Töluverður munur á skattastefnu nú og áður

Ungt fólk með meðaltekjur hefur það mun betra í dag en fyrir tíu árum, enda eru skattar á meðaltekjur lægri en þá.

Alla jafna fer ekki fram mikil umræða um tekjuskattskerfið, sem er auðvitað galli enda greiða flestir um 35-45% launa sinna í tekjuskatt og útsvar. Tekjuskattskerfið er þannig úr garði gert að flestir launamenn hafa litla tilfinningu fyrir því hversu mikið þeir greiða í skatta, enda fá þeir þær upphæðir aldrei í hendurnar heldur eru það launagreiðendur sem sjá um að greiða þá skatta.

Í þau fáu skipti sem rætt er af einhverju viti um tekjuskattskerfið á vettvangi stjórnmála litast sú umræða yfirleitt af átökum um það hversu hátt hlutfall skatta á að leggja á þá sem hæstar hafa tekjurnar – sem er þó aðeins lítill hluti þjóðfélagsins.

Annar stór galli við tekjuskattskerfið er að það er ekki einungis hannað til að afla hinu opinbera tekna fyrir nauðsynleg verkefni (sem ætti að vera eini tilgangur þess), heldur er það nýtt sem verkfæri stjórnmálamanna til að auka jöfnuð í samfélögum. Eins og sakir standa er enginn flokkur á Alþingi sem hefur það á stefnuskrá sinni að einfalda tekjuskattskerfið eða gera það sanngjarnt fyrir alla, ekki einu sinni Sjálfstæðisflokkurinn.

Vinstriflokkarnir skattpíndu millitekjuhópa

Þó ber að lofa það sem vel er gert. Í því samhengi þarf smá upprifjun á þróun síðustu ára. Fram til ársins 2009 var aðeins eitt skattþrep á tekjur manna. Tekjuskatturinn var þá um 35,7%, hafði farið lækkandi á árunum á undan.

Árið 2009 kynnti ríkisstjórn VG og Samfylkingar til sögunnar þrepaskipt skattkerfi. Fyrsta þrepið, sem áður var eina þrep tekjuskatts, var hækkað lítillega og til viðbótar voru tekin upp tvö þrep hátekjuskatts eins og það var kallað. Það að kalla það hátekjuskatt var þó ekkert annað en pólitísk brella, því allar tekjur á bilinu 230-650 þús. kr.1 féllu í neðra þrep hátekjuskatts og báru rétt rúmlega 40% skatt. Tekjur yfir 650 þús. kr. báru rúmlega 46% skatt í þriðja þrepi, eða efra þrepi hátekjuskatts.

Eins og áður hefur verið rifjað upp hér á síðum Þjóðmála voru heildarlaun fullvinnandi einstaklinga árið 2010 að meðaltali um 430 þús. kr. og helmingur launamanna var með laun undir 390 þús. kr. skv. tölum Hagstofunnar. Aðeins um 10% launamanna voru með laun undir 245 þús. kr., þannig að svo gott sem allur vinnumarkaðurinn greiddi skatta í hátekjuþrepi. Vinstriflokkarnir sem þá sátu í ríkisstjórn, Samfylkingin og Vinstri græn, lögðu því „hátekjuskatt“ á einstaklinga með og undir meðallaunum. Það er mikilvægt að muna það vel og lengi.

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem sat á árunum 2013-16, afnam neðra þrep hátekjuskattsins, en þó ekki fyrr en 2017. Efsta þrepið er enn óbreytt frá 2014 en raunlaun hafa hækkað og krónuviðmið tekna einnig hækkað á tímabilinu.

Sjálfstæðisflokkurinn lækkar skatta

Breytingar á skattkerfinu um síðustu áramót fólu meðal annars í sér að aftur var tekið upp þriggja þrepa skattkerfi. Ólíkt því sem áður var, þá var lögð áhersla á lækkun skatta á lægstu laun – líkt og samið var um við gerð Lífskjarasamninganna á síðasta ári.

Fram að áramótum báru öll laun upp að um 927 þús. kr. 36,94% tekjuskatt (22,5% tekjuskatt og 14,44% útsvar). Laun umfram 927 þús. kr. báru 46,24% skatt í tveggja þrepa skattkerfi. Um áramót bættist við nýtt þrep, sem í raun var skilgreint sem lægra 1. þrep og ber 35,04% tekjuskatt. Af einhverjum furðulegum ástæðum var 2. þrepið hækkað lítillega, eða í 37,19%, en þriðja og efsta þrepið er enn 46,24% en leggst nú á laun yfir um 946 þús. kr.

Almennt lækka skattgreiðslur einstaklinga á bilinu 5-6.500 kr. á mánuði.2 Sem hlutfall af mánaðartekjum er hlutfallið hæst hjá tekjulægri hópum (undir 400 þús. kr.), á bilinu 1,7-1,8% af mánaðartekjum. Allir hópar með laun yfir 300 þús. kr. á mánuði hafa því á bilinu 60-78 þús. kr. meira á milli handanna á ári hverju. Einhverjum kann að finnast það lág upphæð en fyrir marga skiptir sú upphæð verulegu máli.

Það verður að teljast hæpið að pólitískur vilji sé til þess að lækka efsta þrepið á næstunni. Næsta skref Bjarna Benediktssonar er þó vonandi það að lækka milliþrepið (2. þrep) enn frekar, enda mun það gagnast heimilum landsins hvað best.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá hvernig staðgreiðsluskattur, þ.e. tekjuskattur og útsvar, hefur þróast á þeim tveimur áratugum sem liðnir eru frá því að núverandi staðgreiðslukerfi var tekið upp. Sambærileg mynd hefur áður verið birt hér í Þjóðmálum. Hafa þarf í huga að innan þessa tímabils hafa einnig orðið breytingar, til dæmis árið 1997 þegar tekjuskattur lækkaði og útsvar hækkaði eftir að málefni grunnskóla voru flutt frá ríki til sveitarfélaga. Árið 2009 kynnti ríkisstjórn VG og Samfylkingar til sögunnar þrepaskipt skattkerfi. Allar tekjur á bilinu 230-650 þús. kr. féllu í neðra þrep hátekjuskatts og báru þannig um 40% skatt en það þrep var síðan afnumið af ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Nú er aftur búið að taka upp þriggja þrepa skattkerfi en 2. þrepið er hvergi nálægt því sem vinstristjórnin setti á. Í raun má segja að hér kristallist munurinn á skattastefnu Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Án þess að hika hækkuðu Vinstri græn skatta á meðaltekjur en Sjálfstæðisflokkurinn gerir það ekki.

Töluverður munur frá fyrri tíð

Nú þegar skattþrepin eru þó aftur orðin þrjú er hægt að bera saman muninn á því hvernig þrepin snerta launahópa með ólíkum hætti.

Sá sem hefur í dag 500 þús. kr. í mánaðarlaun greiðir nú rétt rúmlega sex þúsund krónum minna á mánuði í tekjuskatt en hann gerði í fyrra, eða um 72 þús. kr. á ári.

Háskattastefna fyrrnefndrar vinstristjórnar náði hámarki árið 2012 þegar tekjuskattur í 1. þrepi var 37,34% en skattur í 2. þrepi 40,24%. Sá sem hafði 500 þús. kr. í tekjur á mánuði árið 2012 greiddi þá meira í neðra þrep hátekjuskatts en hann gerði í fyrsta skattþrepi. Alls greiddi hann um 136 þús. kr. í tekjuskatt og útsvar að frádregnum persónuafslætti. Þá var skattprósentan hærri og viðmiðin á milli þrepa mun lægri en þau eru í dag.

Ein leið til að bera tekjuskattskerfið frá 2012 saman við kerfið í dag er að uppreikna 500 þús. kr. laun á verðlagi dagsins í dag, sem gerir þá um 612 þús. kr. Ef við uppreiknum um leið viðmiðin í fyrsta skattþrepi eins og það var í tíð vinstristjórnarinnar ásamt persónuafslætti3 myndi viðkomandi greiða í dag um 166 þús. kr. í tekjuskatt og útsvar að frádregnum persónuafslætti.4

Miðað við tekjuskattskerfið eins og það er byggt upp nú greiðir viðkomandi um 150 þús. kr., eða tæpum 16 þús. kr. minna. Það gera tæplega 190 þús. kr. á ári. Í þessu liggur munurinn á skattastefnu Sjálfstæðisflokksins annars vegar og vinstriflokkanna hins vegar.

Þetta einfalda dæmi segir að sjálfsögðu ekki alla söguna. Hærra framlag í séreignarsparnað hefur áhrif á skattgreiðslu ásamt öðrum þáttum. Tilgangurinn með þessu einfalda dæmi er eingöngu sá að sýna enn og aftur hvernig skattahækkanir vinstrimanna eru líklegar til að falla frekar á millitekjuhópa en aðra.

Það má gera ráð fyrir að þrepaskipt skattkerfi sé því miður búið að festa sig í sessi hér á landi. En fyrst svo er skiptir töluverðu máli hvernig skattþrepin eru afmörkuð og flokkuð eftir tekjuhópum. Það er bót í máli að núverandi skattkerfi hlífi þeim sem teljast til millitekjuhópa.

Rauða línan hér á myndinni sýnir hvernig greiðsla tekjuskatts til ríkisins hækkar samhliða hærri launum yfir 300 þús. kr. Til samanburðar má sjá gráu línuna sem miðar við tekjuskattsprósentuna frá 2019. Appelsínugula línan sýnir útsvarsgreiðslur til sveitarfélaga. Einstaklingur með um 300 þús. kr. í mánaðarlaun greiðir aðeins tæpar tvö þúsund kr. í tekjuskatt á mánuði (að frádregnum persónuafslætti) en um 41.500 kr. í útsvar. Sveitarfélögin fá alltaf sín 14,44% enda reiknast persónuafsláttur bara á tekjuskatt til ríkisins. Það er ekki fyrr en einstaklingur er kominn með um 825 þúsund krónur í mánaðarlaun sem viðkomandi greiðir hærri skatta til ríkisins.

Höfundur er ritstjóri Þjóðmála.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2020.
Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson
.

Skýringar:
1. Að núvirði væru þetta um 306-866 þús. kr.
2. Miðað við útreikninga þar sem einstaklingur greiðir 4% í lífeyrissjóð og 2% í séreignarsparnað.
3. Persónuafsláttur fylgir ekki verðlagi, hér er hann aðeins uppreiknaður frá árinu 2012 eins og aðrar tölur í dæminu.
4. Miðað er við 2% greiðslu í séreignarsparnað