Stórýktar fréttir af andláti kapítalismans

Íslensku fossarnir verða hér áfram eftir kórónuveiruna og munu áfram skapa þjóðarbúin verðmæti í gegnum ferðaþjónustu og orkuiðnað ef einkaframtakið fær að njóta sín. (Mynd: VB/HAG)

Það er engin leið að leggja mat á það efnahagslega tjón sem útbreiðsla kórónuveirunnar mun valda hagkerfum heimsins. Enginn getur séð það fyrir, ekki einu sinni Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor sem þó sá fyrir efnahagshrunið 2008 árið 2009.

Hér á landi verða áhrifin gífurleg, svo vægt sé til orða tekið. Það er ljóst að árið mun reynast ferðaþjónustufyrirtækjum erfitt, hvort sem litið er til stórra félaga á borð við Icelandair eða minni aðila, sem fæstir hverjir hafa nægt eigið fé eða lausafjármagn til að fara í gegnum það ástand sem nú ríkir. Þetta hefur líka töluverð áhrif á sjávarútveg, þar sem markaðir fyrir ferskan fisk hafa á stuttum tíma nær þurrkast út, enda nær allir veitingastaðir og fiskmarkaðir beggja megin Atlantshafsins lokaðir. Á sama tíma liggur fyrir að álverin hér á landi eru í töluverðum vanda, enda offramboð á áli í heimi þar sem álverð hefur farið hríðlækkandi á undanförnum misserum.

Í stuttu máli eru þrjár stærstu útflutningsgreinarnar í umtalsverðum vandræðum um þessar mundir, greinarnar sem skapa mestu verðmætin fyrir íslenska hagkerfið. Sjávarútvegurinn er líklegastur til að taka við sér þegar horfa fer til betri vegar, áliðnaðurinn þarf áfram að glíma við óumhverfisvæna offramleiðslu frá Kína og það er óvíst hvernig ferðaþjónustan kemst frá þessari stöðu til skemmri tíma. Til lengri tíma verður ferðaþjónusta þó áfram burðargrein hér á landi, ef rétt er haldið á spilunum.

***

Ástandið nú jafnast í raun á við hörmungar. Einhverjum kann að þykja það heldur stór orð, miðað við ástandið víða í heiminum þar sem fólk upplifir hörmungar daglega, svo sem í Sýrlandi eða í Eflingarríkinu Venesúela. Nú er það vissulega svo að í hinum vestræna heimi er enginn farinn að tína mat upp úr ruslatunnum, en þegar gerð er tilraun til að slökkva á hagkerfum heimsins líkt og nú hefur verið gert verða afleiðingarnar slæmar – bæði til skemmri og lengri tíma. Þegar Fjölnir ritar þessi orð hefur farsóttin orðið rúmlega 100 þúsund manns að bana.

Einhverjir hafa talað um stríðsástand í þessu samhengi. Sú samlíking er ekki alveg úr lausu lofti gripin. Staðan sem nú er komin upp krefst innri samstöðu þjóða, viðbrögð ríkisvaldsins miða að því að bjarga því sem hægt er að bjarga, það reynir á innri stoðir flestra ríkja og þannig mætti áfram telja. Ríkisstjórnir margra landa hafa, af illri nauðsyn, gripið til þess ráðs að hvetja fólk til að vera sem mest heima, sett á samkomubann, ferðatakmarkanir og í sumum ríkjum hefur verið sett á útgöngubann.

Allt hefur þetta töluverð áhrif. Einkaneysla minnkar, framleiðsla dregst saman, ferðalögum fækkar og þannig mætti lengi áfram telja. Störfum fækkar, kaupmáttur rýrnar sem síðan hefur enn neikvæðari áhrif á einkaneyslu – og hringrásin heldur áfram. Atvinnumissir í ástandi þar sem lítið er um laus störf er erfiður öllum þeim sem í honum lenda.

Þá eru ótalin áhrifin sem þetta mun hafa á heilsufar fólks. Það er ekki síður mikilvægt en efnahagurinn. Fyrir utan bein áhrif, sem fela í sér veikindi og dauða, má ætla að álagið sem nú hefur skapast á heilbrigðiskerfið muni einhvers staðar einhvern tímann koma niður á því og skjólstæðingum þess – almenningi. Læknatímum og minni aðgerðum hefur verið frestað um óákveðinn tíma, með tilheyrandi óþægindum og mögulegri fjarveru frá vinnu, en aðeins er búið að fresta vandanum. Með öðrum orðum, álagið bíður. Jafnvel þó svo að okkur takist að hefta útbreiðslu veirunnar innan fárra mánaða mun álagið á heilbrigðiskerfið vara lengur.

***

En hvernig á að bregðast við þessu?

Einhverjir hafa nýtt tækifærið nú til að skipuleggja útför hins frjálsa markaðshagkerfis, kapítalismans. Það skýrist meðal annars af því hvernig ríki heims hafa brugðist við og þá sérstaklega í efnahagslegu tilliti. Fjölni hefur þó þótt það undarlegt að sjá vinstrimenn úti um allan heim fagna einhvers konar sigri. En kannski þarf sviðna jörð af brotnum hagkerfum eftir farsótt fyrir vinstrimenn til að upplifa einhvers konar sigur sinnar hugmyndafræði.

Hér á landi hafa kjörnir fulltrúar fagnað ástandinu í efnahagslegu tilliti, til dæmis borgarfulltrúi Samfylkingarinnar sem nýlega fagnaði kólnun hagkerfisins því þannig myndi losun gróðurhúsalofttegunda minnka. Þannig tala aðeins stjórnmálamenn sem búa í hagsældarríkjum.

Að hluta til eru þó skýringar á þessum viðbrögðum. Þær aðgerðir sem vestrænar ríkisstjórnir eru nú að grípa til – í neyðarástandi – eru í mörgum tilvikum aðgerðir sem vinstrimenn dreymir um að framkvæma hvort eð er. Stóraukin ríkisútgjöld, fleiri á framfæri ríkisins, ferðatakmarkanir, takmarkanir á starfi frjálsra félagasamtaka, aukið eftirlit með borgurunum, aukin völd stjórnmála- og embættismanna og þannig mætti áfram telja. Við fáum að öllum líkindum, því miður, að kynnast því kalda hagkerfi sem vinstrimenn boða.

Aftur á móti eru hægrimenn að grípa til ráða sem þeir myndu alla jafna ekki gera, t.d. að skuldsetja ríkissjóð og skerða einstaklingsfrelsi.

***

Flestir eru sammála því að ríkisvaldið, fyrst það er á annað borð til, grípi þá sem á því þurfa að halda, tryggi löggæslu og öryggi borgaranna, starfræki réttarkerfi og tryggi menntun óháð efnahag. Hér á Íslandi höfum við einnig gengið langt í því að tryggja heilbrigðisþjónustu á kostnað ríkisins þó að okkur greini á um það hver sé best til þess fallinn að veita þá þjónustu. Síðan eru ótalin mál á borð við samgöngumál og aðrir málaflokkar sem fjármagnaðir eru af ríkinu.

Allt þetta getum við af því að við lifum í frjálsu markaðshagkerfi. Hér á landi hefur efnahagsstjórn undanfarinna ára verið það góð að ríkið er í tiltölulega góðri stöðu til að takast á við ástandið – en þó ekki betri en svo að einkageirinn má við litlu sem engu svo hann fari ekki á hliðina. Það vill oft gleymast í umræðu um efnahagsmál að efnahagsstjórn snýst ekki bara um afkomu ríkisins heldur líka hvernig einkageiranum reiðir af í því umhverfi sem ríkisvaldið skapar honum. Sjö prósenta tryggingargjald ofan á launakostnað fyrirtækja er ekki dæmi um góða hagstjórn, svo dæmi sé tekið, jafnvel þó svo að ríkissjóður græði vel á því.

***

Það er eðlilegt að ríkið bregðist við í hörmungarástandi. Það á við um náttúruhamfarir á borð við eldgos og snjóflóð, stríðsástand eða aðra ófyrirséða atburði á borð við þá farsótt sem nú geisar. Það er þannig hægt að réttlæta aðgerðir ríkisins ef þær miða að því að verja hið frjálsa markaðshagkerfi. Það er ekki erfitt fyrir hægrimenn, sem hafa fram til þessa þurft að horfa upp á ríkisvaldið taka til sín stórt hlutfall af tekjum launamanna og fyrirtækja, skila einhverju af því fjármagni til baka til að verja störf, halda lífi í lífvænlegum fyrirtækjum og búa þannig um hnútana að hægt sé að snúa lífinu aftur í eðlilegt ástand. Hin leiðin er að leyfa fyrirtækjum að fara í fjöldagjaldþrot, sem mun einnig hafa hörmulegar afleiðingar fyrir ríkissjóð. Það gæti jafnvel farið svo illa að fækka þurfi ríkisstarfsmönnum. Hjáseta ríkisins myndi kosta samfélagið gífurlegar fjárhæðir að viðbættum þeim félagslegu afleiðingum sem það kann að valda. Ef ríkið ætlar að veita samtryggingu þarf hún líka að gilda fyrir atvinnulífið í víðu samhengi.

***

En hvernig ætlum við að græða sviðna jörð?

Í seinni heimsstyrjöldinni varð breska ríkisvaldið, af illri nauðsyn, stærra en góðu hófi gegnir. Margir vinstrisinnaðir fræðimenn færðu rök fyrir því að fyrst miðstýrt ríkisvald virkaði í stríði hlyti það að virka einnig á friðartímum. Það var kveikjan að því að Friedrich Hayek skrifaði bók sína Leiðin til ánauðar (The Road to Serfdom) árið 1944. Bretar héldu þó vegferð sinni um miðstýringu áfram, á meðan ríki á borð við Bandaríkin og Þýskaland leyfðu einkaframtakinu að byggja upp hagkerfi sín með tilheyrandi hagsæld íbúa ríkjanna.

Það var ekki fyrr en um 40 árum síðar sem Bretar, þá undir forystu Margaret Thatcher, gáfu einkaframtakinu tækifæri. Sagan kennir okkur að einkaframtakið er það sem drífur hagkerfin áfram. Þetta er rifjað upp hér til að minna á að það er hægt að fara ýmsar leiðir.

Það er alveg ljóst að allt verður breytt. Við vitum ekki hvort og þá hversu mikið ríkinu tekst að takmarka tjónið sem verður en við vitum að ríkið mun ekki eitt og sér byggja hagkerfið upp á ný. Ríkisreknir spítalar víða um heim voru ekki betur í stakk búnir til að takast á við farsóttina en einkareknir spítalar. Í þeim tilvikum þar sem ríkið rekur spítala (illa reknir ríkisspítalar eru ekki séríslenskt fyrirbæri) er það ríkið sem ákveður fjölda starfsmanna, fjölda sjúkrarúma og innkaup á tækjum, vörum og búnaði. Hafi menn þá skoðun að ríkið skuli eitt veita heilbrigðisþjónustu, svo dæmi sé tekið, er það nú samt þannig að spítalar, sjúkrarúm, grímur, sloppar, hnífar, öndunarvélar, lyf og svo framvegis eru framleidd af einkaaðilum.

Við fengum að kynnast því um miðjan mars að sjá tómar búðarhillur, ekki bara hér á landi heldur líka í Ameríku og Evrópu, þegar fólk fór að hamstra mat og aðrar nauðsynjavörur vitandi að það yrði meira heima á næstu vikum. Hinn frjálsi markaður gerði þó það sem sósíalisminn gerir ekki, fyllti hillurnar aftur daginn eftir.

***

Niðurstaðan er sú að ríki með markaðshagkerfi eru betur í stakk búin til að takast á við farsóttir eða aðrar hamfarir en miðstýrð ríki. Fjölnir vill ekki hugsa þá hugsun til enda hvernig farsótt á borð við Covid-19 mun leggjast á ríki á borð við Venesúela. Því sterkari sem einkageirinn verður að þessu ástandi loknu, þeim mun betra. Jafnvel þó svo að ríkið, af illri nauðsyn, verji vígið á meðan það versta gengur yfir.

***

Einkaframtakið mun keyra hagkerfið af stað á ný fái það til þess tækifæri. Þannig munu útflutningsgreinarnar sem fjallað var um hér í upphafi skapa aukin verðmæti – með tilheyrandi hagsæld.

Fiskurinn í sjónum verður áfram til staðar. Sjávarútvegsfyrirtækin munu því áfram búa til auð úr þeirri lind sem hafið er, með jákvæðum áhrifum á þjóðarbúið, nýjum störfum í tengdum greinum, framþróun á afleiddri starfsemi, nýsköpun og þannig má áfram telja. Fossarnir og jarðhitinn eru áfram til staðar og beislun orkunnar mun nýtast þjóðinni hvort sem hún er nýtt í álframleiðslu eða annan orkufrekan iðnað eða seld til útlanda um sæstreng. Fjöllin, firðirnir og jöklarnir verða líka til staðar og munu áfram gera Ísland að eftirsóttum áfangastað fyrir ferðamenn – með tilheyrandi sköpun starfa og verðmæta.

Hlutverk stjórnmálamanna að þessu loknu er að tryggja að einkaframtakið fái að njóta sín. Tryggja það að skattheimtu sé stillt í hóf, að eftirlitsiðnaðurinn verði ekki of íþyngjandi, að lög og reglugerðir taki mið af sjónarhorni atvinnulífsins en ekki embættismanna og þannig mætti áfram telja.

Það munu koma önnur áföll í framtíðinni, misstór og misalvarleg. Þá er ágætt að beita þeim hagstjórnartækjum sem hægt er til að tryggja öflugt atvinnulíf, ekki bara öflugan ríkissjóð.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.