Þarf opinber aðili að sækja sorpið?

Það eru ýmis atriði sem hægt er að gagnrýna í undarlegri deilu Eflingar við Reykjavíkurborg. Ófaglærðir starfsmenn á leikskólum borgarinnar sem og sorphirðumenn hafa nú verið í verkfalli í rúmar tvær vikur og ekki sér fyrir endann á því.

Án þess að taka sérstaka afstöðu til deilu Eflingar við Reykjavíkurborg, þá má óneitanlega velta því fyrir sér hvort að það sé í raun nauðsynlegt fyrir opinberan aðila að sjá um sorphirðu í borginni. Reyndar má líka velta því fyrir sér hvort það sé nauðsynlegt fyrir Reykjavíkurborg að reka leikskóla, en ætla má að það sé öllu viðkvæmara mál við að eiga.

Hið opinbera sorphirðufyrirtæki Sorpa er nú svo gott sem gjaldþrota. Ljóst er að félagið mun þurfa að fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu á næstu misserum, sem á máli hins opinbera þýðir að skattgreiðendur í Reykjavík og nágrenni þurfa að taka upp veskið.

Einkaaðilar eru fullfærir um að sinna sorphirðu eins og öðrum lífsins nauðsynjum. Það er heldur ekki eins og Reykjavíkurborg sé að sinna sorphirðunni ókeypis, borgarbúar greiða sérstakt sorphirðugjald.

Það færi vel á því að setja þessa þjónustu alfarið í hendur einkaaðila. Borgaryfirvöld gætu samt sem áður sett reglur um flokkun og urðun líkt og nú er og það er eru allar líkur á því að einkaaðilar sæju sér hag í því að sækja og flokka sorp með betri hætti en nú er gert.