Förum ekki fram úr okkur þegar við tölum um fjölgun aldraðra

Það er orðið að síbylju að öldrun þjóðarinnar og fjölgun aldraðra muni skapa vaxandi álag í rekstri hins opinbera. Margs er að gæta í slíkri umfjöllun eins og alltaf.

Hverjir eru aldraðir?

Í fyrsta lagi þarf að gæta að því hvaða aldursflokkar eru undir þegar rætt er um aldraða. Í dag má 70 ára karlmaður á Íslandi búast við að eiga eftir að lifa 15 ár að meðaltali, þremur árum lengur en sá sem var sjötugur 1975. Kona má búast við að lifa að meðaltali tæplega 17 ár frá sjötugu og sá tími hefur lengst jafn mikið og hjá körlunum frá 1975.

Áttræðir karlar geta búist við að eiga eftir að lifa í rúmlega átta ár og konurnar tæplega tíu. Níræðir karlar eiga eftir að lifa 4 ár að meðaltali og konurnar tæplega 4,5. Stór hluti þess fólks sem venja er að telja í hópi aldraðra er í fullu fjöri. Í Könnun Landlæknis á Heilsu og líðan Íslendinga1 kemur fram að 60% Íslendinga 67 ára og eldri telja líkamlegt heilsufar sitt gott eða mjög gott borið saman við 74% hjá þjóðinni allri. Til að taka einungis eitt dæmi: 42 einstaklingar sjötugir og eldri hlupu 10 km í síðasta Reykjavíkurmaraþoni, 27 hlupu hálft maraþon og 9 heilt. Það þarf að gæta að því að setja ekki alla „aldraða“ í eitt hólf.

Þiggjendur?

Hækkandi hlutfall þeirra sem hverfa af vinnumarkaði nýtur þess að hafa safnað upp lífeyrisréttindum alla starfsævina. Lífeyrisréttindin draga mjög úr tekjumissinum sem verður þegar starfsævinni lýkur. Greiddar lífeyristekjur hafa farið hækkandi og þeim fækkar sem eru einungis háðir ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins eins og áður var. Að hluta opinberra starfsmanna undanskildum er jafnvægi milli eigna og skuldbindinga lífeyriskerfisins og hrein eign þess í árslok 2018 yfir 4 þúsund milljarðar2. Til samanburðar er allt íbúðarhúsnæði landsmanna 5.700 milljarða virði3. Hrein eign lífeyrissjóðanna hefur vaxið að raunvirði um 9,5%4 á ári undanfarin 5 ár, mun örar en fjöldi þeirra sem eru á vinnumarkaði5.

Þegar lífeyriskerfi eru söfnunarkerfi eins og hér á landi þarf ekki að hafa áhyggjur af því hversu margir eru komnir út af vinnumarkaði, miðað við fjölda hinna sem enn eru þar. Sá hópur hefur (að mestu) safnað sjálfur fyrir lífeyri sínum. Þessu er alls ekki þannig farið alls staðar. Það eru einungis 3 aðildarríki OECD þar sem eignir lífeyrissjóða eru hærra hlutfall af landsframleiðslu en hér á landi. Þetta eru Danmörk, Holland og Kanada. Í fjölmennum ríkjum Evrópu, eins og Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Spáni, hefur nær engin uppsöfnun átt sér stað. Í þessum löndum eru lífeyrisþegar algerlega háðir getu þeirra sem yngri eru til að greiða þeim lífeyri.

Uppsöfnun eigna lífeyrissjóða hefur bæði orðið vegna iðgjalda og ávöxtunar. Nú eru blikur á lofti um ávöxtun til lengri tíma litið og það mun hafa áhrif á þessa stöðu en þó mun staða Íslands aldrei verða neitt í líkingu við þá framtíðarmynd sem blasir við í þessum málum í löndum sem hafa ekkert söfnunarkerfi.

Atvinnuþátttaka á Íslandi á efri árum er með því allra mesta sem þekkist. Í Danmörku eru rúmlega 5% þeirra sem eru eldri en 67 ára í atvinnu. Það er álíka hátt þátttökuhlutfall og er meðal Íslendinga sem eldri eru en áttræðir! Eftirlaunaþegar greiða skatta og eru þannig engan veginn einungis þiggjendur á opinbera þjónustu. Árið 2016 greiddu þannig sjötugir og eldri yfir 17 milljarða í útsvar meðan áttræðir og eldri greiddu 6 milljarða6. Sjötugir og eldri greiddu 8 milljarða í tekjuskatt og hinir áttræðu rétt innan við 2 milljarða af þeirri upphæð. Þeir greiddu 4 milljarða í fjármagnstekjuskatt meðan hinir áttræðu greiddu yfir milljarð.

Mannfjöldaþróun

Á undanförnum 5 árum hefur íbúum landsins fjölgað um rúmlega 31 þúsund7. Fæðingar síðastliðin fimm ár voru tæplega 21 þúsund en um 11 þúsund létust. Fæddir umfram dána voru þannig um 10 þúsund. Á þessu tímabili fluttust tæplega 2 þúsund fleiri íslenskir ríkisborgarar af landi brott en þeir sem komu til baka. Aftur á móti fluttust yfir 20 þúsund fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en frá því og þar er stærsti breytingarþáttur í íbúafjölda landsins. Skoðum tölur um fjölda og fjölgun þeirra íbúa landsins sem eru í eldri hluta aldursdreifingarinnar:

Þeir íbúar landsins sem voru sjötugir og eldri í upphafi árs í ár töldu rúmlega 34 þúsund. Þeim hafði fjölgað um 17% á undanförnum 5 árum og hlutfall þeirra af íbúafjölda landsins hafði hækkað úr 9% fyrir fimm árum í 9,6% nú í ársbyrjun. Vissulega mikil fjölgun, en eru eldri en sjötugir margir?

Af Vestur-Evrópuríkjum er það einungis á Írlandi sem hlutfall sjötugra og eldri er lægra en hér á landi. Árið 2018 var hlutfall þeirra 9,4% af íbúafjölda8. Í Noregi var hlutfallið 11,8%, í Stóra-Bretlandi 13,1%, í Danmörku 13,7%, í Svíþjóð 14,3% og í Finnlandi 14,7%. Af Evrópuríkjum er hlutfall sjötugra og eldri hæst á Ítalíu, þar sem einn af hverjum sex íbúum er eldri en sjötugur. Myndin er lík ef skoðað er hversu hátt hlutfall íbúa er yfir áttræðu. Einnig þar gnæfir Ítalía upp úr með 7% íbúa á níræðisaldri og eldri. Áttræðir og eldri eru hvergi í Vestur-Evrópu hlutfallslega færri en á Írlandi og hér á landi.

Það vekur athygli að áttræðum og eldri fjölgaði minna en íbúum landsins í heild á undanförnum fimm árum og því lækkaði hlutfall þeirra af landsmönnum. Níræðum og eldri fjölgaði hins vegar um fimmtung.

Þetta er staðan núna. Í samanburði við önnur lönd í okkar heimshluta erum við ung og ættum auðveldlega að geta axlað þær byrðar sem eru samfélagslegur kostnaður vegna hinna öldruðu (eða væri ef til vill réttara að segja háöldruðu?).

En er þetta að fara að breytast?

Fyrir áttatíu árum fæddust um 2.500 börn á Íslandi og þannig hafði það verið um töluverðan tíma9. Af þessum hópi er enn um helmingur á lífi og búsettur hér á landi. Frá byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar fór hins vegar að fjölga reglulega í fæðingarárgöngum og sú fjölgun stóð allt til ársins 1960. Það ár fæddust 4.900 börn hér á landi. Það var ekki fyrr en árið 2009 sem fleiri börn fæddust og það einungis í eitt ár10.

Þessi framvinda, ásamt breytingum á ævilengd, hefur vitaskuld áhrif á fjölda í aldurshópum í framtíðinni. Í miðspá Hagstofu Íslands um mannfjöldaþróun á Íslandi er niðurstaðan sú að fram til ársins 2030 muni sjötugum og eldri fjölga um 55% meðan þjóðinni allri muni fjölga um rúmlega 10%. Áttræðum og eldri mun samkvæmt þessu fjölga um 46%. Spá um heildarfjölda landsmanna er mjög háð forsendum um búferlaflutninga milli landa, eins og þróun undanfarinna ára sýnir best. Fjöldinn í efstu aldurshópunum er ekki eins miklum vafa bundinn, enda eru búferlaflutningar ekki eins tíðir nú um stundir í efstu aldursárgöngunum, hvað sem síðan kann að verða.

Gangi forsendur um þróun heildarfjölda íbúa eftir verður hlutfall sjötugra og eldri á Íslandi rúmlega 13% árið 2030, álíka og það er nú um stundir í Stóra-Bretlandi og Hollandi en enn þá miklu lægra en það er nú í Þýskalandi, Svíþjóð og Finnlandi til að taka dæmi. Hlutfall áttræðra og eldri verður orðið 4,7% af íbúafjöldanum. Af löndum í Vestur-Evrópu eru 12 ríki nú þegar með hærra hlutfall áttræðra en Ísland verður með eftir 11 ár.

Niðurstaða þessa yfirlits er sú að þrátt fyrir að fram undan sé fjölgun í hópi þeirra íbúa landsins sem komnir eru af léttasta skeiði er Íslendingum vorkunnarlaust að sjá fyrir þörfum þeirra sem elstir eru í samfélaginu.

Heilsa og afkoma eldri hluta landsmanna fer batnandi á komandi árum. Við þurfum að gæta þess að stilla kröfum í hóf. Við megum ekki brenna okkur á því að ná aldrei að sjá fyrir þörfum allra aldraðra sem á aðstoð þurfa að halda. Það má ekki verða að einungis verði hægt að sjá um suma en ekki alla vegna þess að gerðar hafi verið óraunhæfar kröfur um aðbúnað – sem þá myndu einungis gilda í raun um þá sem fengju þjónustu – hinir fengju enga.

Höfundur er skipulagsfræðingur, BES, M.Phil, og lauk nýverið störfum hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu eftir 17 ára starf. Hann starfar nú hjá ráðgjafarfyrirtækinu Capacent.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.

Heimildir:

  1. https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/ grein/item35858/Tolulegar-upplysingar-ur-Heilsa-oglidan- Islendinga
  2. Heimild: FME
  3. Heimild: Þjóðskrá Íslands.
  4. Frá 2013 til 2018. Heimild FME, eigin útreikningar.
  5. Þeim hefur fjölgað um 2% á ári frá því fjölgun á vinnumarkaði fór að taka við sér 2012 til ársins 2018. Heimild: Hagstofa
  6. Heimild: RSK
  7. Heimild: Hagstofa
  8. Mannfjöldatölur um Evrópuríki eru fengnar hjá Eurostat.
  9. Heimild: Hagstofa Íslands.
  10. Í almennri umræðu var þetta rakið til hrunsins.