Mikilvægi eftir-hrunssagna

Ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, undir forystu þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar, tók við völdum eftir þingkosningarnar 2013 og vann það afrek að afnema loks gjaldeyrishöftin. (Mynd: VB/HAG)

Afnám haftanna
Höfundur: Sigurður Már Jónsson
Útgefandi: Almenna bókafélagið, 2020
336 bls.

Á liðnum áratug hafa verið skrifaðar nokkrar bækur um fall fjármálakerfisins haustið 2008 og aðdraganda þess, hrunið eins og við þekkjum það í daglegu tali. Eðli málsins samkvæmt eru þær misgóðar, sumar gefa ágæta mynd af því sem gerðist, atburðarásinni, hver gerði hvað og sagði hvað við hvern og svo framvegis. Það er ágætt að sumt af því sé fært á prent.

Sumar af þessum bókum eiga það þó sameiginlegt að vera skrifaðar af yfirlæti og vanþóknun í garð þeirra sem flokka mættu sem þátttakendur í hruninu. Við lestur þeirra bóka fær maður á tilfinninguna að helsta markmið höfunda sé að upphefja sjálfa sig á kostnað þeirra sem hugsanlega stigu feilspor í aðdraganda hrunsins – og taka almenning um leið í kennslustund um það hvernig hlutirnir eiga að vera eða ekki vera.

Það er þó frekar auðvelt að setja sjálfan sig í dómarasæti og fella dóma yfir öðrum – sérstaklega löngu eftir að atburðirnir áttu sér stað. Bankamenn og útrásarvíkingar hafa ekki notið mikillar samúðar og það gerir verkefnið enn auðveldara.

Sagan eftir hrun Það hefur þó minna farið fyrir bókaskrifum um það sem gerðist eftir hrun. Það væri hægt að skrifa langar greinar um það hvernig menn beittu opinberu valdi sínu, dæmdu menn til fangelsisvistar fyrir „óskrifaðar reglur“, hleruðu síma sakborninga og lögmanna, haldlögðu gögn sem aldrei átti að handleggja og þannig mætti áfram telja. Sum þeirra mála sem flokka mætti sem hrunmál eru enn í meðferð réttarkerfisins.

Þess vegna eru Þjóðmálarit Almenna bókafélagsins mikilvæg, sem flest eiga það sameiginlegt að fjalla um atburði sem áttu sér stað eftir hrun og lýsa misbeitingu á opinberu valdi. Búið er að gefa út bók um gerð Icesave samningana, um það hvernig Fjármálaeftirlitið ofsótti tiltekna einstaklinga og hvernig gjaldeyriseftirlit Seðlabankans skildi eftir sig sviðna jörð og sár sem verða aldrei grædd.

Nýjasta bókin í þessum flokki, Afnám haftanna eftir Sigurð Má Jónsson, lýsir því hvað raunverulega gerðist á bak við tjöldin í aðdraganda þess að samið var við kröfuhafa og í kjölfarið afnámi gjaldeyrishaftanna. Þetta eru atburðir sem gjörbreyttu fjárhagsstöðu þjóðarinnar (sem kemur sér nokkuð vel í núverandi aðstæðum ef rétt er haldið á spilunum).

Pólitísk forysta

Með mjög einföldum hætti mætti segja að það hafi verið tveir þættir sem réðu mestu um þann árangur sem loks náðist í þessu verkefni. Annars vegar var þörf fyrir öfluga pólitíska forystu og hins vegar þurfti að finna til einstaklinga sem höfðu vit og skilning á verkefninu.

Í ljósi þess hversu margir starfa innan stjórnsýslunnar kann hið síðarnefnda að hljóma einkennilega, en það var ekki fyrr en til verksins voru ráðnir þeir sem að lokum kláruðu málið sem alvöru hreyfing komst á afnáms- og uppgjörsferlið.

Afnám haftanna var flókið úrlausnarefni og eins og skýrt kemur fram í bókinni, verkefni sem var vel yfir getu (og vilja) Seðlabankans undir stjórn þáverandi seðlabankastjóra eða embættismanna í fjármálaráðuneytinu. Mikil átök áttu sér stað innan íslensku stjórnsýslunnar og við lestur bókarinnar kemur á óvart hversu mikið opinberir starfsmenn þvældust fyrir eða beittu sér gegn verkefninu. Eins og vitað er þurfti því að leita út fyrir stjórnkerfið til að vinna að alvöru lausnum málsins.

Hvað pólitísku forystuna varðar þá liggur það alveg ljóst fyrir að það þurfti sameiginlegt átak Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Báðir voru þeir ákveðnir í því að klára málið, höfðu forystu um það hvernig að því yrði staðið og að lokum hverjir yrðu fengnir til verksins. Það kemur í raun á óvart hversu lítið hafði þokast í málinu þegar þeir settust í ríkisstjórn vorið 2013, þá sérstaklega í ljósi þess að höftin sjálf voru til þess fallin að skerða verulega lífsgæði hér á landi.

Það voru margir utan stjórnsýslunnar sem komu að málinu, bæði í aðdraganda þess að skipaðir voru formlegir starfshópar. Frægt er Júpíter minnisblaðið sem samið var af Sigurði Hannessyni, Styrmi Guðmundssyni og Hjalta Baldurssyni en aðrir áttu síðar eftir að spila mikilvægt hlutverk.

Þar má sérstaklega nefna Benedikt Gíslason og Ásgeir Helga Reykfjörð Gylfason sem síðar störfuðu með Sigurði að málinu, Heiðar Guðjónsson sem var óhræddur við að taka slaginn á opinberum vettvangi, Lilju D. Alfreðsdóttur og loks Lee Buchheit. Ekki gefst rými til að reka þrekvirki þessara aðila hér en þess þá heldur er mikilvægt að áhugasamir sæki sér eintak af bókinni.

Bókin sjálf er auðveld aflestrar, hún kann á köflum að vera flókin en flóknir gjörningar og samningar eru þó vel skýrðir. Það er vandað til heimildarvinnu og rætt við á fimmta tug heimildarmanna. Það eru margar skemmtilegar sögur í bókinni, eins og til dæmis sú þegar Sigmundur Davíð boðaði, viljandi, seðlabankastjóra klukkutíma of seint á vinnufund á Þingvöllum þar sem lögð var línan með það hvernig framkvæmdahópurinn átti að starfa.

Mistök eða viljaverk

Ég nefndi hér í upphafi að það væri auðvelt að fella dóma yfir þeim sem voru á vellinum þegar leikar stóðu sem hæst. Mögulega hef ég gert mig sekan um það sama þegar ég held fram vanhæfi, viljaleysi og getuleysi stjórnsýslunnar til að takast á við það flókna verkefni sem afnám haftanna var.

Munurinn er þó sá að í stjórnmálum eða viðskiptum þurfa menn að horfast í augu við og taka afleiðingum mistaka sinna og gjörða, stundum nokkuð þungum afleiðingum. En opinberu starfsmennirnir eru flestir enn að og eru ekki að fara neitt.

Gjörðir þeirra verða ekki flokkaðar sem mistök heldur viljaverk. Þess vegna er svo mikilvægt að fjalla um atburði sem áttu sér stað eftir hrun. Andersenskjölin, Gjaldeyriseftirlitið og Afnám haftanna fjalla ágætlega um þá sögu.

Höfundur er ráðgjafi og ritstjóri Þjóðmála.

Bókadómurinn birtist í Viðskiptablaðinu 30.04.20 (17. tbl., 27. árg.)