndar ekki skilið ennþá hvernig það gengur upp í ljósi hlutleysiskröfu þess, að starfsmenn RÚV eigi í miðlum sem keppa meðal annars við RÚV! Segir það ekki nokkra sögu að þessir hluthafar eru horfnir á braut af ritstjórn Kjarnans? Varla færu þeir frá velsældarbúi miðilsins ef þar væri allt í blóma og nóg að hafa upp úr krafsinu.

6. Í grein Sigurðar Más segir: „… meginvandi Kjarnans hefur alla tíð verið að lesturinn hefur látið á sér standa[…] Samræmdar vefmælingar bentu til þess að honum hefði aldrei auðnast að ná út fyrir tiltölulega lítinn kjarna lesenda (svo segja má að miðillinn hafi borið nafn með rentu). Nú er svo komið að Kjarninn nær hvorki á blað í vefmælingum Gallups né Modernus.“

Fullyrðing Sigurðar Más um mælingar á lestri Kjarnans er röng. Hið rétta er að Kjarninn hefur ekki tekið þátt í vefmælingum þeirra fyrirtækja sem framkvæma slíka frá því í viku 10 2018. Í mælingum Gallup, sem eru ráðandi á vefmælingarmarkaði, er auk þess birtur tæmandi listi yfir alla þá vefmiðla sem greiða fyrirtækinu fyrir mælingu á lestri sínum. Það er þar af leiðandi ómögulegt að komast ekki „á blað“. Þótt miðill sé með einn vikulegan lesanda þá kemst hann samt á blað. Fullyrðingar Sigurðar Más um lítinn lestur Kjarnans fela því í sér rangfærslu byggða á rangri ályktun, sem byggði á rangfærslu.

Sigurður Már hefði getað komist hjá því að setja fram þessa röngu fullyrðingu með því að skoða mælingar aftur í tímann, og sjá að Kjarninn var í mælingum árum saman, en hefur ekki verið þátttakandi í slíkri frá því í viku 10 2018. Auk þess hefði Sigurður Már getað kynnt sér forsendur birtinga á vefmælingum, og komist að því að allir sem greiða fyrir vefmælingu eru birtir á listum Gallup.

Svar:

Tiltækar heimildir um lestur á Kjarnanum, áður en miðillinn dró sig út úr samræmdum mælingum, benda eindregið til þess að lesturinn hafi verið mjög stöðugur en aldrei komist út fyrir lítinn hóp lesenda, eins og auðvelt er að kynna sér á gallup.is og modernus.is. Líkt og bent var á í fjölmiðlarýni Viðskiptablaðsins (19. júlí 2019) vegna þessa hnútukasts voru meðalnotendur Kjarnans  á viku í kringum 12.000, á svipuðu róli og vb.is, en verulega færri en stundin.is og menn.is, sem iðulega voru í næstu sætum fyrir ofan. Í ljósi þess að Kjarninn gefur sig út fyrir að vera almennur fréttamiðil er sú ályktun alls ekki óvarleg. 

Hártoganir um gildi þeirra orða að Kjarninn nái hvorki á blað hjá Modernus eða Gallup eru broslegar. Kjarninn hefur bæði verið í mælingum hjá Modernus og Gallup en kaus að draga sig út úr þeim. Hann er því — einn íslenskra miðla — ekki þar á blaði. Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir nýlegar opinberar eða samræmdar upplýsingar um lestur á Kjarnanum (en miðillinn birtir ekki eigin mælingar) segja heimildarmenn á öðrum fjölmiðlum og í auglýsingageiranum að engin merki séu um lesturinn hafi aukist.

Þessi umkvörtunarliður hefur reyndar verið tónaður niður frá því erindi sem sent var á siðanefnd Blaðamannafélags Íslands. Því er ekki hægt annað en að benda á hve fullyrðingar þeirra Þórðar Snæs og Magnúsar um brot á siðareglum voru fráleitar. Kjarnanum er engin vanvirða gerð með gagnrýni á ritstjórnarstefnu hans, ályktunum um útbreiðslu hans og rekstur, svo varði við 1. eða 3. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands, eins og þeir töldu í kæru sinni þangað. 

Enn síður fólst í skrifunum „lygi um árangur“ Kjarnans. Lygi eru vísvitandi rangfærslur. Miðillinn hefur ekki einu sinni sýnt fram á að í grein minni hafi eitthvað verið ranghermt um lesturinn. Hvað þá að það hafi verið gert gegn betri vitund. Þar var stuðst við opinberar upplýsingar og frásagnir heimildarmanna, en um meintan árangur Kjarnans er allt á huldu, því að forsvarsmenn miðilsins vilja ekki að aðrir mæli lesturinn á samræmdan hátt og birta ekki eigin mælingar.

Steininn tekur þó úr með umkvörtunum um að greinin hafi valdið starfsmönnum og stjórnendum Kjarnans „óþarfa sársauka“ í bága við 3. gr. siðareglna. Það bendir til þess að kærandi átti sig ekki á gildi greinarinnar fyrir fólk í sárum og sérstakan tilgang hennar. Eða við hvað er átt með „vandasömum málum“?

Sagt er að helsta hlutverk fjölmiðla sé að veita valdhöfum aðhald en þeir verða sjálfir einnig að þola aðhald. Kunni þeir gagnrýninni illa eru fjölmiðlar í einstakri aðstöðu til þess að svara fyrir sig. Ritstjóri Kjarnans gerði það líka í löngu máli, þó að hann leiddi reyndar fjölmargt hjá sér og svaraði öðru sem ekki hafði verið vakið máls á, eins og rakið er að ofan. Hann lét sér það ekki nægja og sendi inn kærur til siðanefndar á svo einstaklega hæpnum forsendum að erfitt er að trúa því að markmiðið hafi verið annað en að þvæla málið og eyða tíma mínum og siðanefndarmanna. Með kærunni er rofin áratugalöng hefð um að fjölmiðlar og fjölmiðlafólk kæri ágreiningsefni og ádeilu ekki til siðanefndar, heldur jafni þau á eigin vettvangi. Mál þetta átti því aldrei erindi á borð siðanefndar.

7. Í grein Sigurðar Más segir: „Leiða má að því líkur að Kjarninn hafi að einhverju leyti verið fjármagnaður með fjármunum sem eiga uppruna sinn í skattaskjólum.“

Aðdróttun Sigurðar Más um fjármögnun Kjarnans er röng. Allir eigendur Kjarnans eru íslensk félög eða einstaklingar. Sigurður Már hefði getað komist hjá því að setja fram þessa röngu aðdróttun með því að nálgast upplýsingar um hlutafjáraukningar Kjarnans í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Svar:

Hér sleppir ritstjórinn nánast allri sögu málsins. Í grein minni er rakið fjármálavafstur þeirra Vilhjálms Þorsteinssonar og Hjálmars Gíslasonar, tveggja af stærstu hluthöfum Kjarnans en þeir hafa verið með fjármuni í aflandsfélögum og skattaskjólum. Um það er ekki deilt. Hvernig þeir Magnús og Þórður Snær fá það hins vegar út, að af þeim fjármunum sem komi til Kjarnans hafi ekki króna áður farið um slíka reikninga er án útskýringa af þeirra hálfu. Hafa þeir fengið einhverja vissu fyrir því? Er gengið sérstaklega úr skugga um að eigendur Kjarnans taki ekki peninga af reikningum sínum í aflandsfélögum eða skattaskjólum þegar kemur að fjármögnun félagsins? Ef það þá skiptir máli úr hvorum vasanum peningurinn kemur.

Við þetta má svo bæta að starfsemi Kjarnans fer fram í húsnæði í eigu stærsta hluthafa miðilsins, Vilhjálms Þorsteinssonar, fyrrum gjaldkera Samfylkingarinnar. Hann er því væntanlega leigusali Kjarnans. Þar sem um opið rými er að ræða má ætla að starfsemi miðilsins fari fram í starfsaðstöðu Vilhjálms. Ekkert er vitað hvort húsnæðið hafi verið keypt með fjármunum úr aflandsfélögum eða ekki, en eins og kunnugt er var Vilhjálmur Þorsteinsson einn þeirra sem voru nefndir í Panama-skjölunum margfrægu.

8. Í grein Sigurðar Más segir: „Tengsl Kjarnans við Ríkisútvarpið hafa verið náin. Ægir Þór Eysteinsson var þannig meðal stofnenda Kjarnans (9,44% eignarhlutur), en hann hafði áður verið fréttamaður hjá Ríkissjónvarpinu. […]Ægir var þó áfram í eigendahópi Kjarnans, þar sem hlutur hans í Kjarnanum var illseljanlegur. Að lokum leysti félagið sjálft til sín hlut Ægis Þórs til að komast hjá gagnrýni, en aðrir fjölmiðlar höfðu gert þetta að umtalsefni, meðal annars Viðskiptablaðið.“

Framsetningu Sigurðar Más um sölu á hlut eins stofnfélaga Kjarnans er röng. Hlutur Ægis Þórs Eysteinssonar í Kjarnanum var keyptur af félaginu sjálfu og fyrir hann var greitt með íslenskum krónum. Hluturinn var aldrei leystur til félagsins. Sigurður Már hefði getað komist hjá því að setja fram þessa röngu fullyrðingu með því að nálgast upplýsingar um viðskipti með hlutafé Kjarnans í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Eða að leita eftir upplýsingum um viðskiptin hjá þeim sem áttu þau.

Svar:

Hér sést enn eitt dæmið um furðulegan orðhengilshátt. Í grein minni sagði að Ægir Þór hefði hafið störf hjá RÚV áður en hann hafði selt hlut sinn í Kjarnanum. Það er rétt og það staðfestir ritstjórinn með athugasemd sinni. Ég sagði að miðillinn hefði sjálfur leyst til sín hlutinn þegar hann seldist ekki en hann segir að Kjarninn hafði keypt hlutinn þegar hann seldist ekki! Hver er munurinn? Og af hverju sjá þeir ástæðu til þess að taka fram að hluturinn var greiddur með íslenskum krónum?

9. Í grein Sigurðar Más segir: „Þórður Snær Júlíusson, eða Doddi eins og hann er jafnan kallaður, hefur mikil tengsl við vinstrimenn. Alþjóð varð vitni að samskiptum hans við Elías Jón Guðjónsson, þá aðstoðarmann Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra og fyrrverandi samstarfsmann Þórðar á blaðinu 24 stundum, þegar fyrir tilviljun komst upp um að þeir höfðu lagt á ráðin um spunafrétt undir slagorðinu: „Dodda langar að skúbba.“

Fullyrðing Sigurðar Más um að Þórður Snær hafi lagt á ráðin um spunafrétt með pólitískum ráðgjafa er röng. Ef Sigurður Már hefði lesið þá frétt sem Þórður Snær skrifaði um það mál sem var undir (sjá hér) þá myndi hann sjá að hún er ekki með neinum hætti í samræmi við þann ætlaða spuna sem ráðgjafinn ræddi um í tölvupósti sínum. Þvert á móti er hún mun ítarlegri, enda byggð á öðrum upplýs­ingum en hans. Hægt er sjá tölvupósta aðstoðarmannsins hér. Þá virðist Sigurður Már haldinn þeirri ranghugmynd að umræddur póstur hafi verið sendur á Þórð Snæ, sem er ekki rétt. Auk þess er vert að benda á að Þórður Snær hafði engin mannaforráð á 24 stundum og gat því ekki ráðið eða rekið nokkurn mann. Samsetning stafsmannahópsins var á forræði þáverandi ritstjóra miðilsins.

Svar:

Telji ritstjóri Kjarnans að þessi frásögn sé röng er hann líklega mörgum árum of seinn að leiðrétta hana. Til hennar hefur verið vitnað oft áður í fjölmiðlum og undirritaður ætlar sér engan höfundarrétt á henni. (Nokkur dæmi um umfjöllun: „Tölvupóstur úr ráðuneyti afhjúpar spunavél ríkisstjórnar,“ visir.is, 27. júlí 2010. Sjá einnig: „Government Spin FAIL,“ grapevine.is, 27. júlí 2010 og Brynjar Níelsson: „Kaupthinking: Dodda langar að skúbba,“ viljinn.is, 10. desember 2018.) Eins og vanalega er verið að mótmæla einhverju sem er ekki í skrifum mínum. Þar var því ekki haldið fram að umræddur tölvupóstur hefði verið sendur á ritstjórann. Þvert á móti komst upp um strákinn Tuma af því að hann var sendur á rangt netfang. 

Í kæru ritstjórans til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands var gerð tilraun til að færa þessi ummæli undir einhver drengskaparákvæði siðareglna. Það er æði langsótt og reyndar svo að engin skilur hvert ritstjórinn er að fara.

10. Í grein Sigurðar Más segir: „Þórður Snær hefur undanfarið tekið að sér störf og verkefni víða. Hann er stundakennari við Háskóla Íslands, þar sem hann kennir fjölmiðlafræði (blaðamennsku), og vakti athygli þar með því að nota þann vettvang til að efna til kæru til siðanefndar gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni prófessor.“

Fullyrðing Sigurðar Más um að Þórður Snær hafi notað sér vettvang til að efna til kæru er röng. Hið rétta er að nokkru eftir að Þórður Snær hóf störf sem stundakennari við Háskóla Íslands (í október 2015) þá endurtók umræddur prófessor rangar og meiðandi fullyrðingar um fjármögnun Kjarnans á opinberum vettvangi. Hann neitaði að draga þær til baka og í kjölfarið kærði Þórður Snær prófessorinn til siðanefndar Háskóla Íslands, í janúar 2017, sem komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði brotið siðareglur, með úrskurði í mars 2018.

Ef Sigurður Már hefði lesið þann úrskurð, sem er aðgengilegur á internetinu, eða fréttir sem skrifaðar voru um hann, og eru einnig aðgengilegar á internetinu, þá hefði hann getað komist hjá því að setja fram umrædda ranga fullyrðingu. Hann hefði einnig getað nálgast upplýsingar um hvenær Þórður Snær hóf störf hjá Háskóla Íslands með því að setja sig í samband við skólann.

Svar:

Þessi athugasemd ritstjórans er óskiljanleg. Auðvitað notaði Þórður Snær vettvanginn (Háskóla Íslands) til að kæra Hannes Hólmsteinn, þarf eitthvað um það að deila? Það kemur málinu ekki við hvenær hann hóf kennslu. Það er því ekkert rangt í texta mínum.

11. Í grein Sigurðar Más segir: „Í desember 2018 var upplýst að Ágúst Ólafur hefði sætt áminningu trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar fyrir að hafa brotið gegn Báru Huld Beck, blaðamanni Kjarnans, með því reyna endurtekið og í óþökk Báru að kyssa hana. Þetta kynferðisáreiti átti sér stað á starfsstöð Kjarnans eftir lokun skemmtistaða nóttina 20. júní 2018. Kjarninn fjallaði ekki um málið fyrr en það var upplýst á öðrum vettvangi og litlar fréttir hafa verið fluttar af viðbrögðum stjórnenda Kjarnans við atvikinu.

Tilkynningar þeirra Ágústs Ólafs og Báru Huldar voru látnar nægja í umfjöllun um málið. Athygli vekur að Bára Huld hélt áfram að birta fréttir er vörðuðu stjórnmálavafstur Ágústs Ólafs í Kjarnanum, eftir atvikið og fram að því að hann fór í leyfi. Augljóst var þó að Bára Huld var ekki ánægð með hvernig tekið hafði verið á máli hennar.“

Ýmsar fullyrðingar Sigurðar Más í þessum hluta eru rangar. Afstaða Kjarnans er þessi: Það er alltaf þolenda að ákveða í hvaða farveg brot gegn þeim fara. Fyrirtæki, eða stjórnendur fyrirtækis, geta aldrei tekið þá ákvörðun fyrir þolendur sem hjá þeim starfa. Það sem stjórnendur fyrirtækja þolenda sem verða fyrir áreitni eða annars konar ofbeldi geta og eiga að gera er hins vegar að styðja þá þolendur að öllu leyti.

Það hefur Kjarninn gert í einu og öllu. Hér er til að mynda yfirlýsing stjórnar og stjórnenda Kjarnans vegna málsins sem birt var eftir að þolandinn ákvað, sjálf með okkarstuðningi, að svara yfirlýsingu gerandans í málinu opinberlega. Þar segir m.a. „Hegðun hans var niðrandi, óboðleg og hafði víðtækar afleiðingar fyrir þann sem varð fyrir henni. Afleiðingar sem eru bæði persónulegar og faglegar. Stjórn og stjórnendur Kjarnans gerðu þolanda ljóst frá upphafi að hann réði ferðinni í þessu máli og til hvaða aðgerða hann taldi réttast að grípa.“

Fullyrðing Sigurðar Más um að „litlar fréttir hafa verið fluttar af viðbrögðum stjórnenda Kjarnans við atvikinu“ er því augljóslega röng og hann hefði getað komist hjá því að setja hana fram með því að tengjast internetinu og nýta sér leitarvél.

Fullyrðing Sigurður Más um að þolandinn í málinu sé ekki ánægð með hvernig tekið hafi verið á máli hennar innan Kjarnans er einnig röng. Sigurður Már spurði hana ekki hvort svo væri áður en að hann fór að gera henni upp skoðanir. Samstarfsmenn, sem starfa með þolanda á hverjum degi, geta hins vegar staðfest að hún er ekki óánægð með hvernig tekið var á máli hennar innan Kjarnans.

Fullyrðing Sigurðar Más um að Bára Huld hafi haldið áfram að birta fréttir er „vörðuðu stjórnmálavafstur Ágústs Ólafs í Kjarnanum, eftir atvikið og fram að því að hann fór í leyfi“ er röng og á sér engan stað í raunveruleikanum. Bára Huld skrifaði ekki eina frétt um téðan Ágúst Ólaf eftir að umrætt atvik átti sér stað.

 Svar:

Í umfjöllun minni var ekkert sagt sem getur rýrt eða dregið úr frásögn Báru Huldu Beck af því sem henti hana á skrifstofu Kjarnans. Hún hefur aldrei haft samband við mig vegna skrifanna og ég get upplýst að ég hefði þegar í stað beðist afsökunar og leiðrétt frásögnina ef ég hefði farið rangt með og hún hefði tjáð mér sjálf að hafa upplifað skrif mín neikvæð í hennar garð. Engu slíku er til að dreifa. Þess í stað fer ritstjórinn fram með útúrsnúning og orðhengilshátt sem fyrr.

Í grein minni leyfði ég mér að fara yfir umfjöllun um málið og benda á um það var ekki fjallað á meðan það var í vinnslu innan Samfylkingarinnar. Margir mánuðir liðu frá því atvikið átti sér stað þangað til það var opinberað. Um það verður varla deilt, ritstjórn Kjarnans kaus að hafa þann hátt á. Ég tel að ekki muni allir fjölmiðlamenn telja slíkt eðlilegt — að þegar brotið er á starfsmanni fjölmiðils að þá sé málið sett í úrskurð hjá samflokksmönnum gerandans! Að viðkvæmt mál sem kemur upp á ritstjórnarskrifstofum Kjarnans, þar sem eiga í hlut starfsmaður og fyrrverandi hluthafi, sé látið siðanefnd Samfylkingarinnar eftir til umfjöllunar.

Í þessu ferli voru engar fréttir fluttar af málinu. Loksins þegar málið kom til umfjöllunar, meðal annars eftir yfirlýsingu gerandans, gerði Bára alvarlega athugasemd sem flestum er kunnug. (Bára Huld Beck: „Svar við yfirlýsingu Ágústs Ólafs Ágústssonar,“ kjarninn.is, 11. desember 2018). Varla er hægt að lesa út úr yfirlýsingunni að hún sé ánægð með afgreiðslu málsins þó að athugasemdir hafi fyrst og fremst beinst að þessum fyrrverandi eiganda Kjarnans? Það var mat mitt að lítið væri fjallað um málið af hálfu Kjarnans og annarra fjölmiðla, sérstaklega ef borið er saman við Klausturmálið svokallaða sem kom upp um líkt leyti og hefur verið Kjarnamönnum sérlega hugleikið. Það getur verið að ritstjórn miðilsins hafi þótt óþægilegt að fjalla um málið og á því má hafa skilning en hún getur ekki vikið sér undan umræðu annarra um málið.

Umfjöllun mín var eðlilegt innlegg í umræðu er varðar samskipti stjórnmálamanna og eignarhald þeirra á fjölmiðlum. Fjölmiðill eins og Kjarninn getur ekki haft sjálfdæmi um hvernig um slík málefni er fjallað sérstaklega þegar horft er til þess að hann sjálfur hefur kosið að gera sig gildandi í umræðu um álitaefni af líku tagi.  

Höfundur er blaðamaður.