Öld öfganna – Lenín, Hitler, Cohn-Bendit og langa tuttugasta öldin

Breski marxistinn og sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm (f. 1917 – d. 2012)

 

„Líkt og snerting okkar væri smitandi spillum við hlutum, sem eru í sjálfu sér lofsverðir og góðir: við tileinkum okkur dyggðir af svo miklu offorsi að þær snúast upp í andhverfu sína. Þeir sem halda því fram, að það séu aldrei neinar öfgar fólgnar í dyggðum, því að þær geti ekki verið dyggðir þegar þær hafa snúist upp í öfga, eru aðeins að leika sér að orðum.“

– Montaigne

 

Ensk forsíða bókarinnar Age of Extremes, sem kom út í íslenskri þýðingu undir heitinu Öld öfganna: Saga stuttu tuttugustu aldarinnar, 1914-1991.

Breski marxistinn og sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm kaus að kalla þriðja bindi mannkynssögu sinnar, sem kom út árið 1994, Öld öfganna: Saga stuttu tuttugustu aldarinnar, 1914-1991. Hobsbawm tímasetur þannig „stuttu“ tuttugustu öldina frá upphafi fyrri heimsstyrjaldar og til falls Sovétríkjanna árið 1991. Á sama hátt talaði Hobsbawm um „löngu“ nítjándu öldina, sem staðið hefði frá upphafi frönsku stjórnarbyltingarinnar árið 1789 til upphafs fyrri heimsstyrjaldar árið 1914. Þetta tímatal mótast þannig af þeim viðburðum sem mörkuðu upphaf þeirra. Það að tímabilið 1914-1991 hafi einkennst af öfgum þarf vart að skýra. Heimsstyrjaldirnar, rússneska byltingin og valdaskeið þjóðernissósíalismans í Þýskalandi, ásamt iðnvæddum stríðsrekstri, ollu eyðileggingu á áður óþekktum mælikvarða og voru uppspretta hörmunga sem eiga sér fá eða engin fordæmi í mannkynssögunni. Meginhugmynd greinar þessarar er hins vegar sú að þessi öld öfganna sé enn ekki liðin. Í stað „stuttrar“ tuttugustu aldar, sem tekið hafi enda þegar hamarinn og sigðin voru dregin af húni í hinsta sinn, sé hinn vestræni heimur þvert á móti enn í viðjum „langrar“ tuttugustu aldar, sem enn sér ekki fyrir endann á.

Ástæðan er sú að viðleitni eftirstríðsáranna til að endurreisa frjálslynt samfélag byggt á þjóðríkinu og almennri velferð strandaði í róttækum tilraunum til að umbylta þeirri samfélagsgerð. Ein þessara tilrauna var Evrópusamruninn, sem miðaði að því að gera þjóðríkið óþarft og virðist nú að miklu leyti hafa gengið sitt skeið á enda. Önnur var stúdentabyltingin, sem markaði hins vegar vendipunkt í sögu eftirstríðsáranna og varðaði leiðina inn í nýja tegund samfélags – póstmóderníska einstaklings­samfélagið og rökrétta afleiðu þess, fjölmenningar­samfélagið. Þessi nýja samfélagsgerð einkennist umfram allt af róttækri túlkun á sjálfs­forræði einstaklingsins, leitinni að fullkomnu jafnrétti og krossferð gegn meintum fordómum og mismunun. Samfélagsbreytingarnar hafa valdið fordæmalausu umróti í vestrænu samfélagi, því nýja samfélagsmódelið er rík uppspretta þversagna, sem munu líklega á endanum bera það ofurliði.

Aðdragandi „löngu“ tuttugustu aldarinnar og gullöld þjóðríkisins

Löngu áður en hið afdrifaríka ár 1914 rann upp var það orðið sannfæring margra að Vesturlönd væru í djúpri tilvistarkreppu. Upplýsingin hafði opnað leið Evrópu að þekkingu og þróun tækni og vísinda, sem olli stöðugum hagvexti og gerði Evrópuríkjunum kleift að tryggja þegnum sínum fordæmalausa velferð. En hún hafði líka grafið undan ákveðnum grunngildum evrópskrar menningar, ekki síst kristinni trú, sem verið hafði siðferðislegur grundvöllur evrópsks samfélags. Þessum nýja veruleika hafði Nietzsche lýst á dramatískan hátt sem „dauða Guðs“. Að sinni gat þó ekkert skekið trú Evrópubúa á sífellda framþróun. Sameining Þýskalands á síðari hluta nítjándu aldar raskaði hins vegar valdahlutföllum álfunnar þó að utanríkisstefnu Bismarcks tækist að halda friðinn. Eftir brotthvarf hans úr embætti leiddi aukin spenna í samskiptum Evrópuríkjanna og nýtt kerfi hernaðarbandalaga hins vegar til stríðsátaka.

Fátt tákngerir þann nýja veruleika sem Evrópa var að stíga inn í betur en ímynd óbreytta hermannsins, sem rís upp úr skotgröfum fyrri heimsstyrjaldar í áhlaupi að víggirtri varnarstöðu óvinarins, sem fyrir fram var dæmt til að mistakast. Þá hernaðartækni kallaði Foch marskálkur að „narta“ í vígstöðu andstæðingsins. Charles de Gaulle, þá liðsforingi í franska fótgönguliðinu, minntist þess enda að stríðið hefði ekki verið neitt í líkindum við það sem hann hafði ímyndað sér: hugrekki og mannkostir skiptu engu í þessum nýja heimi vélbyssunnar og sinnepsgassins. Tímarnir höfðu breyst frá því að þeir sem hneigðust til rómantisma höfðu talið ákjósanlegt að berjast og deyja fyrir göfugan málstað, líkt og Byron lávarður, sem féll í frelsisstríði Grikkja gegn Ottómönum. Vígvöllurinn við ána Somme, þar sem ein milljón manna lést eða særðist, virtist standa sem eins konar táknmynd um endalok evrópskrar siðmenningar.

Erfitt reyndist að endurreisa frjálslynda samfélagið eftir endalok fyrri heimsstyrjaldar, sem varð þess í stað fljótlega kreppunni miklu að bráð. Ofan á átök þjóðríkjanna bættust nú hugmyndafræðileg átök frjálslyndrar samfélagsgerðar vestrænu lýðræðisríkjanna og fasismans og kommúnismans. Valdataka þjóðernissósíalista í Þýskalandi árið 1932 virtist benda til þess að framtíðin tilheyrði hinum síðarnefndu. Í Sovétríkjunum treysti Stalín valdastöðu sína eftir dauða Leníns með hreinsunum sem kostuðu milljónir manna lífið. Bretland vildi helst ekki þurfa að blandast inn í hríðversnandi ástand á meginlandi Evrópu. Í Frakklandi ríkti hálfgert umsátursástand í skugga missættis kaþólikka og lýðveldissinna, sem torveldaði viðbrögð við brotum Þjóðverja á skilmálum friðarsamkomulagsins. Á sama tíma tryggðu frekari framfarir í iðnaði, tækni og vísindum að seinni heimsstyrjöldin yrði enn blóðugri en sú fyrri.

Byltingin gegn þjóðríkinu og vestrænni menningu

Það samfélagsmódel sem varð ofan á í Vestur-Evrópu eftir stríð byggðist á þjóðríkinu, blönduðu hagkerfi og uppbyggingu öflugs velferðarkerfis. Vaxandi velmegun einkenndi fyrstu tvo áratugina eftir stríð og í flestum ríkjum vestan járntjaldsins voru eftirstríðsárin tími mikils hagvaxtar og lítillar verðbólgu. Félagslegt traust innan ramma þjóðríkisins auðveldaði sátt um kaup og kjör og tryggði næga fjárfestingu til að viðhalda batnandi lífskjörum. Þegar komið var fram á miðjan sjöunda áratuginn fór þó að bera á ókyrrð á vinnumarkaði og undir yfirborðinu mátti greina hræringar, sem áttu eftir að sameinast í einni samfelldri uppreisn gegn ríkjandi þjóðskipulagi. Hér skal aðeins nefna þrjár þeirra: í fyrsta lagi var stúdentabyltingin; í öðru lagi réttindabarátta blökkumanna í Bandaríkjunum; og í þriðja lagi vaxandi áhrif póstmódernískrar heimspeki og afbyggingarskilaboða hennar. Að baki þessum fyrirbærum mátti í mismunandi ríkum mæli greina skugga Marx, endalok nýlendustefnunnar og hugmynda­fræðileg átök kalda stríðsins.

Stúdentabyltingin, sem braust upp á yfirborðið árið 1968 og breiddist hratt út um Vesturlönd, einkenndist umfram allt af andspyrnu gegn ríkjandi þjóðskipulagi, þó að þátttakendurnir virtust ekki alltaf alveg vissir hvers vegna eða í þágu hvers. Fyrir suma snerist byltingin aðallega um að vera á móti menningu og gildum eldri kynslóðarinnar. Aðalskotspónninn var þó markaðshagkerfið, borgarastéttin, neyslusamfélagið og hvers kyns yfirvald. Margir voru þó líka andvígir Sovétríkjunum og fylgdu Maó formanni og menningarbyltingu hans eða Fídel Kastró að málum. Í þeirri afstöðu birtist einn af meginstraumum hugmyndafræði stúdentabyltingarinnar, sem var eins konar þriðjaheimshyggja – eða Bandung-andi – samstaða með sjálfstæðisbaráttu undirokaðra þjóða gegn heimsvalda- og nýlendustefnu samfélags vestrænu borgarastéttarinnar eins og hún var talin birtast í stríðinu í Víetnam.

Hugmyndafræði byltingarinnar nærðist af póstmódernískri heimspeki, sem átti sér uppruna í fyrirlestrum Kojèves um Hegel í París, þaðan sem hún barst eins og eldur í sinu um öll Vesturlönd. Í henni blandaðist þýsk heimspekihefð sálgreiningar­tækni Freuds og Jungs í endalausum og lítt skiljanlegum bollaleggingum um „sjálfsverur“, „hlutverur“, „firringu“ og „neind“. Líkt og Roquentin, hetjunni í skáldsögu Sartres, Ógleðinni, var hún róttæklingum hvatning til að losa sig út úr „firringu“ neyslusamfélagsins og tileinka sig leitinni að hinu „raunverulega sjálfi“. Það mætti finna í verðugu málefni, sem virtist auðfundið í sannfæringu stúdentabyltingarinnar um að borgaraleg menning Vesturlanda einkenndist af djúpstæðu óréttlæti. Eina lausnin væri stéttabarátta og bylting, enda sannfæring póstmódernismans – líkt og Marxismans – að öll gildi og menning væru bara birtingarmynd ríkjandi hagsmuna.

Róttæklingar sáu réttindabaráttu blökkumanna í gegnum linsu þessarar hugmyndafræði og litu á hana sem bandamann í baráttunni fyrir nýju samfélagi. Hún var þó sumpart af nokkuð öðrum meiði, því þrátt fyrir að hafa innan sinna raða minnihluta róttæklinga, eins og Angelu Davis og Malcolm X, miðaði hún fyrst og fremst að fullri þátttöku blökkumanna í hinu borgaralega samfélagi, ekki umbyltingu þess og niðurrifi eins og stúdentabyltingin virtist gera. Talsmenn hennar, ekki síst Martin Luther King, urðu þó róttækari eftir því sem leið á sjöunda áratuginn og tíðarandinn gaf tilefni til. Þessar tvær hreyfingar mynduðu því eins konar bandalag í krafti andstöðu beggja við ríkjandi ástand.

Lykillinn að því að skilja áhrif stúdentabyltingarinnar á samfélagið liggur í samspili tveggja af meginstefjum hennar. Annað var hugmyndin um einhvers konar „algjöra frelsun“ í formi óskoraðs sjálfsforræðis einstaklingsins. Þessa afstaða byggðist á frekar róttækri hugmynd um frelsi –  „jákvæðu“ frelsi – í ætt við það sem Kant hafði þróað í verkinu Grundvelli að frumspeki siðferðisins. „Jákvætt“ frelsi þýddi í stuttu máli algjört sjálfsforræði einstaklingsins og óskorað frelsi hans til að velja sjálfur, umfram allt eigin tilgang. Til samanburðar fólst algengari skilgreiningin á frelsi,  „neikvæðu“ frelsi, fyrst og fremst í frelsi frá eigin löngunum og hvötum annarra. Þessi óvenju víði skilningur á hvað fælist í frelsi lá meðal annars að baki andstöðunni gegn hvers kyns valdboði og stigveldi, ekki síst því sem fælist í meintri hulinni „menningarlegri skilyrðingu“ samfélags borgarastéttarinnar og gildum hennar.

Hitt meginstefið var róttæk höfnun á borgaralegri menningu Vesturlanda, bæði frá sjónarhóli hefðbundinnar marxískrar stéttabaráttu og á þeirri forsendu að hún hefði öldum saman undirokað varnarlausar þjóðir þriðja heimsins. Skrif geðlæknis frá Karíbahafseyjunni Martinique að nafni Frantz Fanon höfðu hér mikil áhrif. Í verkunum Svört andlit, hvítar grímur og Hinir fordæmdu, sem komu út á árunum 1952 og 1961, lýsti Fanon þannig því mannskemmandi óréttlæti sem fælist í hinum tvískipta heimi nýlendusamfélagsins. Lausnin væri að umbylta þjóðskipulagi þess með valdi og reka Evrópubúa á brott. Fanon hafði vissulega eitt og annað til síns máls en róttæklingarnir í Berkeley og Latínuhverfinu gengu samt of langt í þeim ályktunum sem þeir drógu af skrifum hans. Þeir sáu í hinum innfæddu íbúum nýlendanna hinn friðsama og göfuga villimann Rousseaus og í nýlendustefnunni, sem Víetnamstríðið væri aðeins nýjasta dæmið um, sönnun þess að vestræn menning væri gjörspillt af ójafnrétti og kynþáttahyggju.

Enginn vafi er á að árekstur Evrópu og annarra menningarheima, sem hófst með siglingum Portúgala á fimmtándu öld, hafði oft sorglegar afleiðingar. Þannig fórst stór hluti innfæddra íbúa Nýja heimsins á áratugunum eftir að Evrópubúar stigu þar fyrst á land, langmest úr innfluttum sjúkdómum. Stórbrotin menningar­samfélög Azteka og Inka og veiðimanna­samfélög Norður-Ameríku liðu undir lok. Firra róttæklinganna var hins vegar sú að endurtúlka alla söguna í ljósi samtímans og sjá illan ásetning í öllu. Staðreyndin var sú að auk óprúttinna ævintýramanna voru margir sem héldu af stað frá Evrópu sannfærðir um að þeir væru að færa innfæddum blessun siðmenningarinnar. Róttæklingunum yfirsást líka sú staðreynd að bæði keisarinn og páfinn, æðstu yfirvöld í Evrópu, höfðu ítrekað fordæmt illa meðferð innfæddra og gert ýmislegt til að að vernda hagsmuni þeirra. En árekstur menningarheimanna var afleiðing af iðnbyltingunni og hnattvæðingunni, ópersónulegum öflum sem enginn gat haft fulla stjórn á.

Jafnréttisiðnaðurinn verður til

Staða blökkumanna í Ameríku var ein arfleifð þessarar sömu hnattvæðingar. Þegar þrælaverslunin komst á almennt vitorð í lok átjándu og byrjun nítjándu aldar höfðu Evrópuríkin þó raunar fljótt lagt algjört bann við henni. Flestir landsfeður Bandaríkjanna voru líka fullmeðvitaðir um að frelsisyfirlýsingin og stjórnarskráin, sem samdar voru undir áhrifum frá Locke, fælu það ótvírætt í sér að staða blökkumanna í hinu nýja lýðveldi gæti ekki staðist til lengdar. Innflutningur nýrra þræla var enda bannaður með lögum árið 1807, um leið og stjórnarskráin leyfði. Staða þrælanna varð svo tilefni borgarastríðs, sem varð til þess að Lincoln forseti lýsti yfir frelsun þeirra árið 1863. Þetta segir ýmislegt um siðferðistilfinningu Vesturlanda á meðan þrælahald tíðkast enn sums staðar í heiminum, ekki síst Mið-Austurlöndum og Afríku. Í Suðurríkjunum leið þó langur tími án þess að blökkumenn fengju að njóta þess jafnréttis fyrir lögum sem þeir nutu nú á pappírnum.

Kjör Johns F. Kennedy í embætti forseta árið 1960 vakti væntingar um að alríkisstjórnin léti meira til sín taka til að þrýsta á um umbætur í Suðrinu. Árið 1963 sendi stjórn hans enda Bandaríkjaþingi frumvarp að eins konar jafnréttislögum, sem bönnuðu mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, kyns og þjóðernisuppruna. Lögin mættu hins vegar andstöðu í þinginu á þeim grundvelli að þau brytu gegn stjórnarskrárvörðum rétti einkaaðila til að haga málefnum sínum eins og þeim sýndist réttast. Sú sorg og geðshræring sem fylgdi morðinu á Kennedy í nóvember árið 1963 átti hins vegar ríkan þátt í því að eftirmanni hans í embætti, Lyndon Johnson, tókst að koma lögunum í gegnum þingið. Eins og Johnson orðaði það í ræðu frammi fyrir báðum deildum þingsins gæti „engin minningar- eða lofræða betur heiðrað minningu Kennedys forseta en skjót setning laganna sem hann barðist svo lengi fyrir“. Með setningu laganna myndi þingið tryggja arfleifð hins fallna forseta.

En eins og Christopher Caldwell rekur í bók sinni, Öld réttindanna, áttuðu ekki allir sig fyllilega á því hvað þeir voru að styðja. Því þó að ríkur stuðningur væri við lagalegt jafnrétti blökkumanna höfðu lögin mun víðtækari afleiðingar. Bann við „mismunun“ hljómar auðvitað eins og sjálfsagt réttlætismál, sem allir geta verið sammála um. En lögin vöktu í raun áleitnar spurningar um það hvar eðlileg mörk milli opinbers valds og frjálsrar ákvarðanatöku einkaaðila ættu að liggja. Einn meginvandinn var sá hver ætti að meta hvort um væri að ræða ólöglega mismunun, með hvaða hætti og á hvaða forsendum. Afleiðingin var sú að leggja til hliðar grundvallarreglu frjálslynds samfélags um aðskilnað ríkisins og hins borgaralega samfélags. Það var einmitt á þeim forsendum sem margir lögðust gegn setningu laganna. Einn þeirra var heimspekingurinn Leo Strauss, sem var sjálfur flóttamaður frá Þýskalandi þjóðernis­sósíalismans og þekkti vel þá mismunun sem gyðingar höfðu þurft að þola í gegnum tíðina, en taldi þó að sú opinbera valdbeiting sem nauðsynleg yrði til að framfylgja lögunum myndi ganga of nærri hinu frjálslynda samfélagi.

Framlag háskólasamfélagsins til þessarar umræðu var svo það að búa til ýmiss konar hæpin vísindi, sem skiptu öllum einstaklingum í hópa eftir kyni, húðlit og öðrum ytri einkennum og hófu að greina samfélagið byggt á þeirri hæpnu forsendu að hlutfall mismunandi hópa hlyti alls staðar að eiga að vera í samræmi við hlutfallslegan fjölda hvers hóps í samfélaginu í heild. Annað væri prima facie sönnun um ólöglega mismunun. Sú orðræða sem af þessu hlaust átti eftir að lama háskólana, sem urðu fórnarlömb eins konar varanlegra nornaveiða sem minntu óþægilega á kínversku menningar­byltinguna. Í stað þess að líta á ytri einkenni sem ómálefnalegan grundvöll að ákvarðanatöku og byggja útdeilingu gæða á verðleikum óháð slíkum einkennum fóru þau að skipta öllu máli. Hópar sem fóru halloka út úr þessu kerfi fóru að gæta hagsmuna sinna á grundvelli þeirra ytri einkenna sem kerfið úthlutaði þeim. Þannig hófu gyðingar og Bandaríkjamenn af asískum uppruna að mótmæla þeirri neikvæðu mismunun sem þeir urðu fyrir við inngöngu í háskóla vegna nauðsynjar þess að tryggja „fjölbreytileika“. Baráttan gegn meintu ójafnrétti, fordómum og mismunun varð jafnframt að ábatasömum iðnaði, sem gat af sér öfluga hagsmunagæslu, eins og oftast fylgir slíkum iðnaði, enda um óþrjótandi auðlind að ræða.

Jafnréttislögin og önnur tengd lög voru líka dýru verði keypt enda kölluðu þau á stóraukin fjárútlát hins opinbera, sem ásamt vaxandi kostnaði við stríðsrekstur í Víetnam ollu viðvarandi fjárlagahalla og verðbólgu. Ótti fyrirtækja við lögsóknir á grundvelli hinnar nýju ­löggjafar varð svo megin­drifkrafturinn á bak við vöxt þess sem kallað hefur verið „dyggðaflöggun“, sem spratt upp úr viðleitni fyrirtækja til að bólusetja sig gegn lögsóknum byggðum á ásökunum um fordóma og mismunun með því að reyna að sýna með virkum og fyrirbyggjandi hætti fram á einlæga trú sína á hið nýja jafnréttisguðspjall eins og það var túlkað af róttæklingum í háskólasamfélaginu. Lögin gerðu líka að mörgu leyti líka illt verra í samskiptum hvíta meirihlutans og svarta minnihlutans. Enda skiptust leiðtogar blökkumanna upp frá því milli þeirra sem vildu taka þátt í samfélaginu á sama grundvelli og aðrir og hinna sem kröfðust stöðugt fleiri sérúrræða og vildu kenna hvítum um allt sem miður fór.

Þegar á leið áttunda og níunda áratuginn og róttæklingar höfðu komið sér fyrir í stjórnmálum og menningu hins vestræna heims fór arfleifð sjöunda áratugarins að kristallast í alveg nýju samfélagsmódeli, sem kalla má „einstaklings­samfélagið“. Það byggðist á róttækri afstæðishyggju, þar sem sjálfsforræði einstaklingsins var heilagt og hvers kyns „menningarleg skilyrðing“ bönnuð. Þannig væri þjóðin bara „ímyndað samfélag“, eins og Benedict Anderson kaus að lýsa því í samnefndri bók sinni, sem kom út árið 1983. Menning þyrfti því að fara sömu leið og trúarbrögð; ríkið hefði enga sérstaka menningu að verja og setja þyrfti á fót eins konar hlutlausan stofnanaramma, þar sem engri menningu yrði gert hærra undir höfði en öðrum. Miðlun hvers kyns viðmiða, þar á meðal í tengslum við uppeldi barna, varð óæskilegt brot á sjálfsforræði einstaklingsins. „Aðskilnaður ríkis og þjóðar“ væri rökrétt framhald í framþróun mannkynsins, nauðsynlegt skref til þess að „alls konar“ gæti dafnað í samræmi við leit einstaklingsins að „algjörri frelsun“ og „ósvikinni sjálfstjáningu“.

Mannréttindi – réttarríkið gegn hinu pólitíska valdi

Í öllu þessu fólst veruleg breyting frá samfélagsmódeli þjóðríkisins. Því sem afrakstur byltingar skilgreindi nýja samfélagið sig auðvitað í biturri andstöðu við það sem á undan kom: gamla samfélagið var lóðrétt, hin nýja lárétt, byggt á samskiptum og markaðnum; gamla samfélagið var hálfopið – takmarkað við þjóðina – en nýja samfélagið opið öllum; gamla samfélagið hafði eigin sögu og menningu að miðla og verja en nýja samfélagið ekki – hugmyndafræði þess var róttæk afstæðishyggja þar sem ekkert var réttara, betra eða verra en hvað annað. Mikilvægasta gildið var fjölbreytileikinn; umburðarlyndi og varanleg barátta gegn hvers kyns „fordómum“ og „mismunun“ helsta viðfangsefnið. Eina viðurkennda trúarsetningin: mannréttindin.

Mannréttindi voru þó ekki uppfinning róttæklinganna frá 1968. Eins og sagnfræðingurinn Mark Mazower hefur lýst voru þau að verulegu leyti viðbrögð eftirstríðsáranna við alræðis­stjórnarfari hins sigraða þjóðernis­sósíalisma, þar sem allt hafði þurft að víkja gegn alltumlykjandi valdi ríkisins. Hvað Vesturlönd varðaði voru þær áherslur sem birtust meðal annars í stofnsáttmála og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og síðar í mannréttindasáttmála Evrópu þannig leið til að undirstrika hefðbundna stjórnmála­arfleifð Vesturlanda, sem byggðist á hugmyndinni um takmarkað vald, réttarríkið og aðskilnaðinn milli ríkisins og hins borgaralega samfélags. Mannréttindi voru líka nýr merkimiði yfir réttindi þjóðernisminnihluta, sem Þjóðabandalagi millistríðsáranna hafði verið falið að vernda. Megintilgangur mannréttinda var þannig að endurreisa frjálslynda stjórnmála­menningu Vesturlanda, byggða á eldri hefð náttúruréttarins.

Í kjölfar stúdentabyltingarinnar fór mannréttindaorðræðan hins vegar að blandast inn í þá almennu og varanlegu uppreisn gegn yfirvaldi og ríkjandi þjóðskipulagi sem einkenndi sjöunda og áttunda áratuginn. Þær urðu að eins konar áróðurstæki í „róttæku menningarbyltingunni“, beint ýmist gegn markaðshagkerfinu og hvers kyns ójafnri skiptingu gæða; frjálslyndu þjóðskipulagi, í þágu „fórnarlambafræða“ akademíunnar og þeirra aðgerða sem þau fræði töldu nauðsynleg til að ná fram „algjöru jafnrétti;“ en þó mest af öllu í þágu ótakmarkaðs sjálfsforræðis einstaklingsins og leitar hans að algjörri frelsun og ósvikinni sjálfstjáningu – eða hugmyndarinnar um „jákvætt frelsi“. Í meðförum róttæklinga vildi uppruni mannréttinda­hugtaksins því gleymast og það breytti að miklu leyti um merkingu. Mannréttindi urðu eiginlega bara annað orð yfir hugmyndafræði stúdentabyltingarinnar.

Þessi breytta áhersla hafði þó ákveðna hugmyndafræðilega erfiðleika í för með sér. Þannig taldi stúdentabyltingin allt vald jafngilda kúgun, en hún áttaði sig ekki á því að í hobbesískum heimi eru mannréttindi þýðingarlaus, enda ekkert skipulagt vald til að veita þeim gildi. Það er aðeins eftir að hið pólitíska samfélag verður til að hægt er að tala um mannréttindi, því aðeins vald – takmarkað vald – getur tryggt þau. Og það var einmitt á Vesturlöndum, í samspili kristinnar trúar, grískrar heimspeki og rómverskra laga – í Jerúsalem, Aþenu og Róm; í  átökunum milli andlegs og veraldlegs valds; í tilvist fornrar lagahefðar, sem höfðingjar Vestur-Evrópu töldu sig bundna af; sem slíkt vald þróaðist og mannréttindi urðu til. Þau eru raunar eitt helsta pólitíska afrek vestrænnar siðmenningar, þeirrar hinnar sömu og sumir háværustu talsmanna þeirra í nútímanum reyna hvað harðast að jaðarsetja. Þannig hafa mannréttindi sjaldan þrifist utan Vesturlanda: ríki múslima hafa um þau allt aðra hugmynd, enda viðurkennir íslam alls ekki regluna um takmarkað vald, sem er þó grunnforsenda þess að mannréttindi í vestrænum skilningi orðsins geti þrifist; ekki frekar en Kína keisaraveldisins eða kommúnista­flokksins; og svo mætti áfram telja.

Takmarkað vald byggir á grunnreglu stjórnmálamenningar Vesturlanda, sem er meirihlutaræði ásamt vernd ákveðinna réttinda minnihlutans. Það var í krafti þeirrar reglu sem hið frjálsa og fullvalda pólitíska samfélag bjó til mannréttindahugtakið. Stúdentabyltingin krafðist hins vegar óskoraðs sjálfsforræðis einstaklingsins og lagðist gegn hvers kyns „menningarlegri innrætingu“ – og þar með hvers konar miðlun uppsafnaðrar visku í formi gilda og hefða vestrænnar menningar, sem róttæklingar litu hvort sem er á sem spillta af langri sögu undirokunar, fordóma og mismununar. Í stað þess að líta svo á að besta leiðin til að vernda mannréttindi væri að hlúa að þeirri klassísku stjórnmálahefð og menningararfi Vesturlanda sem gerði mannréttindi möguleg yrði þvert á móti að jaðarsetja þá menningu í nafni menningar­relatívisma og abstrakt réttinda. Rökrétt afleiðing var sú að meirihlutavaldið þyrfti að víkja fyrir sérhverjum eins manns minnihluta.

Samkvæmt þessari nýju túlkun var sjálfsforræði einstaklingsins nánast ótakmarkað og réttlætti hvaða takmarkanir sem var á valdi meirihlutans. Í málinu Lautsi g. Ítalíu úrskurðaði Mannréttindadómstóll Evrópu þannig, í allri sinni meintu visku, að ítalska ríkinu væri óheimilt að hafa kristslíkneski hangandi í opinberum byggingum. Ef dómstóllinn hefði verið til á fjórðu öld e.K. má þannig gera ráð fyrir því að kristin trú hefði aldrei orðið að opinberum trúarbrögðum rómverska heimsveldisins og orðið þannig grundvöllur að þeim menningararfi sem mannréttinda­hugtakið sjálft byggir á. Dómstóllinn afhjúpaði þannig tilhneigingu sína til að túlka mannréttindi á hátt sem fæstir þeirra sem áttu þátt í umræðu um mannréttindi eftir stríð hefðu getað tekið undir. Þó að yfirdeild dómstólsins hafi tekist að afstýra skipbroti með því að snúa dómnum við nokkrum árum síðar er sú staðreynd að slíkur dómur hafi yfirhöfuð verið felldur umtalsverður álitshnekkir fyrir dómstólinn, sem gefur tilefni til að draga dómgreind hans verulega í efa.

Loks varð það tilhneiging nýja samfélagsins að teygja mannréttindahugtakið og láta sem hvers konar réttindi væru mannréttindi. En réttindi eins eru skylda annars og það er einmitt eitt meginhlutverk stjórnmálanna að ákvarða réttindi og skyldur hvers og eins og og veita þeim gildi að teknu tilliti til efna og aðstæðna. Það hlutverk skreppur saman í jöfnu hlutfalli við þá hugmynd að öll réttindi séu gripin úr loftinu og gangi framar og ofar hinu pólitíska, sem eigi ekki að hafa annað hlutverk en það að ákveða hvernig, en ekki hvort, eigi að veita þeim gildi. Ef slík orðræða er tekin alvarlega er afleiðingin sú að ríkið, sem verkfæri sameiginlegs vilja hins frjálsa, pólitíska samfélags, breytist í eins konar afgreiðslustofnun fyrir hin ýmsu réttindi einstaklinga. Þegar svo er komið er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að fela yfirþjóðlegum stofnunum og sérfræðingum þeirra þá umsýslu, enda þjóðríkið svo gott sem óþarft þegar það hefur verið tæmt af bæði menningarlegu innihaldi og pólitísku ákvörðunarvaldi.

Frá einstakling­samfélaginu í fjölmenninguna

Fjölmenningar­­samfélagið er í grunninn bara alþjóðavæðing vestræna einstaklings­samfélagsins, afsprengis stúdenta­byltingarinnar. Það byggir á kröfu hinnar síðarnefndu um ótakmarkað sjálfsforræði einstaklingsins og fordæmingu hennar á vestrænni menningu. Þar sem nýja samfélagið hefur enga sérstaka menningu að verja er það öllum opið og telur ekkert því til fyrirstöðu að einstaklingar af ólíkum menningaruppruna lifi saman, sem einstaklingar, í sátt og samlyndi, í ótakmörkuðum fjölbreytileika sínum. Sú sýn er í samræmi við skilgreiningu framfarahyggjunnar á rökréttri þróun sögunnar. En það má allt eins túlka fjölmenningar­samfélagið sem skref til baka; sem afturhvarf frá þjóðríkinu og til baka til þess tíma áður en þjóðir höfðu kristallast úr íbúum Evrópu fyrir tilstilli hinna ýmsu pólitísku yfirvalda.

Þannig eru fjölmenningarsamfélög auðvitað ekki ný af nálinni þó að Evrópubúar hafi enduruppgötvað meint ágæti þeirra á undanförnum áratugum. Mörg af ríkjum Afríku sunnan Sahara-eyðimerkurinnar eru fjölmenningarríki og fá jafn fjölbreytt og Lýðveldið Kongó, eitt fátækasta ríki heims. Í Malí og fleiri ríkjum Vestur-Afríku, þar sem eyðimörkin og hitabeltisgresjan mætast og finna má mikinn fjölda þjóðarbrota, trúarbragða og ólíkra menningarheima, ríkir víða upplausnarástand og óöld. Þó að eflaust sé erfitt að benda á eitthvað eitt sem stendur í vegi fyrir að þessi ríki nái að tryggja íbúum sínum batnandi lífskjör er ein meginástæðan án efa sú að um er að ræða ríki án þjóðar, sem eiga í erfiðleikum með að skapa næga samheldni til að geta skipulagt sig og tekið sér á hendur þau sameiginlegu verkefni sem lagt gætu grunninn að viðvarandi hagvexti. Því eins og bandaríski félagsfræðingurinn Robert Putnam hefur sýnt fram á er neikvætt samband milli samfélagslegrar samheldni og fjölbreytileika. Félagsauður byggir með öðrum orðum á sameiginlegum einkennum, gildum og menningu.

Eitt er þó nýtt; sú róttæka afstæðishyggja sem einkennir vestræna einstaklings­samfélagið er einsdæmi í heiminum. Iðnvæddar Asíuþjóðir hafa ekki fetað sömu braut; Japanir og Suður-Kóreumenn halda í heiðri sína eigin menningu og hafa forðast að taka við miklum fjölda innflytjenda. Kínverjar vinna kerfisbundið að hagsmunum Han-meirihlutans og treysta tök sín á Nýju landsvæðunum og í Tíbet. Í ríkjum múslima virðist ekki ríkja vafi um það hvaða menning ræður ríkjum. Þannig er bann Múhameðs spámanns við því að trúleysingjar hafi búsetu í nágrenni Mekka og Medína enn í gildi og ekki má byggja kirkjur í hinu heilaga landi íslams. Undir forystu Erdogans forseta hefur Tyrkland unnið ötullega að hagsmunum íslamskrar trúar og tyrkneskrar þjóðar, þar á meðal tyrknesku díasporunnar í Vestur-Evrópu. Öll þessi ríki virðast gera sér skýra grein fyrir eigin hagsmunum. Það er aðeins evrópska einstaklings- og fjölmenningar­­samfélagið sem áttar sig ekki lengur á því fyrir hvað það stendur og á þar með erfitt með að fóta sig í heiminum.

Í þessu sambandi er áhugavert að huga að erindi sem Pierre Brochand, fyrrverandi sendiherra og yfirmaður frönsku leyniþjónustunnar, DGSE, hélt á málþingi um málefni innflytjenda í Res Publica-hugveitunni í París síðasta sumar. Brochand greinir milli tveggja mismunandi söguþráða, annars vegar söguþráðar framfarahyggjunnar, sem ímyndar sér að rökrétt þróun sögunnar felist í stigvaxandi breytingu samfélagsins úr samfélagsgerð sem einkennist af samheldni, einsleitni og innhverfu yfir í samfélagsgerð sem einkennist af sívaxandi frelsi, jafnrétti og úthverfu. Þannig þróist samfélagið úr hinum lokuðu náttúrulegu samfélögum ættbálka og fjölskyldutengsla yfir í hið hálfopna samfélag þjóðríkisins og þaðan í opna einstaklings­samfélagið. Hver ný samfélagsgerð verði til úr þversögnum hinnar fyrri og skilgreini sig í andstöðu við hana en nái þó aldrei að þurrka hana alveg út. Þó að þær komi hvor á eftir annarri í tíma rekist þær þannig á í rúmi. Það séu þessi átök þeirra sem skilgreini hinn söguþráðinn, sem hann kallar „söguþráð atburða“. Því meira sem mismunandi samfélagsgerðir blandist á ákveðnum stað og tíma, þeim mun meiri tilhneigingu hafi þær til að valda átökum. Söguþráður framfarahyggjunnar rekist sífellt á við raunveruleikann í söguþræði atburða.

Sú bylgja fólksflutninga frá þriðja heiminum til Evrópu sem hófst á áttunda áratugnum hófst einmitt á sama tíma og umskiptin frá þjóðríkinu yfir í einstaklingssamfélagið áttu sér stað. Þetta þýddi að verið var að hverfa frá þeirri ströngu aðlögunarstefnu sem rekin hafði verið víða í Evrópu. Í staðinn kom hugmyndin um ótakmarkað sjálfsforræði einstaklingsins og upphafning fjölbreytileikans, enda tilhugsunin um hvers konar valdboð og takmörk á sjálfsforræði einstaklingsins – hvað þá í nafni spilltrar vestrænnar menningar – nýja samfélaginu óbærileg. Sem dæmi um hversu mikil stefnubreytingin var má nefna að af þeim þremur milljónum Ítala sem fluttu til Frakklands á tímum þriðja lýðveldisins (1870-1940) sendu frönsk stjórnvöld um tvær milljónir til baka á þeirri forsendu að þær væru ekki nægilega líklegar til að aðlagast samfélaginu.

En þversögnin er einmitt sú að í stað þess að tileinka sér lífsmáta einstaklings- og fjölmenningar­samfélagsins endurskapa innflytjendur bara ýmiss konar náttúruleg samfélög byggð á fjölskyldu- og ættartengslum, sameiginlegum menningareinkennum og tryggð við upprunaríkið. Þetta birtist með ýmsum hætti, ekki síst í tilhneigingunni til að giftast innan samfélagsins og þeirri áherslu sem lögð er á að læra tungu og menningu upprunaríkjanna. Innflytjendur deila sem sagt upp til hópa alls ekki róttækri afstæðishyggju einstaklings­samfélagsins og lifa ekkert sem einstaklingar, eins og hugmyndafræði þess gerir ráð fyrir, heldur sem hópar sem „mismuna“ á sama hátt og meirihlutanum er sífellt brigslað um að gera. Í tilfelli Frakklands flækir það að auki málið að margir innflytjendur koma frá fyrrverandi nýlendunum, sem rekja sjálfsmynd sína að miklu leyti til sjálfstæðis­baráttunnar gegn Frakklandi. Tilhneigingin hefur verið sú að slík samfélög taki yfir úthverfi stórborga, þar sem öðrum er ýtt út og völdin tekin af stofnunum gistiríkisins. Þannig stenst sú forsenda fjölmenningar­­samfélagsins að allir lifi sem einstaklingar og blandist á grundvelli jafnréttis og virðingar fyrir fjölbreytileikanum alls ekki í raunveruleikanum. En hagsmunir einstaklings­samfélagsins og frumstæða samfélagsins fara hlutlægt saman gegn hagsmunum þjóðríkisins, sem hefur þurft að víkja í bandalagi hinna tveggja samfélags­­gerðanna gegn því.

Brochand telur nýja samfélagið hins vegar afar brothætt og líkir því raunar við „postulínsverslun, sem stendur við gatnamót þar sem fílar eiga gjarnan leið um“. Gott dæmi um þetta er óeirðirnar sem brutust út í úthverfum ýmissa franskra borga árið 2005 og ollu víðtækum eignaspjöllum. Þá eins og oftar voru viðbrögð talsmanna fjölmenningar­­samfélagsins þau að bera í bætifláka fyrir skemmdarvargana og skella skuldinni á gistiríkið. Staða innflytjenda væri einungis afleiðing kerfisbundinnar mismununar og fordóma í garð þeirra af hálfu innfæddra, sem ekki væru tilbúnir að tileinka sér gildismat einstaklingssamfélagsins og ákall þess um jafnrétti og fordómaleysi. Lausnin væri sú að veita enn meira opinberu fé í ýmiss konar áætlanir og „jákvæða“ mismunun. En það verður sífellt augljósara að vandinn á sér miklu dýpri rætur og að óeirðirnar og sú vaxandi óreiða sem einkennir ýmis ríki Evrópu endurspeglar í raun skipbrot þessarar samfélagsgerðar.

Þrátt fyrir það ríkir djúpstæð tregða til að ímynda sér hvers konar stefnubreytingu í málefnum innflytjenda. Franski heimspekingurinn Pascal Bruckner hefur túlkað þessa tregðu sem eins konar tilbeiðslu fórnarlambsins – í formi innflytjandans og flóttamannsins – og tilraun til syndaaflausnar vegna meintra glæpa Evrópu gegn þriðja heiminum. Greining Brochands á átökum mismunandi samfélagsgerða gefur okkur einnig tilefni til annarrar túlkunar. Því hvað lærisveina stúdentabyltingarinnar varðar er helsta dyggð innflytjandans einmitt sú að hann er ekki fulltrúi hinnar spilltu menningararfleifðar Vesturlanda og er þannig hlutlægt séð bandamaður í baráttu nýja samfélagsins gegn fyrirrennara sínum. Viðurkenning á nauðsyn þess að breyta um stefnu í málefnum innflytjenda mundi ipso facto draga hugmyndafræðilegan grundvöll fjölmenningar­samfélagsins – og þar með alla arfleifð og hugmyndafræði stúdenta­byltingarinnar – í efa.

Frantz Fanon hélt því réttilega fram að árekstur mismunandi menningarheima hefði leitt til undirokunar annars af hálfu hins. Hugmyndafræðilegum arftökum hans láðist hins vegar að draga rétta ályktun af þeirri staðreynd. Því öll saga hnattvæðingarinnar frá því að fyrstu landkönnuðirnir lögðu upp frá Portúgal á fimmtándu öld er í raun ein samfelld kennslustund í erfiðri sambúð ólíkra menningarheima. Rökrétta lausnin, eins og Fanon barðist sjálfur fyrir, var aðskilnaður, enda varð raunin sú eftir því sem leið á eftirstríðsárin að Evrópubúar hurfu á brott og hver nýlendan á fætur annarri varð að sjálfstæðu ríki. Þess vegna var undarlegt að margir skyldu komast að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri og raunar siðferðislega nauðsynlegt, að gera evrópsk samfélög að fjölmenningar­samfélögum – eða eins konar öfugum nýlendum – sem var einmitt það sem olli þeirri stöðu í nýlendunum sem þeir fordæmdu.

Samfélag hinna ótal þversagna

Nýja samfélagið er þannig bara nýjasta útgáfan af þeirri útópísku tilrauna­starfsemi sem einkennt hefur löngu tuttugustu öldina. Viðbrögðin við alræðisstjórnarfari fasismans stökkbreyttust í hugmyndafræði stúdentabyltingarinnar, sem predikaði algjöra frelsun gegn hvers kyns yfirvaldi, hefðum og siðum og gat engar hömlur þolað á einstaklinginn og leit hans að hinu „raunverulega sjálfi“. Ásamt bollaleggingum póstmódernista vörðuðu þau leiðina inn á braut menningar­relatívisma og skiptingu samfélagsins á grundvelli kyns, uppruna og húðlitar í hópa „forréttindafólks“ og „fórnarlamba“. Misjöfn skipting slíkra hópa á mismunandi sviðum samfélagsins hlyti að vera sönnun um „kerfislæga mismunun“, sem væri viðfangsefni hins opinbera að uppræta með „kvótum“ og öðrum íþyngjandi aðgerðum. Mannréttindi, sem eftirstríðsárin höfðu hugsað sem endurreisn frjálslyndrar samfélagsgerðar, urðu þess í stað að trúarbrögðum sem beitt var gegn grunnstoðum þeirrar samfélagsgerðar sem var í sífellt ríkari mæli fórnað á altari krossferðarinnar gegn „fordómum“ í þágu „róttæku menningar­byltingarinnar“ og baráttunnar fyrir „fullkomnu jafnrétti“.

Hið hálfopna samfélag þjóðríkisins, sem auðveldaði samvinnu og samheldni þvert á fjölskyldu- og ættartengsl og lagði grunninn að fjármögnun félagslega öryggisnetsins og annarra sameiginlegra verkefna, þurfti að víkja fyrir nýju samfélagi byggðu á ótakmörkuðu sjálfsforræði einstaklingsins og sameiginlegri aðild að mannkyninu einum saman. En nýja samfélagsmódelið er rík uppspretta þversagna; það grefur undan félagsauðnum og torveldar þannig fjármögnun samneyslunnar og þess vaxandi kostnaðar sem fellur til við að reyna að mæta afleiðingum sívaxandi fjölbreytileika og halda uppi röð og reglu í samfélagi þar sem félagslegt traust fer dvínandi. Í blindri trú á að menning skipti ekki máli hefur það búið til aragrúa lokaðra samfélaga ólíkra menningarheima, sem gefa gildum þess langt nef þó að þau nýti sér þau í eigin tilgangi. Samfélags­umskiptin hafa þannig falið í sér ákveðið ferðalag í gegnum stækkunarglerið. Það þarf því ekki að koma á óvart að vaxandi átök og óreiða einkenni þau Evrópuríki sem lengst eru komin á þessari leið, þó að samfélagið allt virðist raunar fast í eins konar pyrrhónískri tilraun til að forðast að horfast í augu við þá staðreynd.

Einstaklings- og fjölmenningar­samfélagið býr þannig við þá stöðugu hættu að fíllinn sveigi óvænt af leið og taki stefnuna lóðbeint á postulínsverslunina – það er að ríkjandi kreddur rekist á raunveruleikann. Til að afstýra því skapast sívaxandi þrýstingur á að hið frjálslynda samfélag láti enn frekar undan. Þannig predikar nýi heimurinn sjálfsforræði einstaklingsins en setur í raun þrúgandi takmarkanir á skoðana- og tjáningarfrelsi hans. En það er einmitt ótvíræður réttur einstaklingsins að kjósa eitt umfram annað: fisk umfram kjöt; epli frekar en appelsínur; dægurtónlist frekar en klassík; og þar fram eftir götunum. Það er líka réttur hvers og eins að líka eða mislíka við hinn, þennan, alla eða alls engan, eftir atvikum; að þykja betra að vinna með konum en körlum, eða öfugt, af þeim ástæðum, sem aðeins hver og einn þekkir eða þá af engri sérstakri ástæðu – „af því bara“. Það heitir að beita dómgreind sinni. Það er eðli frelsisins, óaðskiljanlegur hluti af lífi hugans og raunar undirstaða sjálfrar siðmenningarinnar.

Við fyrstu sýn gæti virst sem samfélagsmódelin tvö nálgist einfaldlega einstaklingsfrelsið á ólíkan hátt. En við nánari skoðun er það firra, því frjálslynda samfélagið leyfir meirihlutanum að skipuleggja samfélagið á þann hátt sem samræmist menningu hans og hefðum, jafnframt því sem það veitir einstaklingnum frelsi til að hafa þá skoðun á því þjóðskipulagi sem honum sýnist og tjá hana án óeðlilegra takmarkana. Eins og Anthony Kennedy, þá dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna, komst að orði í áliti meirihlutans í málinu Texas g. Johnson, þar sem rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að það að brenna þjóðfánann félli undir tjáningarfrelsisvernd stjórnarskrárinnar, er það „grundvallaratriði að fáninn verndar þá sem hafa á honum fyrirlitningu“. Einstaklings- og fjölmenningar­­samfélagið þolir hins vegar ekki óhefta tjáningu einstaklingsins og með óraunhæfri áherslu sinni á „jákvætt frelsi“ fellir það meirihlutann undir ægivald minnihlutans.

Fjölbreytileikaboðskapurinn er því yfirborðskenndur því hann skiptir bara út ytri einsleitni og innri fjölbreytileika fyrir ytri fjölbreytileika og innri einsleitni. Fjölbreytileikinn er með öðrum orðum af hinu góða svo lengi sem allir hugsa eins og hafa meðtekið og tileinkað sér doxu hins nýja samfélagsmódels. Hinum sýnir hið nýja samfélag, sem stærir sig þó af meintu umburðarlyndi sínu, engan skilning. Þegar öllu er á botninn hvolft býr einstaklingssamfélagið, sem hófst á uppreisn gegn yfirvaldi og hvers kyns menningarlegri „skilyrðingu“, bara til aðra tegund „skilyrðingar“ byggða á valdi, sem getur ekki gert trúverðugt tilkall til að vera réttmætari en sú sem hún ruddi úr vegi. Þá eru ótalin þau umfangsmiklu afskipti hins opinbera af ákvörðunum og ráðstöfunum einkaaðila sem réttlætt eru í nafni „jafnréttis“ og baráttunnar gegn „mismunun“. En í glímunni við þyngdarafl menningar­­mismunarins er grunnregla hins frjálslynda samfélags um jafnan rétt þegnanna lögð til hliðar í þágu ýmiss konar „jákvæðrar“ mismununar – eins og það heitir á orwellísku máli nýja samfélagsins.

Rökréttur endapunktur þessarar nýju samfélagsgerðar virðist því marka endalok ekki aðeins þjóðríkisins, heldur einnig frjálslyndrar samfélagsgerðar, með þeirri aðgreiningu milli ríkisvaldsins og hins borgaralega samfélags sem einkennir hana. Eitt megineinkenni alræðisríkja er einmitt skorturinn á þessari aðgreiningu; í slíkum ríkjum viðurkennir ríkisvaldið engin takmörk á valdi sínu. Upphafning ótakmarkaðs sjálfsforræðis einstaklingsins og leitarinnar að hinu „raunverulega sjálfi“ er firra, því það sem róttæklingar kalla „menningarlega innrætingu“ er bara eðlileg miðlun menningar og samansafnaðrar visku samfélagsins. Leitin að „algjörri frelsun“ einstaklingsins þýðir í raun annaðhvort stjórnleysi eða alræði, sem er einmitt tvennt af því sem einkennir í auknum mæli vestrænt samfélag.

Sagnfræðingurinn Christopher Clark kaus að gefa bók sinni um fyrri heimsstyrjöldina, sem markaði upphaf þessarar löngu og öfgafullu tuttugustu aldar, titilinn Svefngenglarnir, til að undirstrika þá hugmynd, að þeir sem héldu um stjórnartaumana í Evrópu hefðu gengið líkt og í svefni inn í stríð sem enginn hefði gert sér grein fyrir hvaða afleiðingar hefði. Á sama hátt má segja að í þeirri geðshræringu sem fylgdi falli ástsæls forseta hafi Bandaríkjamenn hrasað inn í heim sem þeir höfðu ekki heldur fyllilega gert sér grein fyrir hvað fæli í sér; og í kapphlaupinu frá þjóðríkinu inn í heim fjölmenningar- og einstaklings­­samfélagsins má greina svipaða tilhneigingu til að æða áfram án nægrar fyrirhyggju eða skýrrar hugmyndar um það hvert ferðinni er heitið. Eflaust er það ekki fyrr en öld öfganna lýkur að hægt verður að vinda ofan af þeim mistökum sem gerð hafa verið og hefja endurreisn frjálslynds samfélags sem byggt er á skynsemi og hófsemd. Líklega er það þó hendingu háð hvort eitthvað stendur eftir af vestrænni menningu að henni lokinni.

Höfundur er fyrrverandi nemandi franska stjórnsýsluskólans.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2020. Heimildarskrá er að finna í prentútgáfu blaðsins.
Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson
.