Sumarhefti Þjóðmála er komið út
Sumarhefti Þjóðmála er komið út og hefur verið dreift til áskrifenda. Auk þess er tölublaðið selt í verslunum Pennans/Eymundsson.Eins og áður er ritið fullt af áhugaverðu efni.Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, fjallar í grein sinni, Í ljósi sögunnar, um stöðu efnahagsmála og hvaða lærdóm stjórnvöld geta dregið af reynslu fyrri ára.Björn Bjarnason, fv. ráðherra, skrifar Af vettvangi stjórnmálanna líkt og hann hefur gert frá upphafi útgáfunnar. Í grein sinni fjallar Björn um breytt vinnubrögð á Alþingi, gerð fjármálaáætlunar, skipun dómara við Landsrétt og fleira.Óli Björn Kárason, þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, fjallar um tíðar hótanir Pírata í stjórnmálaumræðunni og óþol þeirra fyrir andstæðum skoðunum.Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur, skrifar um stöðu Brexit að afstöðnum kosningum í Bretlandi.Gísli Freyr Valdórsson, ritstjóri Þjóðmála, skrifar um ítarlega úttekt Oonagh Anne McDonald sem hrekur aftur mýtuna um nauðsyn þess að aðskilja starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka til að koma í veg fyrir fjármálahrun.Fjölnir, sem er nýr ritstjórnardálkur, fjallar um það hvernig ókjörnir embættismenn með ekkert lýðræðislegt umboð reyna ítrekað að taka völdin í landinu.Þá er fjallað um stöðu Theresu May eftir kosningarnar í Bretlandi, ákvörðun Donald Trump um að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu sem og viðbrögð hægri manna við ákvörðun Trump um að herða aftur á viðskiptabanninu við Kúbu.Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fjallaði um þjóðaröryggismál í nýju ljósi á fundi hjá Varðberg í júní. Þjóðmál birtir meginefnið úr ávarpi Guðlaugs Þórs. Þá er einnig birtur útdráttur úr ræðu Jens Garðars Helgasonar, formanns Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, á aðalfundi samtakanna auk þess sem fjallað er um ávarp Rannveigar Rist, stjórnarformanns Samáls og forstjóra Ísal, á ársfundi Samáls.Þá er fjallað um nokkrar bækur í ritinu. Björn Jón Bragason skrifar um bók Ants Oras, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum, sem kom upphaflega út árið 1948. Björn Bjarnason skrifar um bók Guðrúnar Guðlaugsdóttur, Í hörðum slag – Íslenskir blaðamenn II, þar sem fjallað er um störf blaðamanna á Íslandi. Sigurður Már Jónsson skrifar um bók Yeonmi Park, Með lífið að veði, sem kom út í íslenskri þýðingu í sumar. Loks er birt Kínverska sagan eftir Fréderic Bastiat í íslenskri þýðingu Geirs Ágústssonar.Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda tölvupóst á netfangið askrift@thjodmal.is.