Halldór Benjamín: Sósíalismi á ekkert erindi á 21. öldinni

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (Mynd: HAG)

Eins og fram kemur í ítarlegu viðtali við Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA) í nýjasta hefti Þjóðmála, hefur orðið mikil breyting á forystuliði ýmissa verkalýðsfélaga. Hér er birt brot úr viðtalinu.

Stærstu félögunum er í dag stýrt af einstaklingum sem aðhyllast sósíalisma eða popúlisma og hafa talað á þeim nótum að hér á landi þurfi að eiga sér stað sósíalísk bylting. Samtalið við verkalýðshreyfinguna er því ekki eingöngu um tæknilegar útfærslur á kjarasamningum heldur einnig á hugmyndafræðilegum nótum.

„Hugmyndafræði kommúnista og sósíalisminn hefur oftar en ekki leitt til takmarkalausrar mannlegrar þjáningar og á ekkert erindi á Íslandi á 21. öldinni,“ segir Halldór Benjamín aðspurður um þetta.

„Undirtektir samfélagsins við hugmyndafræði sósíalismans eru enda engar og þeir sem boða þessa hugmyndafræði ná ekki í gegn. Ég geri engar athugasemdir við það. Fólk er bæði minnugt og vel lesið og veit hvað virkar og hvað ekki. Blandað markaðshagkerfi er ekki bara spurningin heldur líka svarið og ég fagna hverju tækifæri til að rökræða það. Ég hef gaman af sósíalistum. Út frá hagsmunum launafólks er hins vegar ljótur leikur að blanda saman verkalýðsbaráttu og sósíalisma. Þar tapa allir. Auðvitað er þeim frjálst að reka sína hugmyndafræði. SA eru ekki flokkspólitísk samtök, við styðjum markaðshagkerfið en ekki skilyrðislaust því þau eru hluti af stærra samfélagi. Markaðshagkerfið er þó grunnstefið sem við leitum til þegar við sjáum fram á nýjar áskoranir.“

SA hafa þó blandað sér inn í pólitíska umræðu og eru óhrædd við að tala fyrir markaðshagkerfinu, líklega meira eftir að þú tókst við sem framkvæmdastjóri en áður. Líta SA einnig á sig sem hugveitu hugmynda?

„Innan vébanda SA er alls konar fólk, með ýmsar skoðanir, úr mörgum stjórnmálaflokkum og með mismunandi sjónarmið. Við erum breiðfylking. Og við eigum að vera breiður hópur sem talar inn í samfélagið um hluti sem samfélagið varðar. Þá þýðir ekki að samsetningin sé einsleit, við þurfum að hlusta eftir og skilja ólík sjónarmið,“ segir Halldór Benjamín.

„En til þess að svara spurningu þinni beint, þá tel ég að til þess að ná árangri í meginþáttum sem tengjast starfsemi SA, sem eru gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, þá þurfi að undirbúa jarðveginn vel til þess að koma fram með hluti sem eru byggðir á markaðslausnum. Þess vegna má forysta SA ekki veigra sér við að taka hugmyndafræðilega slagi til varnar frjálsu markaðshagkerfi. Hagvaxtaraukinn í Lífskjarasamningnum er dæmi um slíkt. Það þarf að vera búið að ræða við almenning og fjalla um það í víðu samhengi hvernig hagvöxtur einn og sér styrkir efnahagslega stöðu þjóðarbúsins og efnahagsleg gæði heimilanna. SA þurfa líka að þróast með tímanum og við þurfum að hlusta á raddir samfélagsins og aðlagast, annars dagar samtökin uppi sem nátttröll. Við getum bara tekið dæmi um það hvernig almenn umræða þróast og á sér stað á samfélagsmiðlum. Við tökum þátt í þeirri umræðu og á þeim vettvangi. Við verjum í það bæði tíma og fjármunum og gerum myndbönd sem segja flókna sögu á einfaldan máta. En það er rétt að starfsemi SA er víðtækari núna en hún hefur verið og sú þróun mun halda áfram. Sterk hugmyndafræði, sett fram á skiljanlegan og aðgengilegan máta, styrkir stöðu Samtaka atvinnulífsins til framtíðar. Í frumkvæði er fólgið mikið vald.“

Sem fyrr segir er rætt nánar við Halldór Benjamín í ítarlegu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála. Þar fjallar hann um um aðdraganda og gerð Lífskjarasamningsins sem var undirritaður á árinu, um nýja skýrslu samtakanna um menntamál, aðkomu einkaaðila að heilbrigðisþjónustu og uppbyggingu innviða, um hina hugmyndafræðilegu baráttu sem á sér stað um markaðshagkerfið og fleira.

Viðtalið birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.