Rétt skal vera rétt

Halla Sigrún Mathiesen.

Það er vinsælt að líta til Norðurlandanna sem undrabarna hagfræðinnar. Stórstjörnur, stjórnmálamenn og blaðamenn dást að því að Norðurlöndunum hefur á einhvern ótrúlegan hátt tekist að sveigja lögmál fræðanna. Árið 2006 færði Jeffrey Sachs meira að segja rök fyrir því að velferðarmódel Norðurlandanna afsannaði kenningar Friedrichs Hayeks um frjálshyggju. Norðurlöndin státa af miklum lífsgæðum, hagsæld, sterkum kaupmætti, lítilli fátækt, jöfnuði og öflugu velferðarkerfi. Útkoman á að sanna að háir skattar og stórt ríkisbatterí komi ekki þegar allt kemur til alls niður á þrótti atvinnulífsins og lífsgæðum einstaklinga.

Í bók sinni Scandinavian Unexceptionalism kryfur höfundurinn Nima Sanandaji algengar mýtur um Norðurlöndin og fer yfir það hver raunveruleg ástæða velmegunar þar sé. Frá árunum 1870 til 1970 voru Norðurlöndin þau lönd sem uxu hvað hraðast í heiminum. Þessi ár einkenndust af umbótum sem voru atvinnulífinu í vil, t.d. með stofnunum banka og tilfærslu landeigna frá landeigendum (e. landlords) til bændanna sjálfra. Velmegunin varð til á tímum þar sem frjálst markaðshagkerfi réð ríkjum, skattar voru lágir og ríkið hafði lágmarksafskipti af atvinnulífinu. Fyrirtæki á borð við IKEA, Volvo og H&M litu dagsins ljós. Á áttunda og níunda áratugnum fór óhófleg stækkun ríkisvaldsins hins vegar að grafa undan framförunum sem höfðu náðst – í formi hárra skatta, ríkulegra ríkisúthlutana og erfiðra vinnumarkaðsaðstæðna.

Að sögn Sanandaji einkennist menning þessara landa einnig af miklu trausti, ábyrgð, góðri vinnusiðfræði og félagslegri samheldni. Þessir eiginleikar, auk lítillar fátæktar og ójöfnuðar, voru allir fyrir hendi áður en þessi lönd urðu fræg velferðarríki. Ein af niðurstöðum Sanandaji er að sambland þessara þátta – frjálsir markaðir og menningarlegir eiginleikar – hafi í raun verið ástæða þess að byggja tókst upp velferðarríki, sem gaf góða raun í hóflegri stærð. Þegar Norðurlöndin brugðu hvað lengst frá frjálsu markaðshagkerfi hægðist töluvert á hagvexti, atvinnusköpun og nýsköpun. Ofan af þessu hafa þau þurft að vinda undanfarin ár.

Íslendingar bera sig gjarnan saman við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Oftar en ekki er sá samanburður notaður til að færa rök fyrir hærri sköttum, auknum ríkisútgjöldum eða umfangsmeiri ríkisrekstri – í takt við þá mýtu sem rakin er hér að ofan. Margir virðast halda að íslenska ríkið sé í samkeppni við önnur norræn ríki um að eyða sem hæstu hlutfalli af landsframleiðslu í ýmsa málaflokka. Þannig samkeppni er ávísun á að allir tapi.

Hins vegar er samkeppnishæfni einn af góðum, heildstæðum mælikvörðum á það hvar við stöndum í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir. Samkvæmt International Institute for Management Development (IMD) er samkeppnishæfni þjóða mælikvarði á hvernig ríki stuðla að umhverfi þar sem fyrirtæki geta á sjálfbæran hátt skapað verðmæti. Samkeppnishæfni er með nokkuð sterka fylgni við eiginleika sem teljast eftirsóknarverðir – góð lífskjör, félagslegar framfarir, mikla landsframleiðslu og mikla hamingju. Í nýjustu úttekt IMD á samkeppnishæfni ríkja heimsins var Ísland í 20. sæti af 63 löndum og færðist upp um fjögur sæti frá fyrra ári. Samt sem áður var það neðst Norðurlandaþjóðanna.

Úttektin metur þjóðir út frá fjórum meginþáttum; efnahagslegri frammistöðu, skilvirkni hins opinbera, skilvirkni atvinnulífs og samfélagslegum innviðum. Deila má um ágæti þessara mælikvarða á velgengni þjóða, en nokkrir áhugaverðir punktar koma fram í úttektinni sem höfundur telur ályktunarbæra.

Við stöndum neðarlega – og verr en aðrar Norðurlandaþjóðir – hvað viðkemur efnahagslegri frammistöðu, fjármögnun, alþjóðlegri fjárfestingu og regluverki atvinnulífs. Veikleikar sem bent er á eru ríkiseign fyrirtækja, skilvirkni samkeppnislöggjafar og aðgengi að áhættufjármagni, svo dæmi séu tekin. Þegar málefni eins og samfélagsleg umgjörð (jöfnuður o.þ.h.), heilsa, umhverfi og menntun eru annars vegar er Ísland mjög ofarlega og fylgir fast á hæla hinna norrænu landanna, sem reyndar koma betur út. Áhugavert er þó að sjá að stjórnendur telja það eftirsóttasta við Ísland vera opin og jákvæð viðhorf, hátt menntunarstig og hæfni starfsfólks.

En hvers vegna skiptir þetta máli? Líkt og Sanandaji bendir á í bók sinni var uppspretta velmegunar á Norðurlöndunum í upphafi öflugt atvinnulíf og rík samfélagssátt, sem gerði það að verkum að þar var hægt að byggja upp velferðarkerfi. Þegar hið opinbera stækkaði um of kom það niður á framþróun, sem vinda þurfti ofan af til að koma í veg fyrir stöðnun. En allar götur síðan hefur stimpill Norðurlandanna verið velferð – háir skattar og umfangsmikil opinber þjónusta. Ýjað hefur verið að beinum orsakatengslum milli þess og hagsældar.

En forsenda tilvistar hins opinbera er öflugt atvinnulíf. Þegar nánar er að gáð – og samanber úttekt IMD – koma Norðurlöndin einstaklega vel út á ákveðnum mælikvörðum sem snúa að atvinnulífinu. Á flestum þeirra koma hinar Norðurlandaþjóðirnar betur út en Ísland. Minni munur er þó á frammistöðu Íslands og þeirra á helstu velferðarmælikvörðum, eins og menntun og samfélagslegri umgjörð. Samt sem áður snýr ákall þeirra Íslendinga sem lofsama Norðurlöndin oftar en ekki að velferðarhlið jöfnunnar.

Ef við ætlum að líta upp til hinna Norðurlandaþjóðanna verðum við að skoða dæmið heildstætt og draga réttan lærdóm af þeirra reynslu. Undirstaða öflugs velferðarkerfis er og hefur alltaf verið öflugt efnahags- og atvinnulíf. Staðreyndirnar styðja ekki fullyrðingar um hið gagnstæða. Rétt skal vera rétt.

Höfundur er formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.