Jacques Chirac: hinn ósannfærði Evrópusinni

Jacques Chirac, fyrrverandi forseti Frakklands, lést í september á þessu ári, 86 ára að aldri (Mynd: Patrick Kovarik, AP)

Jacques Chirac, fyrrverandi Frakklandsforseti, sem lést seint í september, var einn allmargra franskra stjórnmálamanna á síðasta þriðjungi 20. aldarinnar sem kenndu sig við arfleifð Charles de Gaulle. Þrátt fyrir að deila þannig andstöðu de Gaulle við þá Evrópu sérfræðingaræðis og yfirþjóðlegrar ákvarðanatöku sem þá var í smíðum eftir teikningum Schumans og Monnets, ákvað Chirac árið 1992 að beita sér fyrir samþykkt Maastricht-samningsins, sem fól í sér stórt skref í einmitt þá átt. Eftir að hafa tekið við forsetaembættinu þremur árum síðar tók hann hins vegar aftur upp fyrri stefnu, sem varð meðal annars til þess að Evrópa tók aldrei þau skref sem nauðsynleg hefðu verið til að Maastricht gæti gengið upp. Ef til vill gerði Chirac sér aldrei fyllilega grein fyrir því hvaða fórnir samningurinn fæli raunverulega í sér. Kaldhæðnin í ferli Chiracs er því sú að þær ákvarðanir sem hann tók á stjórnmálaferlinum skuli að lokum hafa leitt til einmitt þeirrar útgáfu Evrópu sem de Gaulle hefði síst viljað.

Eftir afsögn sína árið 1976 sem fyrsti forsætisráðherra Valérys Giscard d‘Estaing forseta stofnaði Chirac eigin flokk á hægri vængnum til höfuðs Giscard og markaði sér sérstöðu með andstöðu við Evrópustefnu forsetans sitjandi. Í frægu ávarpi í aðdraganda fyrstu beinu kosninganna til Evrópuþingsins árið 1979 sakaði hann Giscard um að vilja með stefnu sinni leysa upp Frakkland í eins konar hlutlausu fríverslunarsvæði þar sem bandarískir hagsmunir yrðu óhjákvæmilega allsráðandi:

„Við viljum ekki síður en aðrir byggja Evrópu. En evrópska Evrópu, þar sem Frakkland getur ráðið eigin örlögum sem stórþjóð. Við segjum nei við undirgefnu Frakklandi í einhvers konar heimsveldi verslunarmanna, nei við Frakklandi sem segir af sér í dag aðeins til að þurrkast út á morgun.“

Ákvörðun Chiracs um að bjóða sig fram gegn Giscard í forsetakosningunum tveimur árum síðar og meintur leynilegur stuðningur Chiracs við François Mitterrand, frambjóðanda sósíalista, í annarri umferð kosninganna kostaði Giscard annað kjörtímabil og leiddi til fyrstu vinstristjórnar í sögu fimmta lýðveldisins.

Líklega breytti tap Giscards þó litlu á þeirri vegferð sem leiddi til Maastricht. Giscard var vissulega mjög Evrópusinnaður og hafði, ásamt Helmut Schmidt Þýskalandskanslara, verið einn helsti arkitekt þeirrar fastgengisstefnu sem átti eftir að finna sinn rökrétta endapunkt í efnahags- og myntbandalaginu. Áframhaldandi forsetatíð hans hefði eflaust leitt til svipaðrar atburðarásar og þeirrar sem varð raunin. En eftir fyrirsjáanlegt skipbrot efnahagsstefnu sósíalista sannfærðist Mitterrand einnig um að allar leiðir lægju í gegnum Evrópu. Niðurstaðan varð sú að senda Jacques Delors fjármálaráðherra til Brussel til að setja af stað það ferli sem átti eftir að ljúka með undirskrift Maastricht-samningsins í febrúar 1992.

Andstaða við samninginn var mikil meðal hægrimanna og kristallaðist í kringum Philippe Séguin, fyrrverandi ráðherra félagsmála í ríkisstjórn Chiracs 1986-88. Séguin og stuðningsmenn hans töldu að í samningnum fælist stórt skref í átt að evrópsku sambandsríki sem myndi með tíð og tíma þurrka út fullveldi Frakklands. Þessu til stuðnings bentu þeir meðal annars á að samningurinn kvæði á um sameiginlegan evrópskan þegnrétt þótt engin væri evrópsk þjóðin. Með því að gefa ríkisborgurum annarra aðildarríkja sambandsins kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum og kosningum til Evrópuþingsins ryfi samningurinn og hið fornhelga samband milli þegnréttar, kosningaréttar og fullveldis.

Hin pólitíska umræða sem fór fram í Frakklandi um Maastricht-samninginn endurómar enn þann dag í dag. Því er vel við hæfi að grípa niður í magnaða ræðu Séguins á franska þinginu hinn 5. maí 1992, þar sem hann mælti fyrir tillögu sinni um að samningnum yrði vísað frá vegna þess að hann væri ósamrýmanlegur fullveldi þjóðarinnar:

„Það er vissulega kominn tími til að spyrja þjóðina álits á málefnum Evrópu. Því nú 35 árum eftir að Rómarsáttmálinn var gerður, frá einingarlögum Evrópu til reglugerða, frá reglugerðum til tilskipana, og frá tilskipunum til dóma, hefur Evrópusamruninn gengið sinn gang án aðkomu þjóðanna. […]

Í þessu mjög svo pólitíska máli er eina raunverulega umræðan annars vegar milli þeirra sem líta svo á að þjóðin sé ekki annað en einföld skipulagseining sem nú sé orðin óþörf í kapphlaupinu að hnattvæðingunni, sem þeir fagna, og hins vegar þeirra sem eru allt annarrar skoðunar.

Hvað hina síðarnefndu varðar er þjóðin hins vegar fyrirbæri sem á sér bæði tilfinningalega og sálræna vídd. Hún er ávöxtur afreks, afkvæmi dularfullrar umbreytingar sem gerir úr henni eitthvað meira en samfélag, næstum því líkama og sál. Vissulega hafa ekki allar þjóðir sömu hugmyndir um eðli þjóðarinnar: Frakkar hafa sínar eigin, sem eru ólíkar hugmyndum Þjóðverja og Englendinga, en allar þjóðir eru samt keimlíkar og ómögulegt er að koma nokkru varanlegu í verk án þeirra. Sjálft lýðræðið er óhugsandi án þjóðarinnar.

De Gaulle sagði: ‚Hvað mig varðar eru lýðræðið og fullveldið algjörlega samofin.‘ Ekki væri hægt að undirstrika betur þá staðreynd að til þess að lýðræði geti þrifist verður að vera til staðar samfélagsleg tilfinning sem er nægilega sterk til að minnihlutinn sætti sig við vilja meirihlutans! Og það er einmitt tilvist þjóðarinnar sem gerir þetta mögulegt. En þjóðina er ekki hægt að búa til með tilskipunum, ekki frekar en fullveldið!“

Langróttækasti hluti Maastricht-samningsins var þó án efa efnahags- og myntbandalagið. Séguin og stuðningsmenn hans litu svo á að evran væri sú leið sem ætlað væri að ná fram ekki aðeins efnahagslegum heldur einnig pólitískum samruna Evrópu. Það sem meira væri, þegar þessum ráðagerðum hefði einu sinni verið hrundið í framkvæmd yrði ekki aftur snúið. Um þetta hafði Séguin þetta að segja í ræðu sinni og hefur óneitanlega reynst sannspár:

„Þegar Maastricht-samningurinn er genginn í gildi, ekki síst hvað varðar sameiginlegu myntina, og kostnaður við að koma sér út úr honum verður orðinn stjarnfræðilegur, mun gildran hafa lokast og enginn þingmeirihluti mun undir nokkrum kringumstæðum geta endurskoðað það sem gert hefur verið. Þá getum við farið að óttast að þjóðernistilfinningar, sem ekki geta hlotið eðlilega útrás, muni koma upp á yfirborðið og umbreytast í þjóðernishyggju og koma Evrópu eina ferðina enn í mikil vandræði, því ekkert er hættulegra en þjóð sem hefur of lengi verið neitað um fullveldi sitt, sem er sú leið sem hún hefur til að tjá frelsi sitt, það er að segja óskertan rétt sinn til að velja eigin örlög. Maður leikur sér ekki hættulaust að þjóðum og sögu þeirra.“

Ástæður þess að Chirac ákvað að ljá Maastricht stuðning sinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni í september 1992 eru nokkuð á reiki. Að hluta til hefur afstaða hans eflaust endurspeglað þær innbyrðis mótsagnir í afstöðu Gaullismans til Evrópu sem alltaf hafa verið til staðar: annars vegar þá sannfæringu að náin Evrópusamvinna styrkti Frakkland og áhrif þess út á við; og hins vegar hugmyndir um mikilvægi fullveldisins. Þá er líklegt að Chirac, sem metnaðarfullur stjórnmálamaður, hafi reiknað það út að stuðningur við samninginn kæmi honum betur fyrir forsetakosningarnar 1995.

Úr varð að Maastricht-samningurinn var samþykktur með minnsta mun og skipti afstaða Chiracs því sköpum. Þremur árum síðar var hann settur í embætti forseta eftir að hafa sigrað sósíalistann Lionel Jospin í seinni umferð forsetakosninganna.

Tilraunir snemma á forsetatíðinni til að minnka fjárlagahallann eins og Maastrichtskilyrðin gerðu ráð fyrir enduðu hins vegar í mótmælaöldu og var skotið á frest um óákveðinn tíma. Þetta sannfærði Þjóðverja um að Frökkum væri ekki alvara að virða Maastricht-skilyrðin og kröfðust því að Evrópuríkin gerðu eins konar viðauka við Maastricht, hinn svokallaða Stöðugleika- og hagvaxtarsamning, sem samþykktur var á leiðtogafundi sambandsins árið 1997.

Frá því að evran varð til árið 1999 og þar til evrukrísan braust út árið 2010 aðhöfðust evruríkin, að Frakklandi Chiracs meðtöldu, lítið sem ekki neitt til að styrkja hinn efnahagslega og stofnanalega grundvöll evrusvæðisins. Þeim var þó ekki refsað strax, því alþjóðlegir fjármálamarkaðir virtust misskilja eðli hins nýja gjaldmiðils og telja að lánveitingar inn á evrusvæðið bæru jafna áhættu óháð því hvaða ríki ætti í hlut.

En það var ekki spurning um hvort heldur aðeins hvenær illa færi. Með Maastricht skuldbundu aðildarríki evrunnar sig ekki aðeins til að gefa eigin peningastefnu upp á bátinn heldur einnig til að reka aðhaldssama stefnu í ríkisfjármálum. Og þó að engum hefði dottið í hug slíkt fyrirkomulag þegar fyrst var farið að kanna möguleika á sameiginlegri evrópskri mynt urðu opinber fjámál alfarið í höndum hvers aðildarríkis fyrir sig þó að peningastefnan væri sameiginleg. Síðan evran varð til hafa Þjóðverjar einnig bundið kvaðir um jafnvægi í ríkisfjármálum hins opinbera í stjórnarskrá, og kveðið er á um takmarkanir á hallarekstri hins opinbera í evrópska ríkisfjármálasáttmálann. Þessi ofuráhersla á hallalausan rekstur hins opinbera hefur valdið allt of aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum í Evrópu, sem hægt hefur verulega á efnahagsbata í kjölfar kreppunnar og gert skuldsettum ríkjum erfiðara að vinna sig út úr skuldavandanum.

Áhrifin hafa þó verið misjöfn. Þýskaland og sum minni aðildarríkin hafa notið tiltölulega góðs af myntsamstarfinu meðan ríkin sunnar í álfunni hafa almennt farið halloka. Ítalía hefur enn ekki náð sömu landsframleiðslu á mann og fyrir fjármálakreppuna. Maastrichtskilyrðin eru horfin út í veður og vind: opinberar skuldir hafa haldið áfram að hlaðast upp og eru víða langt yfir því sem gert var ráð fyrir. Í tilfelli Grikklands eru þær yfir 180 prósentum; á Ítalíu meira en 130 prósent; og í Frakklandi nálægt 100 prósentum. Þrátt fyrir hátt í áratug á lágum eða neikvæðum vöxtum stendur evrusvæðið nú frammi fyrir nýrri efnahagslægð. Á meðan sitja Þjóðverjar, sem þyrftu að eiga forystu um að slaka á ríkisfjármálunum, á höndum sér og yppa öxlum.

Fjarri því að veita Frökkum aukin áhrif á evrópska peningamálastefnu, sem var af þeirra hálfu eitt meginmarkmiðið með efnahags- og myntbandalaginu, hefur evran því styrkt yfirburðastöðu Þjóðverja í efnahagsmálum álfunnar í sessi.

En að baki þessum pólitísku og efnahagslegu afleiðingum Maastricht býr líka félagslegur veruleiki sem er allt annað en ásættanlegur. Atvinnuleysi og efnahagsleg stöðnun hefur getið af sér samfélög þar sem ungt fólk á í erfiðleikum með að fóta sig í lífinu, finna sér starf við hæfi, stofna fjölskyldu og eignast börn. Og án sífelldrar endurnýjunar getur evrópsk siðmenning ekki annað en misst lífskraftinn og horfið smátt og smátt af sjónarsviðinu.

Vissulega er ekki við Jacques Chirac einan að sakast, en með stuðningi sínum við Maastricht og aðgerðaleysi í embætti á hann óneitanlega sinn þátt í því hvernig komið er. Chirac lét eftirmönnum sínum í embætti eftir Evrópu sem getur hvorki sameinast um nauðsynlegar umbætur né tekið skrefið til baka út úr þeim óleysanlega hnút sem efnahags- og myntbandalagið er komið í. Ef til vill verður einhvern tíma hægt að leiðrétta þau mistök sem gerð voru í Maastricht og byggja annars konar Evrópu á rústum þeirrar sem við búum við í dag. Ljóst er að það verður langt og kostnaðarsamt ferli. Hefði Chirac verið trúr de Gaulle og barist gegn Maastricht er ekki ólíklegt að staðan væri önnur í dag.

Höfundur er fyrrverandi nemandi franska stjórnsýsluskólans.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.