Með fullri reisn og virðingu

Bandaríska vindlatímaritið Cigar Aficionado valdi E.P. Carrillo Encore Majestic vindil ársins í fyrra. Vindillinn er framleiddur af Tabacalera La Alianza S.A. í Dóminíska lýðveldinu en flest hráefni hans koma þó frá Níkaragva. Í samræmi við 7.gr. laga um tóbaksvarnir (6/2002) er þó rétt að vara sérstaklega við skaðsemi vörunnar.
Í samræmi við 7. gr. laga um tóbaksvarnir (6/2002) er rétt að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra tegunda sem hér er fjallað um. Samkvæmt íslenskum lögum má fjalla um einstakar áfengistegundir en ekki um einstakar vindlategundir, nema þá sérstaklega til að vara við skaðsemi þeirra.

Það heyrir til algjörra undantekninga að fjallað sé með faglegum hætti um vindla hér á landi. Sem er auðvitað algjör synd, því það er hægt að gera ljúfar stundir enn betri með góðum vindli. Hér á síðum Þjóðmála stendur til að fjalla um vindla, vindlaframleiðslu, meðhöndlun vindla, val á vindlum og þannig mætti áfram telja.

Fyrst er rétt að taka fram að vindlar eru ekki til þess fallnir að fullnægja nikótínþörf eða fíkn. Þeir eru munaðarvara og hluti af hinu ljúfa lífi – en þó ekki aðeins fyrir hina efnameiri. Það er hægt að fá góða vindla á viðráðanlegu verði hér á landi og það eru fáir sem reykja marga vindla í hverri viku.

Það þarf ekki sérstök tilefni til að fá sér góðan vindil. Þó er auðvitað algengt að fólk (já, konur fá sér líka vindla) reyki vindla við hátíðleg tilefni og þá sérstaklega á jólunum. Margir vilja fá vindlalykt í stofuna fyrir jólin og er ekkert út á það að setja.

Þegar við veljum okkur vindil í vindlabúð skulum við helst velja vindil sem er í plasti eða álhólki. Við kærum okkur lítið um að gestir og gangandi hafi meðhöndlað vindilinn okkar, þefað af honum og hvaðeina.

Það verður þó að segjast eins og er að það er ekki hlaupið að því að fá sér góðan vindil í íslenskum aðstæðum. Það er aðeins hægt að reykja vindla úti í um þrjá mánuði á ári og þess á milli er ekki sjálfsagt að fólk fái að reykja vindla heima í stofu. Þó eru hér starfræktir vindlaklúbbar og allir áhugamenn um vindla ættu að komast inn í einn slíkan – eða stofna hann sjálfir. Höfundi er kunnugt um einn vinnustað á höfuðborgarsvæðinu þar sem fólk kemur saman fyrsta sunnudag í hverjum mánuði yfir góðum vindlum. Það er að sjálfsögðu til fyrirmyndar og yfirmenn staðarins eiga skilið mikið hrós fyrir að lána húsnæðið.

Með einföldum hætti mætti flokka áhugamenn og -konur um vindla í tvo flokka. Annars vegar þau sem koma saman félagsskaparins vegna og flestir fá sér yfirleitt sama vindilinn. Hins vegar þau sem einnig koma saman félagsskaparins vegna en prófa um leið hinar ýmsu tegundir nýrra vindla. Í einum vindlaklúbbi skipta einstaklingar því með sér að útvega nýja vindla, kynna þá fyrir öðrum og fjalla um gerð þeirra.

Tími til að njóta

Myndin hér sýnir hvernig rétt er að skera vindil. Til vinstri er vindill skorinn með réttum hætti en búið er að skera of stóran hluta af vindlinum til hægri. Það leiðir til þess að það kemur of mikill reykur í gegnum vindilinn, sem gerir hann of heitan og í raun skemmir hann – svona fyrir utan allt tóbakið sem mun kvarnast úr honum við litla ánægju.

En byrjum á byrjuninni. Það er mikilvægt að njóta stundarinnar sem varið er til þess að reykja góðan vindil. Til þess þarf að gefa sér nægan tíma. Vindlanautnin rímar við gildi frjálshyggjumannsins, þar ríkja góðar venjur en engar fastar reglur. Flestir gera þau mistök að reykja vindilinn of hratt. Ef þú klárar stóran vindil á um tíu mínútum ertu að reykja hann of hratt. Vindlareykingar eru fyrst og fremst unaður og það að reykja vindilinn of hratt skemmir þá stund. Þess utan verður það til þess að hita vindilinn of mikið, sem verður til þess að það kemur biturt brunabragð af vindlinum. Vindillinn er þá svo gott sem ónýtur, því það er ekki hægt að kæla hann aftur og brunabragðið fer ekki þótt maður hægi á reykingunum.

Aftur á móti má ekki reykja vindilinn of hægt. Þá slokknar glóðin í vindlinum og það þarf að kveikja í honum aftur, jafnvel oftar en einu sinni. Ef það þarf að kveikja í sama vindlinum aftur og aftur gerist í raun það sama og þegar hann ofhitnar, það kemur biturt brunabragð sem erfitt er að losna við. Það er hæfileg regla að púa vindilinn ljúflega á hálfrar til einnar mínútu fresti.

Það felst líka ákveðin kúnst í því að viðhalda öskunni á vindlinum. Askan hefur í raun hlutverki að gegna, því hún stillir af hitastig vindilsins og heldur um leið glóðinni í skefjum með því að takmarka aðgengi hennar að súrefni. Bestu vindlarnir eru framleiddir með stórum laufum í ysta lagi og halda þannig öskunni lengur saman en nokkurn kann að gruna.

Góð meðhöndlun

Áhugafólk um vindlanotkun ætti að fjárfesta í góðum vindlakassa með rakamæli. Vindlar geymast best í um 65-70% raka, frá sólarljósi við stöðugt hitastig. Það er hægt að geyma vindil í ísskáp, þó aðeins í stuttan tíma því kuldi án raka þurrkar tóbakið. Flestir vindlar koma í plasti eða álhólkum og þá má geyma við stofuhita í stuttan tíma, en þó ekki það lengi að þeir þorni upp.

Við notum góðar vindlaklippur til að klippa endann. Þær þurfa að vera beittar og það skiptir máli að klippa snögglega lítinn hluta af endanum. Það er einnig hægt að kaupa góða afskorna vindla og þeir þurfa ekki að vera síðri en aðrir vindlar. Að öllum líkindum eru þeir verksmiðjuframleiddir, en það er líka allt í lagi. Áður en kveikt er í er rétt að renna ljúflega yfir vindilinn og kanna hvort það eru hnúðar á honum. Það kemur fyrir að handgerðir vindlar innihaldi litla hnúða þar sem lauf eða tóbak hefur vöðlast saman. Það gerir vindilinn ekki endilega verri, en getur heft súrefnisflæði í honum – sem er ekkert mál ef maður er meðvitaður um það.

Að kveikja í

Þegar við kveikjum í vindlinum þurfum við að leyfa loganum, hvort sem er frá eldspýtunni eða gaskveikjaranum, að leika við endann á vindlinum, snúa honum fram og til baka og láta vindilinn sjálfan grípa logann.

Það skiptir máli hvernig við kveikjum í vindlinum. Best er að nota sérstakar eldspýtur (t.d. viðareinung) eða gaskveikjara. Flestar venjulegar eldspýtur eru vaxbornar og það getur haft áhrif á bragð vindilsins.

Venjulegir kveikjarar geta einnig haft áhrif á bragðið og að sjálfsögðu þarf varla að taka fram að við notum ekki bensínkveikjara til að kveikja í góðum vindli.

Við getum notað tvær aðferðir til að kveikja í vindlinum. Það er hægt að kveikja í honum eins og sígarettu, með því að kveikja í endanum og sjúga logann í gegnum vindilinn. Það er samt hætt við því að hita hann of mikið, með fyrrgreindum afleiðingum, og ekki víst að við náum að kveikja í honum með jöfnum hætti.

Hin leiðin er að leyfa loganum, hvort sem er frá eldspýtunni eða gaskveikjaranum, að að leika við endann á vindlinum, snúa honum fram og til baka og láta vindilinn sjálfan grípa logann. Það myndast glóð á endanum og þá sveiflum við honum ljúflega þannig að loginn fái smá súrefni.

Burtséð frá því hvaða aðferð við notum pössum við að beina ekki loganum beint inn í vindilinn heldur nýtum við allt ummálið til að kveikja með jafnari hætti. Þetta á sérstaklega við um þykkari vindla.

Það eru allur gangur á því hvort við fjarlægjum merkin af vindlunum eða ekki. Allir vandaðir vindlar koma með merkingu (e. band) og fyrir einhverjum er hún stöðutákn. Ef þú ætlar að fjarlægja merkinguna er best að gera það eftir að búið að er kveikja í vindlinum. Flestar merkingar eru límdar lauslega á vindilinn og eiga það til að rífa upp laufið sem umlykur hann ef það er rifið af köldum vindli. Um leið og vindillinn hitnar dregst hann örlítið saman og það er auðveldara að losa bandið mjúklega af. Merkingin ætti þó ekki að þvælast fyrir neinum og það er í raun engin ástæða til að fjarlægja hana. Margir nota hana sem viðmiðun um það hvar þeir halda á vindlinum og aðrir leyfa glóðinni að ná upp að merkingunni.

Þegar við erum búin að kveikja, með ljúfum en vönduðum hætti, höldum við áfram að njóta. Hver einstaklingur ákveður fyrir sig hvort hann eða hún tekur reykinn ofan í lungun eða ekki. Margir púa vindlana eingöngu en sem fyrr segir eru engar reglur í þessu.

Þegar kemur að lokum þurfum við ekki að drepa í vindlinum. Við leyfum honum að ljúka þessari stund með fullri reisn og virðingu.

Höfundur er ráðgjafi, ritstjóri Þjóðmála og áhugamaður um vindla.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.