Umbótaöfl eða hreinræktaðir vinstri flokkar?
Hópur áhrifafólks innan vinstri flokkanna hefur boðað til fundar á laugardag til að ræða „möguleika til samvinnu umbótaaflanna á næsta kjörtímabili,“ eins og segir í fundarboði. Samkvæmt nýjustu könnun Gallup eru flokkarnir með um 63% fylgi.Fundurinn verður í Iðnó og undir stjórn Magnúsar Orra Schram, fyrrverandi þingmanns Samfylkingarinnar, en hann sækist eftir formennsku í flokknum sem heldur landsfund í júní næstkomandi. Málshefjendur eru:
- Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og borgarstjóri.
- Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata.
- Ilmur Kristjánsdóttir borgarfulltrúi Bjartrar framtíðar.
- Margrét Tryggvadóttir fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar.
- Rósa Björk Brynjólfsdóttir varaþingmaður Vinstri grænna.
Á fundinum er meðal annars ætlað að leita svara við spurningum um hvort grundvöllur sé fyrir samvinnu flokkana og hver næstu skref geti verið.Á undanförnum mánuðum hafa miklar umræður átt sér stað meðal vinstri manna um samvinnu í komandi kosningum – jafnvel kosningabandalag. Egill Helgason veltir því fyrir sér hversu langt stjórnarandstöðuflokkarnir eigi „að ganga í að bræða sig saman fyrir kosningar“:
„Í uppnáminu vegna Panamaskjala birtust þau oft saman, forystufólk stjórnarandstöðunnar, fjögur saman, líkt og heild.“
Þessi nána samvinna, sem Egill bendir á, hefur ekki skilað flokkunum miklum árangri – aðeins Vinstri grænir njóta samvinnunnar. Fylgi flokksins, undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, hefur aukist verulega og er nú tæp 20%. Á sama tíma nær Samfylkingin ekki vopnum sínum og tvísýnt er um að Björt framtíð nái manni inn á þing.Þátttaka Helga Hrafns Gunnarsson, hefur vakið athygli en margir túlka hana sem enn eina staðfestingu á að Píratar hafi markað sér fastan bás meðal vinstri flokkanna.Nýjasta könnun Gallup (7.-12. apríl) leiðir í ljós að Píratar eru að missa fylgi og hefur stuðningur við flokkinn ekki verið minni í eitt ár, sé miðað við þjóðarpúls Gallups. Í mars á liðnu ári var stuðningur við Pírata 21,7% en var kominn í liðlega 30% mánuði síðar. Allar götur síðan hefur fylgið verið yfir 30% og mest liðlega 36%. Meðalfylgi flokksins síðustu 12 mánuði fyrir nýjustu könnun Gallup er tæplega 34%.